Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:52:00 (7168)


[21:52]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er alveg steinhissa. Ég trúi því ekki að hv. þm. líti svona á málið. Að hann sé að líkja þessu við það að menn geti ekki fengið að heyja fyrir skepnurnar og fái ekki að kaupa hey. Ég lít allt öðruvísi á þessa hluti. Ég tel að við eigum að hafa þetta fiskveiðistjórnunarkerfi það sveigjanlegt að t.d. þau fiskiþorp sem eru til vegna fiskimiðanna fái að njóta þess þegar betur fer að veiðast, en að það sé ekki þannig að menn sem eiga veiðiheimildirnar annars staðar í landinu geti setið yfir hlut þeirra sem beðið hafa betri tíðar, beðið eftir því að það færi að ganga meiri fiskur á miðin. Svona fiskveiðistjórnunarkerfi er ekki skynsamlegt og það verður mjög erfitt og mun reynast það lengi að útskýra fyrir mönnum hvers vegna þarf að viðhalda slíku kerfi.