Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 22:02:12 (7175)


[22:02]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég sannfærðist um það í þessu svari hv. 3. þm. Vesturl. að það er mikill misskilningur á ferðinni. Ég sagði í svari mínu áðan að ég hefði aldrei dregið það í efa að afli á hvern úthaldsdag hefði dregist saman. Þetta eru mjög einfaldir reikningar og það þarf enga stofnun eða Fiskistofu til að reikna slíkt út, menn hljóta að sjá þetta. Það sem skiptir hins vegar höfuðmáli er hver kostnaðurinn er við að ná þessum afla, hver er kostnaður útgerðarinnar við að ná hverju tonni. Ef hann hefur minnkað, sem hann hefur gert, kostnaðurinn hefur minnkað hjá útgerðinni og ég þori ekkert að segja til um hvað hann hefur minnkað upp á síðkastið á milli ára. Hann minnkaði á bilinu 15--20% á fyrsta ári og auðvitað geta menn ekki haldið endalaust þannig áfram að minnka kostnaðinn þannig að hann hefur minnkað eitthvað minna á milli ára hin síðari ár. Það er ég sannfærður um.