Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 00:13:00 (7206)


[00:13]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil fyrst geta þess að ég hef aldrei lagt það hv. þm. Árna Johnsen til lasts að mér hefur virst hann útskeifur. Ég hef talið sérstaka ástæðu fyrir þessu en fer ekki að gera grein fyrir því nú. En burt séð frá því þá er getur margt komið fram í umræðum um sjávarútvegsmál ( ÁJ: Hver er ástæðan?) og ég vildi spyrja hv. þm.: Hvaða ráðherra var það sem kom fyrstur á kvótakerfi á Íslandi? --- Það kemur ekkert svar. ( StG: Árni ber af sér sakir.)
    ( Forseti (SalÞ) : Það er ekki ætlast til að menn talist við í salnum.)
    Nei, enda er það greinilega virt og þarf þess vegna ekki að ávíta mig fyrir það þó að ég varpi fram spurningu.
    Ég tók með mér lagasafnið og vil lesa það sem stendur á bls. 1699 í lagasafni frá 1990, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lög um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar sem háðar eru sérstökum leyfum.
    Sjútvrn. getur samkvæmt lögum þessum sett almennar og svæðisbundnar reglur er stuðli að samræmingu milli veiðiheimilda samkvæmt sérstökum leyfum ráðuneytisins til rækju- og skelfiskveiða og vinnslugetu þessara greina fiskiðnaðarins, m.a. með skiptingu afla milli vinnslustöðva og eða þeirra báta sem veiðileyfi hljóta.``
    Þetta er árið 1975. Hver var ráðherra þá og hvaða áratug óstjórnar þurfti hann að hafa í huga til þess að beita sér fyrir þessari lagasetningu? Skyldi hv. þm. Sturla Böðvarsson vita deili á því í Stykkishólmi að þar var sett á kvótakerfi 1975? Það er nefnilega dálítið sérstæður hlutur að það skuli vera rætt um kvótakerfið eins og það hafi orðið til í stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar sem sjútvrh. landsins. Hver var sjútvrh. 1975? Var það ekki Matthías Bjarnason, hv. 1. þm. Vestf.? Var það þá óstjórnartímabil viðreisnar sem knúði á um kvótakerfi á þessum tíma? Hvorugur þeirra þingmanna sem áðan töluðu með mikilli vandlætingu um kvótakerfið sem slíkt vildi kannast við þessa staðreynd eða vera maður til að muna eftir því. En ef þetta er rangt þýðir þá að sakfella þann ráðherra fyrir þessi lög? Alþingi Íslendinga setur lög en ekki ráðherrar. Þess vegna er það tómt mál að tala um að hægt sé að setja þetta upp með jafneinföldum og fáránlegum hætti og gert þegar menn telja að einn stjórnmálaflokkur setji lög í landinu. Það gengur ekki upp.
    Ég ætla, herra forseti, að lýsa því yfir, sem ég geri sárasjaldan, að á þessari stundu sakna ég hæstv. viðskrh. ( GunnS: Jóns Sigurðssonar?) Nú tölum við um lifendur í þeirri stöðu og höldum okkur við staðreyndir. Hæstv. viðskrh. er þingmaður Vestfjarða einnig og þó að einhver frægasti atkvæðasmali í hópi krata á Ísafirði og stórsnillingur á því sviði, lærifaðir Matthíasar Bjarnasonar í pólitík, skáldið Guðmundur Hagalín, hafi getað leyft sér það að fara í lopapeysu og klofstígvél rétt fyrir kosningar og labba þannig um götur Ísafjarðar þá passar það illa hjá hæstv. viðskrh. að taka alltaf umræður um kvótakerfið vestur á fjörðum en forða sér þegar átökin eru í þinginu og hann er í stjórnaraðstöðu. Það er að mínu viti einhver lengsti flótti sem um getur sem er brostinn á núna. En vænt þætti mér um ef hæstv. ráðherra gæti verið við 3. umr. um þetta mál vegna þess að því hefur stöðugt verið haldið fram að kvótakerfið sem slíkt, eitt og sér, valdi bæði hruni á Vestfjörðum og einnig því ástandi sem er í atvinnumálum Íslands. --- Ég verð að víkja ögn lengra frá til að ná vopnum mínum í þeirri umræðu sem hér fer fram.
    Það kom fram hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að þeir keyptu Rússafisk á Króknum. Ég flutti frv. um það ár eftir ár að heimila Íslendingum að kaupa fisk af erlendum veiðiskipum, þorði þá ekki að tala um nema Grænlendinga og Færeyinga af því að Rússar voru heimsveldi og menn voru hræddir um að

þeir mundu taka landið ef þeir kæmu hér að. En hver eru viðbrögðin? Það var stöðvað ár eftir ár að heimila þetta. ( Gripið fram í: Hver stöðvaði það?) Það var stöðvað í efri deild. ( Gripið fram í: Halldór Blöndal.) Nei. Það voru fleiri sem unnu það verk.
    Hæstv. sjútvrh. studdi þetta mál á sínum tíma. Hæstv. sjútvrh. flutti frv. þar sem hann opnaði fyrir þetta seinna en frv. var þrengt í þinginu. Er það atvinnustefna fyrir Íslendinga að banna að skipi sem kemur til Reykjavíkur og vill fá þjónustu sé seld sú þjónusta? Er það heilbrigð atvinnustefna að standa þannig að málum? Ég segi það hreint út að það eru snarruglaðir menn sem þannig starfa og bjóða atvinnuleysinu heim fyrir þessa þjóð. Það vantar nefnilega númer 1, 2 og 3 heilsteypta atvinnustefnu fyrir landið. Meðan vitræn atvinnustefna er ekki til þá er aldrei talað um neitt annað þegar peningar eru settir í atvinnumál en nú eigi að fara að kaupa og kvóta og skip og slást við nágrannana um þessa möguleika.
    Það er rétt að fyrrv. iðnrh. slátraði um 2 þús. störfum í iðnaði í landinu. Núv. iðnrh. hefur barið sér á brjóst og ætlað að bjarga skipasmíðaiðnaðinum. En það fór fyrir honum eins og þegar læknir mætir í vitjun og á ekkert annað erindi en að skrifa undir dánarvottorðið. Það var staðan. Ef íslenska þjóðin nær ekki vopnum sínum í því að byggja upp íslenskan iðnað og ef við sameinumst ekki um að setja fjármuni í það, meðan við bönnum íslenskum iðnaðarmanni að fá vinnu við erlent veiðiskip vegna þess að menn vilja rífast fremur um rétt til veiða utan íslenskrar landhelgi en eiga hlutdeild í auðæfum hafsins með því móti að veita þjónustu við erlend skip, þá erum við á villigötum.
    Ég kom til Austfjarða á þeim tíma þegar fyrstu skipin voru að selja þar rússneskan fisk og við borguðum með dollurum. En með hverju vildu Rússarnir að við borguðum? Þeir vildu að við borguðum með ferskri síld. En hvað sagði sjútvrn. við slíku? Nei, síldin skyldi í bræðslu á rúmlega loðnuverði. Þorskinn skyldi borga með dollurum og skipin sigldu til Færeyja til að kaupa síldina til að fara með heim til Rússlands og fæða fólkið. Ég skil ekki atvinnustefnuna sem er svo steinrunnin undir skrifræðisfargi ofstjórnar og eftirlits sem birtist í þeim tveimur dæmum sem ég hef nefnt.
    Við höfum verið að fárast yfir því þegar Hólmfastur var hýddur fyrir að hafa selt fimm fiska á vitlausum stað. En enn er verið að hýða menn í landinu með fjársektum og lögregluaðgerðum ef þeir reyna að bjarga sér með eðlilegum hætti. Hvað hefði verið gert við Austfirðingana ef þeir hefðu verið svo skynsamir að láta síld í staðinn fyrir dollara fyrir þorskinn? Þá hefði verið hringt í sýslumenn svæðisins og þeim skipað að stöðva slík viðskipti. Hvað átti að gera þegar iðnaðarmennirnir vildu þjóna skipinu fyrir utan Reykjavík? Þá var hringt í handhafa framkvæmdarvaldsins og þeim skipað að stöðva aðgerðina. Þetta er atvinnustefnan sem blasir við.
    Ég trúi því ekki að mönnum sé ekki ljóst atvinnusamhengið í þessum hlutum. Hefði ekki verið nær að líta svo á að Ísland gæti verið þjónustustaður fyrir þau skip annarra þjóða sem stunda úthafsveiðar, gera við skip þeirra, selja þeim kost og margt, margt fleira? Hefði ekki verið nær að borga fyrir rússneska þorskinn með síld í staðinn fyrir að nota dollara? Auðvitað vilja menn ekki ræða þetta. Hvert stefnum við í dag? Hvert stefnir íslenska þjóðin með sama áframhaldi? Tæknin heldur áfram, nýja skipið getur aflað mun meira en gamla skipið. Tækjakosturinn verður betri og betri. Afleiðingin er einföld. Það þarf færri og færri menn til að stunda veiðarnar alveg eins og gerst hefur í íslenskum landbúnaði. Og við erum að skapa innbyggt atvinnuleysi í báðum greinunum. Nú er svo komið að við erum búnir að opna landið með EES-samningum þannig að atvinnuleysið á Íslandi verður trúlega svipað og það er í Evrópu. En hvert er atvinnuleysið í Evrópu? Gera menn sér grein fyrir því hvað það er mikið?
    Í Frakklandi, þar sem hægri menn og kratar stjórna eins og á Íslandi, er fjórði hver ungur maður í París atvinnulaus. Fjórði hver ungur maður í París er atvinnulaus. Sami hópurinn og varði Frakkland í stríðunum, heimsstyrjöldinni fyrri og heimsstyrjöldinni síðari, er settur til hliðar í því ríki. Hann er ekki nothæfur. Hann er hafður á bótum. Hann er geymdur á varamannsbekkjum en ekki hafður með. Og menn halda að það verði friður á meðan öldungaráðið starfar á þennan hátt. Það verður enginn friður. Stjórnin ætlaði að herða að þessum æskulýð. Þeir fóru í aðgerðir, höfðu betur, og þegar við fögnuðum sigri yfir ríkisstjórninni í málinu þá kveiktu þeir í verslunum í miðborg Parísar og veltu um bílum og kveiktu í þeim líka. Hvað þarf atvinnuleysið í Reykjavík að verða mikið til þess að farin verði kröfuganga niður Laugaveginn og kveikt í verslununum sem þar eru, bílunum velt um koll og þeir látnir brenna? Hvað þarf að byggja mörg tukthús á Íslandi til að stöðva slíkt? Hvað þarf að fjölga mikið í lögreglunni ef menn ætla að halda óbreyttri stefnu? Mér er ljóst að það er búið að kaupa lóðina undir tukthúsið, en ég er ekki jafnviss að hægt sé að stjórna landi þar sem atvinnuleysið er komið á þetta stig.
    Það var athyglisvert, og það veit ég að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson getur vottað að í ræðu forseta Frakklands, sem við hlýddum á báðir, hafði hann áhyggjur af einum hlut öðrum fremur. Það var sú staðreynd að hann hafði áhyggjur af atvinnuleysinu. Og ef íslenska þjóðin mótar ekki heilsteypta atvinnustefnu, ef Alþingi Íslendinga mótar ekki heilsteypta atvinnustefnu, þá siglum við inn í nákvæmlega sama farið og við erum byrjaðir. Hrunið í iðnaðinum undir forustu seinasta iðnrh., sem stýrði því ráðuneyti á undan núv. hæstv. iðnrh., var svo mikið að það tekur meira en áratug að byggja það upp sem þá hrundi.
    Það getur vel verið að menn segi: Það er hægt að tala um sjávarútveginn alveg sér. Það er hægt að tala um veiðar og vinnslu alveg sér og það er hægt að tala um fiskveiðar án þess að hugsa um vinnsluna, segja e.t.v. aðrir. ( Gripið fram í: Og gera grín að vinnslunni.) Og gera grín að vinnslunni. En það var mikil lífsreynsla fyrir þann sem hér stendur, sem ég hygg að hafi aldrei hlustað á nokkurn stjórnmálamann tala oftar um nauðsyn þess að byggja upp iðnað í landinu en dr. Gylfa Þ. Gíslason, sem þá var foringi Alþfl., að horfa svo á það að þegar til valda var kominn iðnrh. úr röðum Alþfl., vel menntaður og hlaut að hafa þekkingu til þess að taka á þeim málum, þá skyldi það gerast að ekki virtist skipta hann neinu máli hvort íslenskar hendur hefðu atvinnu. Það var eins og viðskrh. réði öllu en iðnrh. engu, en það var sami maðurinn sem gegndi báðum embættunum.
    Einar Ben. sagði: Í mér búa tveir menn, skáldið og dóninn, þeir talast aldrei við. Og það var rétt að í kvæðum hans gætti hann orða sinna. En hæstv. iðnrh. virtist aftur á móti verða svo gersamlega undir í viðskiptunum við viðskrh. að örlög íslenskrar þjóðar urðu atvinnuleysi og það er vaxandi. Við erum rétt að byrja. Og ef við tæmum alla sjóði sem við höfum til þess að borga atvinnuleysisbætur í staðinn fyrir það að byggja upp atvinnu í landinu þá verður erfitt að snúa dæminu við eftir að sjóðirnir eru orðnir tómir. Þess vegna tel ég gersamlega vonlaust að tala um þetta á þann hátt sem gert hefur verið, að neita að horfa á þetta sem eina heild.
    Á áratug framsóknarmanna frá 1970--1980 var talað um að samræma veiðar og vinnslu, ná samræmi á milli veiða og vinnslu. Þetta samræmi hefur verið rofið. Það hefur ekkert verið gert til að kaupa hráefni til landsins með skipulögðum hætti sem gæti orðið til þess að draga úr atvinnuleysinu. Það hefði verið hægt að kaupa nægar birgðar af þorski frá Rússlandi með skipulegum hætti. Það þurfti að tryggja Rússunum eðlilegt verð á þeirri olíu sem þeir keyptu. Það þurfti að tryggja þeim að þeir gætu keypt kost á eðlilegu verði og það þurfti að gera samninga um þessa hluti. En í staðinn er ekkert gert. Og sumt af skólafólkinu sem fer til vinnu í sumar ( Gripið fram í: Ætlaði að fara.) fær vinnu en sumt af því fær enga vinnu. Um leið er verið að loka leið margra æskumanna í sókn þeirra til menntunar og uppbyggingar í sínu lífi.
    Ég verð að segja eins og er að ég held að núverandi ráðherrar Alþfl. þyrftu að lesa Skilmálana eftir Þorstein Erlingsson. Sennilega ætti það að vera skylda að enginn þeirra yrði settur í ráðherrastól nema hann kynni það kvæði utan að. ( Gripið fram í: Hvaða kvæði?) Skilmálarnir, eftir Þorstein Erlingsson. Lesir þú ei allt gegnum annarra gler, er m.a. í þeim texta.
    Við deilum grimmt um stjórnun fiskveiðanna. Það er sagt að þessi þjóð lifi á tveimur lífbeltum, græna beltinu upp frá ströndinni og brúna beltinu út frá ströndinni. Við gáfum í þjóðargjöf 1 milljarð til þess að styrkja græna beltið upp frá ströndinni. Það er rætt um þjóðargjöf á Þingvöllum í sumar. Sú eina þjóðargjöf sem nokkurt vit er í að gefa er að gefa helst 2 milljarða til þess að styrkja brúna beltið út frá ströndinni. Eins og kemur fram í skýrslu þeirri sem starfshópurinn sem sjútvrh. skipaði um stjórn fiskveiða þá blasir við að það er þekkingarleysið á hafinu, þekkingarleysið á lífríkinu sem er sá fjötur um fót að við náum ekki vopnum okkar í því hvernig við eigum að standa að veiðunum.
    Við höfum rannsakað suma hluti. Við höfum notað neðansjávarmyndavél til að fylgjast með því hvernig við stöndum að hörpudiskveiðum í Breiðafirði. Það var haldið áfram að plægja með plógnum eftir að hann var orðinn fullur, einum þriðja tíma lengur en þurfti og þá muldi plógurinn skelina vegna þess að menn vildu vera öruggir um að plógurinn væri fullur þegar hann væri tekinn upp. Þannig erum við að eyðileggja lífríkið. Og það fer ekkert á milli mála að það er fyrst og fremst alvarleg háðung fyrir Alþingi Íslendinga að hér skuli vera umhvrh. sem að sjálfsögðu ætti að hafa það sem höfuðmarkmið að vinna að því að tryggja það að lífríkið út frá ströndinni sé ekki eyðilagt en þá er hann kominn fastur í hagamýsnar og ákveðinn í að vernda þær ef skilja má rétt stöðu málsins, þ.e. utan dyra. En þjóðin þarfnast þess vissulega að tekið sé á þeim vandamálum að drauganet veiði ekki fisk við strendur landsins, þorskanetin séu dregin úr sjó og veiðisvæðið sé hreinsað.
    Í Breiðafirði gerðist það fyrir nokkrum árum að farið var í að hreinsa fjörðinn af grásleppunetum eins og menn gátu. Það var ekkert smáræðismagn sem þeir drógu upp af netum. Á togvírum og trollhlerum togskipanna koma af og til netadræsurnar upp en það er þögn um málið. Það er ekki verið að segja frá því að þegar verið er að leggja net út á kantana á hraunbrúnirnar þá geta þau farið fram af og lokað hillunum sem eru í sjónum í fjalllendi þess landslags sem þar er. Þessar sömu hillur hafa verið bústaðir fyrir þorskinn til hrygningar.
    Norðmenn hafa gert rannsóknir á því hvort þorskurinn skili sér til ákveðinna svæða. Það eru miklu meiri skil hjá þorskinum til sinna hrygningarsvæða en hjá laxi. Það er yfir 30%. E.t.v. er það skýringin á því að þorsklaust er hvorki við Vestfirði eða Snæfellsnes eftir að Breiðafjörðurinn var friðaður fyrir netaveiði fyrir innan viss svæði og þar hefur fiskurinn fengið að hrygna í friði. Norðmenn eru fyrir löngu búnir að banna að fara með svo mörg net á sjó og leggja þau þar, skilja þau eftir og fara svo aftur í land og ætla að sækja þau seinna. Slík vinnubrögð eru einfaldlega ekki liðin í Noregi. Fari skipið á sjó þá er ætlast til þess að það dragi upp öll þorskanetin áður en það fer í land. Svo einfalt er það mál. Hér á landi, nei. Kvótakerfið tekur ekki afstöðu til veiðarfæra nema að sáralitlu leyti.
    Við Alaska er aðeins leyft að veiða þorskinn í gildrur vegna þess að þá skemma veiðarfærin ekki einn einasta þorsk. Þau drepa ekkert sjávardýr. Það veiðist ekkert nema það sem á að veiða. Svo einfalt er það mál. Við á Alþingi Íslendinga höfum aftur á móti ekki lagt fjármuni til þess að rannsaka lífríki hafsins og fá svör við því sem margir sjómenn ræða um sín á milli. Við lokum líka augunum fyrir því að þannig er háttað refsingu við því að koma með meiri fisk að landi heldur en menn mega að sjómennirnir verða að grípa til þess ráðs í nauðvörn undan lögregluvaldi landsins að fleygja fiskinum í sjóinn. Það

er rosalegt að þurfa að segja þetta. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem það hefur gerst. Það gerðist líka með síldina á sínum tíma þegar ákveðið var að standa þannig að síldveiðum við landið að það ætti að salta síldina um borð og svo var kastað og kastið var svo stórt að það hefði tekið sjómennina um borð hálfan mánuð að salta úr því þannig að þeir urðu að taka örlítið brot og henda hinu og síldin flaut dauð við Reykjanes. Þannig var ástandið þá. En þá söfnuðu útgerðarmenn á Suðurnesjum liði og héldu inn í sjútvrn. og hótuðu hörðu ef reglunum yrði ekki breytt og þeim var breytt. Það var heimilað á nýjan leik að salta í landi. Ég veit ekki hve margir kunna eða muna þessa sögu.
    Auðvitað er það svo að menn eiga að fara að settum leikreglum. Samt er það staðreynd að skattsvik eru stunduð alls staðar þar sem skattar eru á lagðir og alls staðar þar sem kvótakerfi er er stundað svindl. Allt kvótakerfi Evrópu í fiskveiðum er meira og minna hrunið vegna þess hve svindlið er mikið. Svo alvarlegt er málið. Fiskifræðingunum er skipað að fara eftir opinberum tölum um aflann sem veiðist. Það gerir það að verkum að þeir geta ekki gert réttar tillögur vegna þess að veiðin er miklu meiri en hinar opinberu tölur.
    Þegar embættismenn frá Bretlandi fóru til Frakklands til að fylgjast með því hvernig Frakkarnir fylgdu eftir veiðieftirlitinu horfðu frönsku eftirlitsmennirnir til himins og löbbuðu upp bryggjuna og þóttust bæði vera heyrnarlausir og sjónlausir þegar spurt var hvaða fisktegund þetta var. Þeir bókuðu það allt aðra fisktegund en Bretarnir könnuðust við að væri í kössunum. Og sú spurning hlýtur að vakna: Við stundum skattsvik ekki síður en Evrópubúar, er kvótasvindlið þá minna hér? Er það tilfellið að svo sé? Sögusagnirnar sem maður heyrir eru sumar svo ótrúlegar að maður veit ekki hvort maður á að þora að segja þær.
    Það sem ég veit aftur á móti er að það er verið að selja fisk í landinu fram hjá í verulegum mæli þannig að aflaskýrslur yfir þann þorsk sem við veiðum eru rangar. Hvort það er rétt að það hafi verið gert á Íslandi að stunda þorskveiðar á trillum til þess að hirða aðeins hrognin veit ég ekki. Þær sögusagnir ganga einnig. Ég verð því miður að lýsa því yfir eins og ég varð áhorfandi að í bíómynd sem ég sá fyrir mörgum árum. Hún hét Dalur friðarins. Þar voru lítil börn að leik og þau héldu að þau væru búin að finna dal friðarins þegar sprengjum rigndi yfir þau og þau lögðu á flótta upp á næstu hæð og annað þeirra sagði þegar þau horfðu yfir hæðina niður í næsta dal: Ef til vill er þetta dalur friðarins.
    Við Íslendingar höfum hvorki búið okkur til kvótakerfi né stjórnunarkerfi fyrir fiskveiðar sem er ásættanlegt og viðunandi að gæðum né heldur varið þeim fjármunum til rannsókna á lífríki hafsins sem ásættanlegt er miðað við þá staðreynd að þjóðin lifir á fiskveiðum. En við höfum verið að reyna að skjóta fleiri stoðum undir efnahag þjóðarinnar, en því miður höfum við orðið að hopa á sumum sviðum og alvarlegast er það hvað við höfum orðið að hopa í iðnaðinum. Ég held að Vesturlönd þurfi að brjóta ögn af oflæti sínu og átta sig á því að leikreglur kapítalista án þess að mannúð fylgi leiðir til ófarnaðar. Ég ætla að nefna örfá dæmi.
    Það er gjarnan lofsungið mjög ákaft að hagræða í fyrirtækjum. Oftast birtist hagræðingin m.a. í því að öldruðum starfsmönnum er sagt upp á þeirri forsendu að það er hægt að fá aðra sem menn telja líkamlega betur á sig komna til að leysa þeirra störf. Fyrir stuttu síðan komust blöð á Vesturlöndum að því að það væri dulið atvinnuleysi í Japan af því að þeir fara ekki eins að. Þeir segja ekki öldruðum starfsmanni upp, þeim dettur það ekki í hug ef hann er búinn að vinna fyrirtækinu vel. Þeir hafa hann áfram hjá fyrirtækinu. Hvers vegna? Vegna þess að ef þeir mundu segja honum upp þá er óvíst að hann mundi vinna fyrirtækinu jafn vel fyrr á sínu starfstímabili ef hann vissi það fyrir fram að fyrirtækið mundi launa slíka þjónustu með því að reka hann þegar hann væri farinn að lýjast. Það getur vel verið að þau séu nokkuð mörg fyrirtækin sem hafa verið að brjóta niður stuðning sinna starfsmanna við fyrirtækin með því að þeir sem voru yngri að árum sáu hvernig með hina var farið.
    Það er margt sem læra má af Austurlöndum. Menning þeirra er miklu eldri en menning Evrópu. Og andleg vísindi eru mótuð af mörgum gengnum spekingum þess samfélags. Í dag er það staðreynd að á sama tíma og Evrópa býr við glórulausa kreppu, brjálæðislegt stríð og ótrúlegustu vandamál þá siglir Asía hraðbyri fram til bættra lífskjara. Ef til vill segjum við enn og aftur: En var það ekki kapítalistakerfið sem gerði Evrópu ríka og hina fátæka? Gott og vel. En ætli nú sé ekki rétt að minnast nýlendustefnunnar líka og arðránsins sem þá átti sér stað til að átta sig á því hvers vegna Evrópa varð rík á sínum tíma? Ætli það sé ekki svo að með vopnum hafi hluti af þeim auði verið sóttur fyrir Evrópu? Ætli það sé bara kerfið innan þessara landa sem færði þeim auðinn?
    Ég held að ef okkur tækist að byggja upp öflugt atvinnulíf í landinu í öðrum greinum en sjávarútvegi þá mundum við leysa um leið stóran hluta af þeim gífurlega þrýstingi sem er í dag að komast inn í þá starfsgrein vegna þess að meðan ekkert bitastætt er utan greinarinnar þá hljóta menn að leita þangað sem þó eitthvað virðist vera gert af viti. Það er ábyrgðarhlutur að hafa horft á íslenska skipasmíðaiðnaðinn hrynja eins og gert hefur verið og það er ábyrgðarhlutur að reyna ekki að verja íslenskan iðnað. Ég er sannfærður um að ef ísfisktogari fær ekki nánast að stunda óhefta sókn til veiða, þá verður hann ekki endurnýjaður sem ísfisktogari, þá verður hann endurnýjaður sem frystiskip. Það er það sem blasir við. Það er staðreynd að þegar kvótakerfið var sett á var eitt af markmiðunum að byggja upp fiskstofnana og það var eitt af markmiðunum að reyna að sjá til þess að sóknargeta veiðiskipanna væri ekki langt umfram það sem við mættum veiða. En hvað þorskinn og fleiri tegundir áhrærir höfum við ekki náð þeim árangri og það

ber að játa af hreinskilni og heiðarleika frammi fyrir íslenskri þjóð að þessi heildarmarkmið náðust ekki.
    Mér er aftur á móti ljóst að meðan veiðiskip er með margar tegundir af fiski sem það hefur heimild til að veiða og þarf að veiða á blönduðu veiðisvæði þar sem veiðarfærin skila misjöfnum hlutföllum af þeim fiski inn fyrir borðstokkinn þá verður að vera hægt að færa aflaheimildir á milli skipa. Ég játa það aftur á móti alveg hiklaust að kvótakerfi sem ekki tekur tillit til þess að fólkið í landi eigi jafnan rétt til þess að halda sinni atvinnu og sjómaðurinn er í reynd að gera eignir verkamannsins verðlausar sem hann fjárfesti í í sjávarþorpinu á sínum tíma. Og íslenska þjóðin hefur sínar siðferðilegu skyldur við þá aðila sem það gerðu.
    Þegar hraunið valt yfir Vestmannaeyjar litum við svo á að íslenska þjóðin hefði siðferðilegar skyldur til að stuðla að því að mannlíf gæti orðið með eðlilegum hætti og menn fengju bætur fyrir eignamissi. En í dag virðist svo komið að margir líta svo á að það sé alveg ástæðulaust að taka nokkuð með í þetta stjórnkerfi hvort við erum að gera heil þorp verðlaus eða ekki. Það verður að fá meiri breidd í þessa hugsun.
    Mér finnst að mesta og stærsta þjóðargjöfin sem við gætum samþykkt á Alþingi á Þingvöllum væri rannsóknaráætlun á lífríkinu í sjónum sem færir okkur nær þeim markmiðum að geta staðið skynsamlega að stjórn fiskveiða í framtíðinni. Án slíkrar áætlunar má gera ráð fyrir því að við höldum áfram að eyðileggja botninn, að við höldum áfram að ofveiða og að við höldum áfram að rífast um hluti sem við þyrftum ekki að rífast um vegna þess að við höfum ekki þá þekkingu sem við þyrftum að hafa til þess að geta tekið réttar ákvarðanir.