Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 18:30:44 (7154)


[18:30]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram í dag mikil umræða á hinu háa Alþingi um mesta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar í bráð og lengd og það mál sem meiru mun ráða en nokkurt annað um hver afkoma almennings á Íslandi verður á næstu árum. Það er enginn vafi í mínum huga.
    Hér hafa auðvitað verið fluttar ýmsar ræður og margt hefur komið fram sem manni hefur fundist skondið. Ég botnaði auðvitað ekkert í því hvernig t.d. hv. 4. þm. Austurl. grét beisklega í morgun og iðraðist fortíðarinnar, iðraðist þess að hann hefði stutt kvótakerfið árið 1990. Ég skal viðurkenna það með

sjálfan mig að þó ég sé auðvitað ekkert fremur en kannski aðrir 100% sáttur við kvótakerfið, þá er ég þó þakklátur fyrir það að ég skyldi taka þá afstöðu að standa með því 1990. Ég er sannfærður um að þau spor sem voru stigin þar hafa skilað því að þrátt fyrir samdrátt hefur sjávarútveginum með hagræðingu, vegna þess að hann hefur búið við þau lög sem þarna voru sett, tekist að mæta samdrættinum og skila þjóðfélaginu þó þeim tekjum að hér hafa haldist uppi sæmileg lífskjör. Við skulum hugsa okkur það að sjávarútvegurinn skuldaði á síðasta ári eina 110 milljarða og skuldir hans hafa aukist á því ári um eina 15 milljarða, en þeir hafa vegna þess hvað þeir hafa verið að gera í vinnslunni og víðar náð verulegum árangri.
    Auðvitað er ég hissa á því að hlusta hér á ýmsar ræður. Mér finnst að flestir flokkar --- mér finnst ég sjá hér gamlan vin koma fram í ræðum flestra þeirra sem tala. Mér finnst að Ragnar Reykás hafi tekið sæti á Alþingi. Menn slá úr og í, menn tala með kerfinu og menn tala á móti því, menn leyfa sér að segja já, já og nei, nei, menn leyfa sér að hafa tvær skoðanir eða fleiri. Þannig að ég er ekkert undrandi á því þó maður eins og Sighvatur Bjarnason í Vestmannaeyjum, eftir að hafa komið hér í þingið, kannski hlustað á svona umræður og komið fyrir nefndir þingsins, sé dálítið áhyggjufullur að eiga ýmislegt undir því sem hér gerist. ( Gripið fram í: Hann hressist nú þegar hann heyrir í þingmanni sínum.) Því að hvaða leikaraskapur er þetta annars? Af hverju setjast menn ekki yfir málið í heild sinni og þora að taka afstöðu með eða móti? Sighvatur orðaði það svo í viðtali við fjölmiðil, ef ég vitna í það, með leyfi forseta, þegar hann var spurður að því hvort hann óttaðist að menn skilji ekki málið til hlítar og skilji ekki hvað ýmis orð jafnvel merkja:
    ,,Ég held að svo sé hugsanlega og sé verið að keyra málin allt of hratt í gegnum þingið. Mönnum gefst ekki tími til að kynna sér málin sem er í raun eðlilegt. Þetta mál er verið að keyra allt of hratt í gegnum þingið. Það liggur í raun ekkert á því. Það þarf að klára ákveðin mál varðandi smábátana og annað sem hægt er að gera núna, hitt er hægt að klára í haust.``
    Þetta segir þessi maður sem þekkir auðvitað þennan atvinnuveg. Undir þessa skoðun taka nú fleiri fiskvinnslumenn um allt land.
    Það má kannski segja við þessar aðstæður að maður hugsar líka til þess að hæstv. sjútvrh., sem við voru bundnar miklar vonir og sem settist í þetta háa embætti og gaf góð fyrirheit, nú er svo komið að enginn veit hvert hann er að fara, enginn hefur hugmynd um hvert hann er að fara. Hann er eiginlega staddur eins og presturinn forðum sem snaraði sér í hnakkinn og þegar hann settist öfugur í hnakkinn og krakkinn spurði: ,,Heyrðu, þú situr öfugt,`` þá sagði prestur: ,,Skiptu þér ekki af því, þú hefur ekki hugmynd um hvert ég er að fara.`` Hvorki ég né fiskvinnslumenn á Íslandi hafa hugmynd um hvert hæstv. sjútvrh. er að fara og hvers vegna hann hefur svo umbylst í sínum störfum, hvers vegna hann hefur breytt um skoðun. Maður sem gekk vasklega upp hlíðina með mal á bakinu með góð fyrirheit í, nú er hann á flótta. Hann hefur ekki náð samstöðu við nokkurn aðila nema kratana í þessu máli. ( Gripið fram í: Er ekki hægt að bjarga sér í söðli í svona málum?) Hann hefur ekki náð nokkurri samstöðu við aðra aðila. Ég vil fara hér yfir nokkur af hans fyrirheitum. Hver voru þau?
    Hann gekk til þessa leiks reifur nokkur og byrjaði á því að skipa nefnd um mótun sjávarútvegsstefnu í ágúst 1991. Hann setti í þá nefnd Magnús Gunnarsson og Þröst Ólafsson, þeir voru skipaðir formenn, en aðrir nefndarmenn voru Árni Vilhjálmsson, Björn Dagbjartsson, Pétur Bjarnason, Vilhjálmur Egilsson, Þorkell Helgason og Örn Traustason. Í byrjun janúar 1991 tók Vilhjálmur Egilsson við formennsku af Magnúsi Gunnarssyni, eins og allir vita. Starfsmaður nefndarinnar var ráðinn Andri Teitsson. Hver voru fyrirheitin sem þessi nýi hæstv. sjútvrh. gaf við upphaf ferils síns? Við skulum íhuga það. Erindisbréfið sem skrifað var nefndinni hljóðaði svo eða kaflar úr því:
    ,,Þeim er falið að móta hliðstæða sjávarútvegsstefnu er tekur til veiða, vinnslu og markaðssetningar sjávarfangs. Þá er nefndinni falið að setja sjávarútveginum framtíðarmarkmið og koma með tillögur um hvernig megi ná þeim markmiðum sem sett verða þannig að sem víðtækust sátt takist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmálin.``
    Þetta segir í þessum fyrirheitum. Hvar er hin sáttfúsa hönd sjútvrh. í dag? Í nauðvörn til þess að bjarga lífi lítillar ríkisstjórnar, sem á hvort sem er fáa daga eftir, þá hefur hann samið af sér, þá hefur hann eyðilagt samstöðuna í sjávarútveginum. Hann hefur ekkert leitast eftir því að ná samkomulagi við Alþingi Íslendinga í málinu. Hann hefur staðið í hrossakaupum við Alþfl. í þessu máli. Hann hefur ekki leitað til stjórnarandstöðunnar og hann hirðir ekkert um það þó að stór hópur manna, sem stundar þennan atvinnuveg, vari hann við og segi honum að gá að sér því hann sé á hættulegri leið. Hann sinnir því kalli ekkert. Hann skiptir sér ekkert af þeim björgunarhring sem hver á fætur öðrum kastar til hans og biður hann um að taka í og snúa við.
    Þetta er hættulegt ferðalag á hæstv. ráðherra og undarlegt að hann skuli fara að með þessum hætti. Hann gerir jafnvel gys að þeim sem vara hann við og henda bjarghringnum til hans. Hann talar um þá í stríðstón og kallar þá atvinnumenn þröngra hagsmuna, sem stunda fiskvinnsluna á Íslandi, veita þúsundum manna um allt land atvinnu. Hann kallar það menn þröngra hagsmuna. Og hann hlustar ekki á orð þeirra þegar þeir segja að þessi nýja stefna muni leiða það af sér að einhver hundruð manna til viðbótar á Íslandi muni tapa atvinnu sinni. Þetta er bara hreint ekkert líkt Þorsteini Pálssyni, hæstv. sjútvrh. Hæstv. ráðherra er bara ekkert líkur sjálfum sér í gerðum sínum. Ég veit ekki af hverju hann hefur gengið þessa leið.

    Hann hlustar ekki eftir því þegar þeir segja líka að þessi stefna sem hér er búið að ná samkomulagi um við kratana muni þýða það að enn á ný muni menn fara að flytja ferskan fisk í stórauknum stíl á erlendan markað þvert ofan í öll fyrirheitin sem hæstv. utanrrh. gaf í EES-samningunum þegar hann sagði að þeir væru lykillinn að stóraukinni fiskvinnslu á Íslandi.
    Hvað er að gerast í heilli ríkisstjórn á Íslandi? Af hverju hlusta menn ekki? Af hverju varðar þá ekkert um það sem sagt er við þá? Af hverju reyna þeir í þessum leik að láta sig engu varða þó að þeir tali með þeim hætti að þeir sem um þessi mál halda í landinu gerist fjandmenn þeirra? Skiptir það engu máli fyrir þessa ríkisstjórn hvort hún nær samkomulagi við þá sem fara með þessi mál, samtök fiskvinnslunnar, samtök útgerðarinnar, verkafólkið á Íslandi? Ég botna þetta ekki. Ég botna ekki þetta ferðalag. Ég hef heldur ekki botnað í þessari ríkisstjórn frá því að hún var mynduð. Hún hefur verið mér hulin ráðgáta eins og fleiri Íslendingum, enda náttúrlega búin að setja hér á ísaldarvetur af mannavöldum, skapa hér meiri neyð og kreppu og samdrátt heldur en við höfum þekkt í áratugi. Situr uppi með atvinnuleysi 8.000 manna, hefur engin ráð til þess að rétta skólafólkinu þegar það kemur út úr skólunum í vor örvandi hönd. Lætur sig engu varða um atvinnulífið á Íslandi.
    Það voru fleiri fyrirheit í þessu bréfi sem hæstv. sjútvrh. setti trúuðum skoðanabræðrum sínum og einhverjum krötum til þess að vinna eftir, en þar segir: ,,Jafnframt er nefndinni falið það verkefni að endurskoða lög um stjórn fiskveiða frá maí 1990.`` En í ákvæði VII til bráðabirgða í þeim lögum segir:
    ,,Sjávarútvegsráðherra skal láta fara fram athugun á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða þar sem m.a. skal leitast við að meta hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Skal athugunin, er m.a. taki mið af reynslu annarra þjóða, beinast að því að meta hagkvæmni einstakra aðferða miðað við íslenskar aðstæður með sérstakri hliðsjón af því hvernig unnt sé að tryggja atvinnuöryggi fiskverkafólks og hagsmuni einstakra byggðarlaga.`` ---Hvar eru þeir hagsmunir í þeirri lagasetningu sem hér á að fara fram? --- ,,Þá skal ráðherra fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.``
    Þannig að þið sem hér hlustið heyrið að það sem ég hef þegar sagt á við rök að styðjast. Það sannast í þessu bréfi að öll þessi fyrirheit eða að miklu leyti þessi fyrirheit hafa verið brotin. Auðvitað hefur sjútvn. Alþingis komið að þessu máli, en hæstv. sjútvrh. hefur ekkert leitað eftir því að ná samstöðu við stjórnarandstöðuna um málið. Er þó ljóst að hún hefur meiri hluta á Íslandi meðal þjóðarinnar í dag og það styttist auðvitað í þau tímamót.
    Síðan segir í bréfi sjútvrh.: ,,Við mótun sjávarútvegsstefnu er það hlutverk stjórnvalda að setja leikreglur og tryggja starfsskilyrði sem gera íslenskan sjávarútveg samkeppnishæfan í helstu viðskiptalöndum okkar.``
    Nú liggur það fyrir hér í glöggum og greinargóðum umsóknum sem hafa borist til sjútvn. Alþingis að menn telja að hér sé verið að stíga skref til þess að gera fiskvinnsluna óhagkvæmari til þess að við eigum erfiðara í þeirri samkeppni sem við vissulega stöndum í um aflann hér við Evrópulöndin. Svo meira að segja Alþb. sem þykist vera orðinn ábyrgur flokkur og kominn með þroska ( Gripið fram í: Hann hefur alltaf verið það.) neitar líka að taka ábyrga afstöðu í þessu máli. ( SJS: Við höfum alltaf verið ábyrgir.) ( Gripið fram í: Þið megið ekki afhenda byggðastefnuna . . .  ) ( SJS: Hvað eru sveitamenn á Suðurlandi að þenja sig?) (Gripið fram í.)
    ( Forseti (GHelg): Forseti vill biðja hv. þingmenn að leyfa hv. 5. þm. Suðurl. að ljúka ræðu sinni.)
    Mér finnst nú í lagi, hæstv. forseti, þó afdaladrengir úr Norðurlandi kalli hér til mín örfá orð og hrekk ekki upp við slíkt, kasti að mér kögglum kaplataðs í hita leiksins. Það snertir ekki Sunnlendinga sem ávallt sáu til sjávar þótt þeir byggju uppi í sveitinni og skilja að sjávarútvegurinn er undirstaða þessa þjóðfélags. Það eru rekstrarskilyrði hans, hagkvæmnisstaða sem ræður því við hvaða lífskjör þessi þjóð býr á næstu árum. Og við erum samherjar í því, ég og auðvitað hv. þm., að vilja stuðla að betri hagvexti og leysa stærstu vandamál þessa þjóðfélags í dag sem vissulega eru atvinnumálin.
    Ég var hér rétt kominn niður á miðja síðu í hinum upphaflegu fyrirheitum sem hinn nýi hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson, var að gefa þjóð sinni, gefa hagsmunaaðilum sjávarútvegsins um nýja framtíð og bætta stjórnun. En þetta verk hefur tekið hæstv. ráðherra ein þrjú ár og síðan skilar hann því því miður með þessum hætti. ( Gripið fram í: Og miðar ekkert.) Miðar ekkert í róðrinum og virðist ætla að brotlenda málinu úti í þjóðfélaginu. Koma því að vísu í gegnum þingið en brotlenda því þá í þjóðfélaginu með þeirri ósátt sem getur leitt til harðra átaka á vinnumarkaðnum á Íslandi, sem væri náttúrlega það skelfilegasta ef það gerðist.
    Hæstv. ráðherra sagði: ,,Í því sambandi er mikilvægt að leikreglurnar séu skýrar og varanlegar og að forsendum ákvarðana verði ekki breytt með skömmum fyrirvara. Traust og framsýn fyrirtækjastjórnun byggist öðru fremur á þessu grundvallaratriði. Þá er ekki síður mikilvægt að efnahagsstjórnun sé í senn traust og nægilega þjál til að bregðast megi tímanlega við ef veruleg vandkvæði steðja að. Skýrsla þessi fjallar fyrst og fremst um stjórn fiskveiða, en hún tekur einnig til meðferðar önnur svið í sjávarútvegi að svo miklu leyti sem þau snerta hlutverk hins opinbera.``
    Já, það eru vissulega alvarleg tímamót þegar sjútvrh. og meira að segja nefndin sem hann skipaði og komst að ákveðinni niðurstöðu, báðir þessir aðilar hafa ákveðið að fara aðra og verri leið heldur en þeir lögðu til í skýrslunni. Ef ég lít ofan í skýrsluna þá segir hér t.d. um aflamarkskerfið:

    ,,Aflamarkskerfi sem leyfir greið viðskipti með aflahlutdeildir er það fyrirkomulag sem stuðlar að hvað mestri hagkvæmni í uppbyggingu sjávarútvegsins. Það treystir atvinnu í sjávarútvegi og í tengdum greinum atvinnulífsins og stuðlar að því að sjávarútvegurinn geti orðið samkeppnisfær um hæft starfsfólk til sjós og lands. Með því verður sjávarútvegurinn áfram burðarás í íslensku atvinnulífi og undirstaða byggðar víðs vegar um landið.``
    Þannig að mikið álit hafði bæði nefndin og hæstv. sjútvrh. á aflamarkskerfinu. Hvað segir nefndin um framsal kvótans:
    ,,Nefndin telur að framsal kvóta eigi að vera frjálst, enda er það forsenda þess að þeir geti keypt aflaheimildir sem best standa að rekstri sinna fyrirtækja og stuðla þannig að hagræðingu í greininni. Nefndin bendir á að ákvæði í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða hafa lítt hindrað viðskipti með kvóta.``
    Nú liggur það fyrir að það stendur til að hindra þessi viðskipti með kvótann og þar með draga úr hagkvæmninni. Og frá hverjum á að ganga fyrst? Auðvitað eru það einstaklingarnir sem eru að burðast við að gera út sín skip. Fyrst skal ganga að þeim. Það eru þeir sem eru líklegastir að menn telja við þessar aðstæður, við þessa skerðingu á framsalinu að falla út.
    Ég er sannfærður um að ef menn fara þessar leiðir sem þeir ætla hér þá eru menn að ganga þá leið að skapa algjöra ringulreið í kringum stjórn sjávarútvegsins og eyðileggja kannski kvótakerfið og gera það að verkum að það fær ekki staðist til framtíðar. Það er hætta í þessu að ýmis áróðursöfl munu auðvitað sjá við þessar aðstæður að kvótinn hlýtur að fara á færri hendur. Ég er ekkert viss um að kvótakerfið þoli slík högg. Ég er ekkert viss um að það þoli það að einstaklingarnir sem hafa gert út báta leggi upp laupana.
    Ef ég lít aðeins á ýmislegt sem menn hafa við þetta að athuga og við skulum aðeins velta fyrir okkur þessum hópi sem hér hefur verið mest gagnrýndur, sem ég minntist á, mennina sem veita þúsundum manna um allt Ísland atvinnu í fiskvinnsluhúsum og eru hræddastir við þær breytingar sem hér á að gera. Við skulum aðeins fara yfir þeirra athugasemdir, en mér finnst þær heiðarlegar og skýrar. Þeir segja hér einmitt um þetta atriði sem ég var að ræða um, mismunun stærri og smærri aðila í útgerð:
    ,,Með takmörkun á veiðiskiptum með veiðiheimildir er útgerðaraðilum mismunað verulega.`` --- Og finnst hæstv. sjútvrh. eðlilegt að mismuna með þessum hætti? --- ,,Heimildir til þess að færa veiðiheimildir á milli báta og skipa innan sömu útgerðar gerir stærri aðilum kleift að hagræða langt umfram það sem einyrkjum býðst að gera.`` --- Er þetta það sem hæstv. sjútvrh. vill? Er þetta það sem hann meinti þegar hann var að setja sína nefnd á laggirnar og móta sína stefnu til framtíðar? Ég er alls ekkert viss um það.
    Sannleikurinn er sá að um leið og þetta gerist þá er það staðreynd, í hagkvæmu kerfi þar sem framsalið er frjálst, að það eru fiskvinnslurnar sem hafa oft og tíðum og hafa á síðustu árum gert það að verkum að þeir hafa getað látið þessar einstaklingsútgerðir veiða fyrir sig hluta aflans. Þeir hafa í rauninni haldið og hjálpað til að halda þessum aðilum gangandi og er það vel.
    Sjálfsagt skapast hér réttaróvissa og mismunun eins og sagt er. Þessir aðilar segja um samráðsnefnd: ,,Ef túlkun sjómannaforustunnar á orðum sjútvrh. um vinnutilhögun samráðsnefndar sjómanna og útgerðarmanna er rétt mundi útgerðarmaður vertíðarbáts þurfa að hækka launagreiðslur til sinna sjómanna í tonn á móti tonni viðskiptum um 25%. Ef framlegð þessa báts hefði verið 10% áður yrði hún mínus 4% eftir þessar greiðslur. Allir sem vilja sjá að þessi viðskipti yrðu úr sögunni ef fiskverðið yrði hækkað á þennan hátt.`` --- ,,Þessi viðskipti yrðu úr sögunni.``
    Það hefur gerst í tíð hæstv. núv. sjútvrh. og ég hef gagnrýnt það oftar en einu sinni, að fiskvinnslufólkið í landi, heilu sjávarþorpin, hafa búið við þá óvissu undir þessu kerfi, þar sem greinarnar hafa verið reknar með miklum halla og menn hafa verið að mæta því með hagræðingu, þá er það þó ein tegund útgerðar sem hefur verið rekin með hagnaði og það eru frystiskipin. Menn hafa horft upp á það á síðustu árum að það hefur orðið stóraukning. Ég hef sagt sem svo að mönnum hefur liðist það í heilu þorpunum að stela þeim um hábjartan dag og fara með þau norður í höf, taka þau upp í heilu lagi, skilja fiskvinnslufólkið eftir og halda með þau til hafs. Árið 1985 voru þrjú frystiskip á Íslandi. Nú eru þau 45 talsins. Þessi útgerð kemur allavega talnalega út með hagnað. Ég hygg að þeir hafi t.d. aukið sína hlutdeild í botnfiskaflanum um 16% á síðasta ári og eru komnir með í heildina 25% af botnfiskaflanum. En þeir valda þeim harmi eða þessi þróun að þorpin vítt og breitt um Ísland eru skilin eftir án atvinnu. ( Sjútvrh.: Reka ekki atvinnumennirnir frystiskip?) Þeir gera það eðlilega með. ( Gripið fram í: Sumir sigla með aflann.) Ég hef ekki, hæstv. sjútvrh., á móti því að hér séu til einhver frystiskip og menn stundi hér úthafsveiðar, en ég get ekki sætt mig við þá þróun að það sé hagkvæmt að fara í smíði á frystiskipum í stórum stíl, eins og hér hefur gerst á síðustu árum, upp á einn og hálfan og tvo milljarða. Taka upp fiskvinnsluþorpin og halda með þau til hafs. ( Gripið fram í: Þetta hefur gerst í kerfinu.) Þetta hefur kannski gerst vegna þeirrar stöðu í rekstri greinarinnar sem ég var að lýsa. Vegna þeirrar óvissu í stefnunni.
    Ég er að minnast á þetta atriði af því að það er sannfæring manna að sú stefna sem nú er verið að taka á hinu háa Alþingi muni verða til þess að stórauka það að menn vilji fara þessa leið ( Gripið fram í: Og samþykkja tillöguna okkar.) og ég vara við því.
    Alþb. hefur ekki verið hér uppi með stórbrotnar tillögur ( JÁ: Þær eru nú fleiri en hjá ykkur samt.) og enga markvissa að mér hefur fundist. Mér hefur fundist að Alþb. vilji fara til fortíðarinnar og kannski aldir aftur í tímann þegar menn reru á hornum út frá ströndum. ( Gripið fram í: Á manndrápsfleytum.)

( Gripið fram í: Ekki Lúðvík.) Á manndrápsfleytum. Mér hefur fundist að sú stefna sé að koma upp hjá þessum afdalaflokki, að þeir eigi ekki göfug markmið miðað við þá öld sem við erum að sigla inn í á Íslandi og í heiminum, ( SJS: Ég held að kúasmalar á Suðurlandi verði nú að fara varlega.) þegar blasir við samkeppni sem við verðum að standast ef við ætlum að verða frjáls þjóð. ( Sjútvrh.: Hefur Framsókn mistekist að ná samstöðu innan stjórnarandstöðunnar?) Framsfl. hefur ekki lagt sig fram um að ná samstöðu innan stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Framsfl. hefur bara staðið sterkur á þeirri stefnu sem hann hefur mótað. Framsfl. hefur eins og fyrr verið tilbúinn að hlusta á rök hagsmunaaðila. Framsfl. lagði sig fram um það hér meðan Halldór Ásgrímsson var sjútvrh. að ná sátt við stjórnarandstöðuna líka á Alþingi Íslendinga. ( Sjútvrh.: Er það bara búið?) Framsfl. ræður ekki ferðinni. ( StG: En hann er enn þá kletturinn í hafinu.) Hann ræður ekki ferðinni. Hæstv. sjútvrh. (Forseti hringir.) talar ekki við stjórnarandstöðuna. Hann er í kofanum hjá Alþfl. að semja um sín mál. Hann lætur það nægja að renna niður um kokið á sér stefnu sem öllum ber saman um að er varhugaverð og þegar sé ég áhyggjusvip á hv. þm. Birni Bjarnasyni. ( Sjútvrh.: Er ekki þingmaðurinn að ná sátt við Alþb.?)
    Hæstv. sjútvrh. Framsfl. er gerður með þeim hætti að hann vill ná samstöðu um þetta mál við sem flesta í þjóðfélaginu. Blessað Alþb. einnig. Við teljum mikilvægt að Alþb. verði ekki skilið eftir á einhverri eyðimörk í þessu máli. Við trúum því að í þeim flokki séu menn sem séu tilbúnir að standa að tillögum í þessu sem stuðlar að hagkvæmum rekstri í sjávarútveginum, stuðlar að því að þessi skuldsetti atvinnuvegur megi ná því að skila hagnaði og auka sína hlutdeild í atvinnu á Íslandi. Því þó við höfum ekki allir greitt atkvæði með EES þá vitum við það, framsóknarmenn, að við eigum ærin tækifæri til þess að fullvinna okkar afla á Íslandi. Þar eru nýir möguleikar sem menn verða að horfa til og það er auðvitað hastarlegt að hæstv. sjútvrh. skuli ekki hafa áttað sig á þeirri staðreynd.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill biðja hv. þm. að forláta en um hafði samist að hlé yrði gert milli klukkan sjö og hálf níu. Hv. þm. hafa nú setið allþétt hér í dag og væntanlegur er kvöldfundur. Þess vegna vildi forseti spyrja hv. þm. hvort hann á mikið eftir ræðu sinnar, hvort hann kýs að ljúka henni fyrir kvöldverðarhlé eða hvort hann gæti sætt sig við að gera á henni hlé.)
    Hæstv. forseti. Þingmaðurinn er fullkomlega sáttur við það að ganga til kvöldmatar.
    ( Forseti (GHelg) : Og gerir þá hlé á ræðu sinni?)
    Já.[Fundarhlé. --- 19:04]
    Hæstv. forseti. Nú sýnist mér að fari betri tíð í hönd því ég heyrði að hv. þm. Egill Jónsson kallaði á Jesú sinn. ( EgJ: Það var vegna þess að þú varst að fara að halda ræðu.) Mér datt í hug að það væri líkt komið með þessum hv. þm. og mörgum öðrum stjórnarsinnum að þeir þyldu ekki að heyra sannleikann um hvernig þeir hafa og hvernig þeir eru að afleiða sjávarútvegsstefnuna og skapa hér mjög hættulegt ástand, sem ég fór mjög ítarlega yfir fyrir kvöldmatinn, þar sem hæstv. sjútvrh. fer allt aðrar leiðir en hann boðaði í upphafi ferils síns, þar sem nefnd sem hann skipaði hefur fallið frá öllum sínum göfugu markmiðum einnig að mestu leyti og þar sem menn hafa sérstaklega brugðist í því að þá varðar ekkert um samkomulag í þessu þjóðfélagi. Þá varðar ekkert um samkomulag á Alþingi. Þá varðar ekkert um samkomulag við stærstu hagsmunaaðilana. Þeir tala jafnvel með skammaryrðum til þeirra manna sem veita 5.000--6.000 manns á Íslandi atvinnu í fiskvinnslunni og þeir hæðast af því þegar varað er við því að þessi kúvending á stefnunni, skerðingin á framsalinu og fleiri atriði muni valda því að fiskvinnslufólkið á Íslandi mun missa sína atvinnu. Og það sem er alvarlegast er að þessi stefna muni leiða það af sér að sjávarútvegurinn, sem er auðvitað mjólkurkýr þessa þjóðfélags, geti ekki með sama hætti og áður skilað því verðmæti til hvers einasta Íslendings eins og hann hefur verið að gera, vegna þess að atvinnugreinin í heild sinni verður hagkvæmari á eftir.
    Þetta er alvara málsins, hv. þm. Egill Jónsson. ( EgJ: Svo mörg eru þau orð.) Þó menn gutli í landbn. og geri þar afglöp þá eru þessi afglöp jafnvel hálfu verri heldur en þau stórkostlegu axarsköft sem hv. þm. stóð þar fyrir á síðasta vetri. Ég er ekki hissa á því þó að hv. þm. Gísli Einarsson, aðstoðarmaður í axarsköftunum í landbn., ætli að veita andsvör þegar sannleikurinn er sagður.
    Hæstv. forseti. Svo bar nú við að meðan ég borðaði ágætan kvöldmat þá allt í einu sást þjóðarleiðtogi á skerminum. ( Gripið fram í: Mandela?) Það var ekki Mandela, það var maður sem stendur þér nær og er þér kærari. ( Gripið fram í: Veist þú nokkuð um það?)
    ( Forseti (VS) : Ekki samtöl af þessu tagi.)
    Er hv. þm. kærari --- hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson. Hvaða boðskap var hann að flytja? Hann var að segja þjóð sinni að hann teldi að það ætti að hefja hvalveiðar. Og upp úr hverju lagði hann? Hann lagði upp úr því að hann yrði að vinna í því að ná samstöðu þingsins um málið og hann yrði að ná samstöðu þjóðarinnar um málið. Hárrétt hjá hæstv. ráðherra. Þannig að öðru hvoru rambar hann á rétta braut. Þess vegna er ég undrandi á því hvernig Sjálfstfl., sem hefur talið sig flokk sem berst fyrir sterku atvinnulífi, mikilli framþróun, hefur fallist á það að láta Alþfl. leiða sig þessa leið. ( Gripið fram í: Eins og í landbúnaðarmálunum.) Auðvitað er það sami hluturinn, hv. þm., og í landbúnaðarmálunum. ( GE: Og förum létt með.) Menn víkja af réttri leið. ( JGS: Og förum létt með, sagði Gísli Einarsson.) Menn víkja af réttri leið. Það er undarlegur hlutur hvað þessi pínulitli flokkur ræður miklu í þessu þjóðfélagi hvað aðalatvinnuvegi landsins varðar. (Gripið fram í.) Ef það væri einhver skynsami í þeirri stefnu sem Alþfl. knýr í gegn á hvoru sviðinu sem er þá skyldi ég taka ofan fyrir honum hattinn, en ég get ekki tekið ofan hattinn fyrir

Alþfl. í þessu efni ( Gripið fram í: Þú verður að eiga hatt.) því ég þykist vita að ætlunarverkið er auðvitað að skapa sundrungu um stjórn fiskveiðanna með önnur markmið í huga sem sjávarútvegurinn ekki þolir. Það er að koma á auðlindaskatti eins og liggur auðvitað í öðru máli fyrir þessu þingi.
    Ég var að halda því fram, hæstv. sjútvrh., að ég hefði hlustað á hæstv. ráðherra í sjónvarpinu boða það að hann yrði að vinna að samstöðu þingsins um að hefja hvalveiðar og samstöðu þjóðarinnar um það mál. Þetta er hárrétt. Ég gat þess að þarna hefði skynsemin enn á ný kveikt vonir um að hæstv. ráðherra mundi kannski á fleiri sviðum vilja fara svipaða leið.
    En ég var í ræðu minni fyrir kvöldmatinn kominn þar sem ég var að ljúka við að ræða um þá ískyggilegu þróun hvernig fiskvinnslan hefur verið að færast á haf út og þær tölur blasa við frá síðasta ári og ein aðalvarnarræða atvinnuhópsins, sem menn kalla svo, er sú að í auknum mæli muni þetta gerast með auknu óhagræði hvað sjávarútveginn varðar.
    Morgunblaðið hefur verið biblía Sjálfstfl. og stundum hefur það orðið hlutverk Morgunblaðsins að taka annaðhvort Sjálfstfl. á kné sér eða rassskella hann með hörkunni þegar hann ætlar rangar leiðir. Auðvitað er það engin tilviljun að Staksteinar Morgunblaðsins leggja á sig að taka upp útvarpsviðtal við Sighvat Bjarnason, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Auðvitað er fólgin í þessari athöfn Morgunblaðsins, að taka þetta viðtal upp, aðvörun. Það er auðvitað fólgin í þessu beiðni til hæstv. sjútvrh. að hann átti sig á því að hann þarf að beygja af þeirri leið sem hann er að fara. Hann þarf að snúa til baka og taka upp þráðinn þar sem hann missti hann og ná heildarsamstöðu við fiskvinnslumennina og fleiri aðila í þjóðfélaginu. Jafnvel leggja það á sig að sem Framsfl. gerði jafnan meðan hann fór með þessi mál, að reyna að ná sem mestri samstöðu við þingið. Það tókst oft og tíðum. Þess var einmitt getið af einum í morgun og sýnir hversu langt Framsfl. náði, hann náði samstöðu við hv. þm. Hjörleif Guttormsson 1990. (Gripið fram í.) Það hefur hlaupið í hv. þm. einhver iðrun sem er ekki á rökum reist því hin slæma staða þessa þjóðfélags væri enn þá verri ef Alþingi hefði ekki náð þeirri samstöðu um það mál sem gerðist 1990. Þá væri bæði staðan í sjávarútveginum og ekki síður í þjóðfélaginu enn þá verri.
    Þess er auðvitað hægt að geta hér undir þessari umræðu þegar menn eru að knýja í gegnum þingið nýja stefnu, sem mun valda hér tekjuskerðingu og óvissu, að þessi ríkisstjórn tók auðvitað við allþokkalegu búi þegar hún kom til valda. Þjóðarsátt í þjóðfélaginu, lægstu verðbólgu um árabil, bjartsýni og trú. Hvernig hefur hún leikið öll þessi fjöregg? Eina vonin eða eina stráið sem hún hefur haldið í er að það er auðvitað enn þá verðbólguleysi, sem betur fer. En hún hefur með efnahagsstefnu sinni skapað mesta atvinnuleysi um árabil, eins og ég hef farið yfir, og það er kannski engin tilviljun því kyndilberi stefnunnar er auðvitað Ágúst Einarsson, sem stökk út úr Seðlabankanum á dögunum. Hann sagði í ávarpi þar í fyrra að ekkert bendi til að atvinnuleysi eigi að vera hér minna heldur en úti í Evrópu og við höfum einmitt haldið því fram að þó að atvinnuleysið sé orðið meira en ríkisstjórnin kannski vildi, þá sé það nú meira af manna völdum heldur en nokkurn grunar.
    Það er nú svo að mér finnst að hæstv. sjútvrh. hljóti, og vil treysta honum til þess, að skoða þetta mál á milli 2. og 3. umr. út frá ýmsum rökum sem hér hafa komið fram og ekki síður þeim rökum greinarinnar sjálfrar og umsögnum um frv. sem hér liggja fyrir frá ýmsum aðilum, þar sem menn vara hiklaust við stefnunni. Það verður að hafa í huga heildarhagsmuni þjóðarinnar og þá staðreynd að sjávarútvegurinn er langmesta auðsuppsprettan. Og ef við göngum þar ranga leið núna við erfiðar aðstæður, þá munum við skerða lífskjör almennings. Það er kjarni málsins. Því hagkvæmni sjávarútvegsins skiptir sköpum fyrir sérhvern einstakling í samfélaginu, ekki síst á tímum minnkandi þjóðarframleiðslu.
    Því hafa fulltrúar Framsfl. hér sent frá sér nefndarálit þar sem minnt er á þessi aðalatriði. Þeir telja það mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem hefur ríkt og fest í sessi þá fiskveiðistefnu sem hér hefur verið rekin. Þeir harma það hins vegar að ekki hefur þótt ástæða til að reyna að skapa breiðari samstöðu um málið, eins og ég hef margrakið hér, hæstv. sjútvrh. Það er harmsefni, það er áhyggjuefni og það veldur mikilli óvissu um framtíðina, ekki bara fyrir þá sem vinna við sjávarútveginn, það snertir hvern einasta Íslending ( EgJ: Hvað eru það mörg prósent?) Sem þetta snertir? Ég hygg að 5--6 þúsund manns, hv. þm., vinni t.d. í fiskvinnslunni. (Gripið fram í.) Þar er mikill vafi. Það getur vel verið að hv. þm. Agli Jónssyni sé hlátur í huga. En það kann að vera . . .  ( JGS: Þeim er það ekki á Hornafirði.) Nei, ég hygg að þeim sé það ekki á Hornafirði og þær verði kaldar vorkveðjurnar sem mæta þessum hv. þm., sem með bros á vör hér ætlar að kokrenna þessari kratastefnu og skapa fiskvinnslufólkinu á fjörðunum eystra þá óvissu sem nú blasir við. Og því munu fylgja miklu meiri erfiðleikar í rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna en menn gera sér grein fyrir.
    En þetta er kannski einn þeirra þingmanna sem vill hafa erfiðleika. Honum þykir gaman að koma á austfirsku firðina þegar vandamál eru og fara með erindisbréfin suður og þykjast leysa þau. Gamli fyrirgreiðslupólitíkusinn frá síðustu öld situr hér og hlær undir þessari umræðu. Þeim er ekki hlátur í huga eystra, hv. þm. Það er kannski gaman að bera bréfin suður og þykjast leysa erfiðleika fyrirtækjanna með því að eiga einhverja ráðherra í völtum stólum. Þannig mega menn bara ekki stjórna við breyttar aðstæður, við nýjan tíma og meiri samkeppni en Íslendingar hafa nokkru sinni búið við. Við verðum að hafa það sem markmið, alþingismenn Íslendinga, að skapa atvinnulífinu öryggi.
    Hinn nýi formaður Framsfl. talaði um að setja kastljósið bara 50 ár fram í tímann. Auðvitað er þetta hárrétt. Þið eruð að gutla á lágum ljósum og horfa nokkra mánuði fram í tímann og yfirleitt hafið þið

horft aftur á bak á ykkar ferli. Þið hafið verið í vandamálum við fortíðina.
    Það getur vel verið að þetta gleðji þigmenn, en mér er harmur í huga frekar því að menn eiga auðvitað að horfa fram á veginn. ( Gripið fram í: Ekki eru þetta markmið?) ( Gripið fram í: Það endar með ósköpum.) ( Sjútvrh.: En af hverju ekki 100 ár?) Auðvitað á að hafa langtímamarkmið, hæstv. sjútvrh. Ég veit að hæstv. sjútvrh. er það ábyrgur að hann vill horfa þannig að börn hans búi við öryggi. Þess vegna þurfa menn að keyra bæði á lágum ljósum og háum þegar þeir móta stefnu. ( Gripið fram í: En ef það er þoka?)
    Já, hæstv. forseti. Fjórir milljarðar fara nú á ári hverju í atvinnuleysisbætur á Íslandi. Slíkt er ástandið. ( GE: Fyrir sex milljarða er hent í sjóinn.) Auðvitað er það stór fullyrðing að miklum fiski sé hent í sjóinn, en það er eitt af þeim atriðum sem menn verða að horfa til. Ég get tekið undir það með hv. þm. Það er alvarlegur hlutur ef þær ásakanir eru sannar að menn hendi fiski í sjóinn svo tugum milljóna skipti. Ég trúi því ekki. Ég trúi þeim fullyrðingum ekki. Ég geri mér grein fyrir að það er í einhverjum mæli, en ég ber ekki þann glæp á íslenska sjómenn eins og Alþfl. leyfir sér. ( GE: Þeir bera það sjálfir inn í nefnd.)
    Hér hefur verið minnst á nokkur atriði undir þessari umræðu. Það hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum að þeir telji að setja eigi allan fisk á markað. Ég get ekki tekið undir þessa skoðun og teldi hana skref aftur á bak og mundi valda enn fremur mjög mikilli óhagkvæmni. En það er eins og ég hef hér sagt fyrr, að menn slá úr og í, segja hitt og þetta sem ekki fær staðist. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að þeir menn sem sitja fyrir Framsfl. í sjútvn. eru á móti fiskvinnslukvóta. Ég get vel hugsað mér að skoða þá leið að einhverju marki. Ég er ekkert að segja að hún sé fær. Ég er ekkert að segja að hún sé hagkvæm. En það er náttúrlega hryllilegt til þess að hugsa þegar skip fara frá heilu byggðarlögunum og með allan afla með sér.
    Aðalatriðið er að fiskveiðistefnan sé mótuð nokkur ár fram í tímann og að hæstv. sjútvrh. leiði greinina í heild sinni og sátt. Það finnst mér aðalatriðið. ( JGS: Er ekki aðalmálið að ríkisstjórnin fari frá?) Vissulega er það stórt mál að hæstv. ríkisstjórn láti af störfum. Það er mikið mál að ríkisstjórn sem er búin taki hvíldina. Ég hygg að það sé svo að Sjálfstfl. viðurkenni að með Alþfl. er auðvitað ekki starfandi við þessar aðstæður og horfi með kvíða til þess ef honum tekst ekki á einhverjum punkti í sumar að rjúfa þetta vonlausa samstarf og efna til kosninga. En ég óttast að þetta samstarf hangi saman á einhverjum bláþræði og menn komist ekki hvor frá öðrum.
    Nei, þó að ríkisstjórnin vilji ekki ná samkomulagi við stærstu aðilana í sjávarútveginum, þá hikar hún ekki við þegar deilur koma upp á milli sjómanna og útgerðarmanna að skunda til Alþingis --- já, og skunda ekki til Alþingis heldur setja bráðabirgðalög til þess að fresta því að menn nái saman um sín deilumál. Þetta er auðvitað ekki gott atriði.
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokum hverfa til upphafs ræðu minnar. Ég lagði áherslu á það í máli mínu hversu hæstv. sjútvrh. hafi illþyrmilega verið hrakinn af leið. Hann setti við upphaf ferils síns göfug markmið og ég trúi því ekki enn að hann muni ekki á milli umræðna leita leiða til þess að ná saman um málið. Ég trúi því ekki að hann ætli að lögsetja þetta mál hér og Þróunarsjóðinn einnig til þess að skapa þá óvissu að jafnvel honum verður ekki vært í sæti sínu. Það er ekkert glæsilegt að vera ráðherra yfir atvinnuveginum þegar allir aðilar málsins eða alla vega þeir sem mestu ábyrgðina bera eru mjög ósáttir. Ég flutti hér í upphafi erindisbréf sem sýnir vel hvert hugarfar hæstv. sjútvrh. bar í upphafi ferils síns. En þegar hann skipaði nefnd, þá fól hann henni eftirfarandi:
    ,,Að móta heildstæða sjávarútvegsstefnu er tekur til veiða, vinnslu og markaðssetningar sjávarfangs. Þá er nefndinni falið að setja sjávarútveginum framtíðarmarkmið og koma með tillögur um hvernig megi ná þeim markmiðum sem sett verða þannig að sem víðtækust sátt takist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmálin.``
    Þetta var grunntónninn í upphafi hjá hæstv. sjútvrh. og ég vil óska þess, hans vegna, þjóðarinnar vegna, að hann megi hér hverfa frá stærstu vanköntunum sem menn eru hræddastir við í þessu frv. um stjórn fiskveiða.
    Ég sagði hér áðan að ég væri þakklátur fyrir það að ég hefði stutt þessa lagasetningu 1990 vegna þess að ég er sannfærður um að hver einasti Íslendingur væri verr settur ef það hefði ekki tekist. Þess vegna verður það kannski sorglegt fyrir hv. þm. Vilhjálm Egilsson, þegar hann fer að rifja upp eftir þrjú ár hvernig hann greiddi atkvæði, að þurfa þá kannski að iðrast og gráta fortíðina beisklega eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði hér í morgun. ( VE: Þar náði hann fiskvinnslukvótanum í gegn.) Og það gæti vel verið að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson rifji þá upp þau göfugu markmið sem nefndin komst að á ýmsum sviðum. Ég er ekki að segja, að ég sé alfarið sammála því, en bæði var það svo að leiðbeining sjútvrh. var skynsamleg og nefndin settist að störfum af skynsemi, en nú eru menn því miður að fara út í óvissuna. Ekki bara með þessa flokka, það mundi nú litlu máli skipta, þeir eru að fara út í óvissuna með afkomu hvers einasta Íslendings með þessari kúvendingu. Þeir eru að fara út í óvissuna með störf fiskvinnslufólksins um allt Ísland. Þeir eru að fara út í óvissuna og skapa þá hættu að í stórauknum mæli muni fiskvinnsla fara á haf út, að í stórauknum mæli muni afli á nýjan leik verða fluttur óunninn á erlendan markað.
    Ég skora á hæstv. sjútvrh. að skoða þetta mál á milli umræðna, ræða við aðila og taka síðan skynsamlega afstöðu. Ég veit að hann er það sterkur í sínum flokki eða ég vona að hann sé það, að hann gæti

náð þeirri niðurstöðu fram og hann beri gæfu til þess að láta sig þá engu máli skipta Alþfl. litla.