Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 18:00:48 (7144)


[18:00]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að hér hefur talað hinn nýi talsmaður Framsfl. í sjávarútvegsmálum, hv. 11. þm. Reykv. Það var við því að búast að að einhverju leyti gæti kveðið við nýjan tón þegar mannaskipti verða. Það hefur a.m.k. gerst varðandi hinn nýja formann flokksins. En hvað er boðað? Er boðaður nýr tími? Nei. Það er boðað að aftur skuli horfið til þess tíma þegar hv. þm. var aðstoðarmaður í sjútvrn. Engu má breyta. Það skuli halda sig við það sem hinir svokölluðu atvinnumenn í sjávarútvegi vilja og ætlast til að sé gert. Ég vil spyrja hv. þm. Finn Ingólfsson að því: Hverju vill hann breyta í sjávarútvegsmálum í dag? Vill hann lagfæra eitthvað? Er það t.d. vegna þess að hann vitnar svo mikið í atvinnumennina? Tekur hann undir það sem a.m.k. sumir atvinnumannanna vilja? Vill hann fiskvinnslukvóta?
    Það væri fróðlegt að heyra hvað þingmaðurinn segir. En ég vek sérstaka athygli á því að hér hefur talað hinn nýi talsmaður Framsfl. í sjávarútvegsmálum.