Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 22:41:06 (7180)


[22:41]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það verði dálítið torvelt fyrir þingmenn Framsfl. að finna beinu brautina eftir vinkilbeygjuna sem þeir hafa tekið. Menn verða að gera sér grein fyrir því að kröfur um óheft framsal aflaheimilda og yfirlýsingar um að slík athæfi feli í sér milljarða króna sparnað eru jafnframt yfirlýsingar um það að kerfið sé vitlaust af því að kerfið grundvallast á því að úthluta tilteknum aðilum heimildir til að veiða sjálfir. Þær heimildir eru ákvarðaðar á grundvelli aflareynslu þeirra sem heimildirnar fá. Yfirlýsingar um að frjálst framsal verði að vera sem mest óhindrað jafngildir því að menn séu að segja að til þess að spara í kerfinu verða aðrir að veiða en að fá úthlutað. Ef kerfið er svo gallað að það úthlutar vitlaust þá eiga menn að stokka upp á nýtt en ekki að reyna að lappa upp á þennan óskapnað.