Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:03:24 (7207)


[01:03]
     Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Mér hefði fundist það vel við hæfi að hæstv. sjútvrh. hefði heiðrað okkur a.m.k. með nærveru sinni við lok þessarar miklu umræðu um sjávarútvegsmál sem hér hefur farið fram og staðið nokkuð lengi, svo ekki sé minnst á þau ósköp að hann hefði jafnvel látið svo lítið að svara einhverju eða koma inn á það sem fram hefur farið. Auðvitað verður hæstv. sjútvrh. að ráða sínum orðum og hvort þau verða einhver hér, en ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst það að mörgu leyti heldur dapurleg niðurstaða sem er að verða á meðferð þessa sjávarútvegsmáls. Það er alveg ljóst að eina ferðina enn er verið að olnboga í gegnum þingið breytingum á fiskveiðistjórnunarlögunum í bullandi óánægju og ósætti um meðferð málsins, bæði innan þings og utan. Þar með er það í raun jafnljóst að uppskeran af því endurskoðunarstarfi sem hefur átt að standa allt frá vordögum 1990 er ekki farsælli en svo fyrir atvinnugreinina og þjóðina í heild en að um niðurstöðuna er síður en svo nokkur samstaða. Þar er hver höndin upp á móti annarri eins og glöggt kemur fram í umræðunni og eins og glöggt kemur fram í málskjölunum, umsögnum um frv. og önnur mál sem því tengjast.
    Það er líka ljóst að í afgreiðslu þessa máls og þeim brtt. sem við það eru fluttar er ekki á nokkurn hátt neitt á ferðinni sem hægt er að gefa nafnið heildstæð sjávarútvegsstefna, svo ekki sé talað um samræmd stefna sem taki til veiða, vinnslu og markaðsmála eins og það átti víst að heita. Hér eru á ferðinni einhverjar tilraunir til að lægja mestu óánægjuöldurnar og olnboga í gegn breytingum, sem þó er mikill ágreiningur um, sem er miklu frekar hægt að líkja við plástra á því kerfi sem við höfum búið við. Auðvitað er þetta dapurlegt, hæstv. forseti, og bagalegt. Þegar maður lítur til baka og horfir yfir meira en tíu ára sögu kvótakerfisins er manni það nokkuð mikið umhugsunarefni hvernig þetta hefur gengið fyrir sig.
    Lífdagar þessa kvótakerfis eru jafngamlir þingsetu okkar hæstv. sjútvrh. Ef ég man rétt þá var kvótakerfið eitt af fyrstu stóru málunum sem við upplifðum, nýliðar á þingi, haustið og veturinn 1983 og 1984. Við höfum þess vegna báðir, ég og hæstv. ráðherra, fylgst vel með þessari þróun síðan. Og ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér er þetta kannski ekki hvað síst umhugsunarefni nú þegar líður að einhverri afgreiðslu á þessum tillögum um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða að enn á ný erum við í því fari, því miður, að við erum að tjalda, ég segi ekki til einnar nætur en ekki á nokkurn hátt til þeirrar frambúðar og framtíðar sem þyrfti að vera. Hvers vegna segi ég þetta? Það er ekki vegna þess að nú séu menn með sólarlagsákvæði í lögunum, eins og var fyrstu árin en horfið var frá í fyrsta skipti 1990, ef ég man rétt. Það er vegna hins að enn einu sinni, því miður, hefur mistekist að undirbyggja þá samstöðu úti í þjóðfélaginu og inni á þingi meðal stjórnmálaaflanna í landinu um fyrirkomulag á þessu sviði sem gefi vonir um að menn séu að ná fram einhverri langtímastefnumörkun sem sæmileg sátt sé um. Þessar hugleiðingar mínar, hæstv. forseti, er ég að flytja óháð afstöðu til þess hvort vel hafi tekist til eða ekki um þessi mál gegnum tíðina og nú. Það er að nokkru leyti annað mál vegna þess að það er gilt sjónarmið, sem maður heyrir mjög oft á meðal þeirra sem starfa í greininni, að af tvennu illu sé betra að hafa eitthvert fyrirkomulag sem jafnvel er óánægja um að einhverju leyti og menn eru missáttir við eins og gengur, en það sé fest í sessi með einhverju sæmilegu samkomulagi til nokkuð langs tíma þannig að menn viti hvar þeir standi og séu ekki með grundvallarstefnuna í höndunum, ef svo má að orði komast, á eins, tveggja eða þriggja ára fresti og bullandi óvissu sem því fylgir fyrir greinina.
    Hér hafa margir talað í dag af þó nokkrum þrótti og þar á meðal hv. 11. þm. Reykv., Finnur Ingólfsson, sem gekk svo langt að halda því fram úr þessum ræðustóli að á meðan framsóknarmenn hafi farið með þetta mál hafi alltaf verið samstaða og ánægja, liggur mér við að segja, langleiðina, sagði hann, um þetta kerfi. Ég leyfði mér, hæstv. forseti, að kalla fram í og segja að þetta teldi ég vera oftúlkun. ( GunnS: Hv. þm. Stefán Guðmundsson hélt því líka fram.) ( StG: Nei.) Það gerði sá hv. þm. ekki, enda þekkir hann þessa sögu vel og betur en hv. þm. Finnur Ingólfsson, sem er tiltölulega lítt reyndur í þessu samanborið við hv. þm. Stefán Guðmundsson sem gerði fyrr í kvöld grein fyrir tillöguflutningi sínum um sjávarútvegsmál á Alþingi um miðbik aldarinnar eins og kunnugt er. (Gripið fram í.) En þetta var oftúlkun, því miður liggur mér við að segja, hjá hv. 11. þm. Reykv., Finni Ingólfssyni, vegna þess að menn verða að horfast í augu við að það er saga þessara mála á þinginu að þau hafa verið afgreidd, olnboguð í gegnum þingið á grundvelli málamiðlana og breytingartillagna og samninga í hvert einasta skipti.
    Af tilteknum ástæðum fór ég í gegnum þessa sögu og rifjaði hana upp fyrir eins og einu ári síðan og náði mér m.a. í öll þingskjöl og allar umræður sem fylgt hafa afgreiðslu kvótafrumvarpanna í gegnum þingið allt frá byrjun. Það var ágætis lexía að rifja það til að mynda upp hvernig svardagarnir gengu fyrir sig uppi í henni efri deild í desember 1983 þegar verið var að afgreiða kvótann í fyrsta skipti. Á hvaða grundvelli skyldi það nú vera sem þetta kerfi var fyrst lögfest? Hver var afsökun manna eða réttlæting fyrir því að greiða því atkvæði upp til hópa? Hún var sú að kerfið væri sett til bráðabirgða í eitt ár. Það kæmi aldrei til greina að það yrði lengur við lýði. Þetta væri bráðabirgðaráðstöfun af því að ekki hefði unnist tími til að finna betra fyrirkomulag í kjölfar svartrar skýrslu um ástand þorskstofnsins á þeim haustdögum. Maður eftir mann fór í ræðustólinn í efri deild og sjálfsagt hér í neðri deild líka sem þá hét, hæstv. forseti, og þvoði hendur sínar af afgreiðslu kerfisins með þessum hætti. Trúi menn þessu ekki bendi ég mönnum á þingtíðindin. Þetta er bagalegt vegna þess að þetta er ekki það hugarfar sem menn hefðu þurft að leggja til grundvallar lögfestingu þessa fyrirkomulags og með því líka að það yrði vandað í ljósi þess að það hefur staðið í tíu ár. Það sem upphaflega var sett til bráðabirgða þróaðist áfram. Auðvitað tók það einhverjum breytingum, en það ber mikinn keim af því hvernig það var í upphafi sett af stað.
    Þegar ég horfi til baka yfir þessa sögu er ég sannfærður um að einn hluti erfiðleikanna og óánægjunnar sem menn hafa átt við að stríða í gegnum þennan tíma liggur í því að ekki var nógu vel vandað til upphafsins því að það ræður ákaflega miklu um hvernig til tekst. Ég tel til að mynda að ef menn hefðu á vetrardögum 1983 gengið út frá því sem vísu og vitað að þeir væru að leggja grunninn að kerfi sem kæmi til með að standa um mörg ókomin ár, áratug eða meir, þá hefðu menn lagt meiri vinnu í og meiri rækt við að vanda sig gagnvart til að mynda þeim viðmiðunum sem teknar voru og þeim leikreglum sem settar voru. Menn hefðu farið betur í gegnum til að mynda hluti eins og þá hvort úthluta ætti öllum veiðiheimildunum á flotann eða hluta þeirra til vinnslunnar í landi, byggðarlaganna o.s.frv.
    Hæstv. forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fjölyrða um þennan þátt málsins, enda má segja að þetta sé í sjálfu sér orðið sögulegs eðlis en það er samt sem áður ágætt að staldra ofurlítið við það og líta til baka hvernig til hefur tekist. M.a. urðu orð hv. þm. Finns Ingólfssonar mér kveikjan að þessum hugleiðingum vegna þess, eins og ég áður sagði og endurtek, að því miður var það mikil oftúlkun hjá hv. þm. að allan tímann sem framsóknarmenn hefðu farið með þessi mál hefði ríkt um þetta ánægja, eining og samstaða. Það var bara því miður ekki þannig. Þvert á móti er það þannig að saga kvótans og afgreiðsla hans í gegnum þingið er vörðuð --- af hverju? Hún er vörðuð af því að það hafa verið átök um málið. Fylkingar hafa riðlast í nánast öllum flokkum í nánast öllum tilvikum. Meira að segja Framsfl. hefur næstum aldrei siglt heilu skipi í höfn í afgreiðslum á kvótafrumvarpinu því að Vestfirðingar hafa upp til hópa haft sérstöðu í því efni. ( Gripið fram í: Alltaf siglt.) Þetta er náttúrlega ekki rétt, hv. þm. Það er mikill misskilningur. Er ekki einn af hv. þingmönnum Framsfl. flm. til að mynda að sextánmenningafrv. svo dæmi sé tekið. ( Gripið fram í: Varaþingmaður.) Hann er þingmaður á meðan hann situr hér, hv. þm. Það er ekkert vara, vara. Þingmaður sem á sæti á Alþingi á hverjum tíma er þingmaður og afstaða hans, tillöguflutningur og málfrelsi og allt það eru alveg nákvæmlega jafnmerkilegt og þingmanna sem sitja hér eitthvað lengur. Eða er hv. þm. Jóhannes Geir að segja að allt sem hann gerði sem varaþingmaður þegar hann sat á þingi vetrarlangt eða svo tiltekið kjörtímabil af vissum ástæðum hafi meira og minna verið ómark af því að hann hafi þá verið varaþingmaður? ( JGS: Það var lítið gert með það.) Það er að vísu alveg rétt. ( JÁ: Varaþingmaður var 1. flm. frv. líka.) Já.
    Hæstv. forseti. Þessi upprifjun gengur út á það að sýna að enn á ný, því miður, erum við í ósköp sambærilegri stöðu með afgreiðslu þessara mála í þetta skiptið og við höfum verið oft áður. E.t.v. er ekki mikið um það að segja og ekkert annað en taka því. Það hafa ekki ræst né gengið eftir neinar vonir manna um að nú mundu menn eftir þennan langa tíma og mikla undirbúning og alla þessa vinnu ná að skila einhverju heildstæðara verki sem meiri samstaða væri um og óánægja með og meiri tíðindum sætti í þessari afgreiðslu, en það er bara ekki svo. Það sem að mínu mati er kannski hvað lakast er að eftir allan þennan tíma gerist það eina ferðina enn að undir lokin koma fram tillögur um allverulegar efnisbreytingar og nýjar áherslur í þessum efnum sem síðan er verið að keyra í gegn á tiltölulega skömmum tíma og að tiltölulega lítt athuguðu máli. Það er mjög slæmt. Manni er umhugsunarefni hvort þetta hafi virkilega þurft að vera svona í ljósi þess að þetta endurskoðunarstarf var sett af stað með ákvæði til bráðabirgða í lögum sem afgreidd voru í maímánuði 1990, fyrir sléttum fjórum árum. Varla verður því borið við tímaskorti eða nauð af því tagi að ekki hafi verið hægt að vinna þetta öðruvísi.
    Ég og við höfum margoft, hæstv. forseti, á þessu kjörtímabili gagnrýnt málsmeðferð hæstv. ríkisstjórnar og harmað það ólánlega verklag sem hún kaus sér, að loka málið af í þröngum hópi flokksgæðinga stjórnarliðsins og missa af samstarfi við stóra hagsmunaaðila eins og sjómannasamtökin. Uppskeran er því miður að verða eins og til var sáð með þessum mislukkuðu vinnubrögðum og það ber að harma.
    Margt fleira, hæstv. forseti, hefði verið ástæða til að taka aðeins fyrir af því að flokkarnir hafa í dag, ekki síst Framsfl. og að nokkru leyti einnig Alþfl., verið að fara yfir sína hlutdeild í þessum málum og stefnu. Menn eru mikið í því að gefa hver öðrum einkunnir. Það er t.d. dálítill gorgeir í Framsfl. í þessum málum. Það er eiginlega ekki hægt að nota um það annað réttara íslenskt orð. Þeir koma hér upp unnvörpum eins og þeir hafi einhvern meiri og ríkari rétt til að fara með hina einu réttu skoðun á þessu sviði en aðrir ( Gripið fram í: Þú hefur sagt að við berum ábyrgð á þessu.) og miklast gjarnan af mikilli ábyrgð sinni á málinu. Nú má í ljósi sögunnar líka velta því fyrir sér hvar sú ábyrgð liggur því að það var nákvæmlega eins hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni og núv. hæstv. sjútvrh. að það urðu örlög hans í hvert einasta skipti sem kvótafrv. var afgreitt að það sætti alls konar hremmingum í meðförum á þinginu og endaði sem niðurstaða einhverrar málamiðlunar, oft og iðulega í samningum ekki bara milli stjórnarflokkanna heldur líka við stjórnarandstöðu því að þær aðstæður voru iðulega uppi að fylkingar riðluðust þannig. En framsóknarmenn eru sælir í þeirri trú að þeir séu þarna miklir örlagavaldar og það er í sjálfu sér alveg ástæðulaust að ræna þá þeirri fullnægju sem þeir fá af því.
    Hitt er náttúrlega miklu lakara ef menn falla í þá gryfju sem stundum vill brenna við að menn sjáist ekki fyrir í sjálfsánægjunni og fari að tala eins og þetta hafi allt saman meira og minna verið fullkomið og sé það. Mér finnst menn að sjálfsögðu hafa fullan rétt á því að gagnrýna og vera á móti hugmyndum sem fram eru bornar, hvort heldur er af ríkisstjórn eða þingmönnum úr öðrum flokkum, um einhverjar lagfæringar eða breytingar á þessu kerfi. Það fer að vonum að menn séu eftir atvikum hrifnir af slíku eða ósammála. En hitt er mjög slæmt ef menn sjást ekki fyrir í málflutningi í þeim skilningi að þeir tali eins og kerfið sé fullkomið og að viðleitni manna til að finna á því einhverjar lagfæringar eigi þar af leiðandi að flokkast undir skemmdarstarfsemi. Þá eru menn á mjög hálum brautum í sínum málflutningi af því að það þýðir ekki að tala svoleiðis. Við verðum að horfast í augu við það alþingismenn að við erum enn að leita og við erum enn að skoða og við erum enn að mæta gagnrýni og árekstrum sem verða í þessu kerfi og sjálfsagt verður það alltaf þannig. ( JGS: Og getur ekki verið öðruvísi.) Og getur ekki orðið öðruvísi. Það er sennilega kjarninn í þessu máli vegna þess að hér er um ákaflega vandasamt verkefni um að ræða þar sem skarast ólíkir hagsmunir af ýmsum toga, ólíkra hagsmunahópa landshluta og sjónarmiða. Þannig verður það að niðurstaðan af uppskeru okkar verður örugglega alltaf í formi málamiðlana, það verður niðurstaðan af okkar puði hér. Spurningin er bara hvernig, hvar liggur hún og eru menn að finna þar einhverjar sanngjarnar leiðir.
    Ég hef orðið æ leiðari á því, hæstv. forseti, eftir því sem árin hafa liðið í þessu kvótastagli öllu hversu fastir menn verða á köflum í því sem ég kalla ,,viðjar kerfisins``, í hinum kerfislæga hugsunarhætti, hinni kerfislægu nálgun í þessu máli af því að ég held að það sé hættulegt í þessum efnum eins og svo mörgum fleirum að taka oftrú á kerfi. Heldur eigi menn alltaf og ævinlega að reyna að komast eins og út úr viðjum kerfisins upp á næsta hól við hliðina, horfa þaðan yfir sviðið og spyrja sig: Hvert er viðfangsefnið og hvernig nálgumst við það? En ekki að festast í viðjum kerfisins. Það hefur reynst illa bæði austan hafs og vestan og innan lands og utan að festast fastur í viðjum kerfis og gerast mjög kerfislægur í nálgun sinni að viðfangsefnunum. Það hafa menn því miður gert á Íslandi í stórum stíl. ( JGS: Verður þá að vera sem frjálsast framsal í kerfinu?) Það er nú ekki víst að það kerfi sé í sjálfu sér betra en annað, það er líka kerfi. Umræðan hefur haft tilhneigingu til að gerast staglkennd með eða á móti kvóta. Ég segi það aftur sem ég sagði í 1. umr. málsins, hæstv. forseti, að ég hef aldrei tekið trú til eða frá, með eða á móti kvóta. Ég hef ekki tekið trú á kvótakerfi, aflamark, frjálst framsal, en ég hef heldur í sjálfu sér ekki tekið neina trú gegn því af því að þetta er kerfi eins og önnur sem hefur kosti og galla.
    Það er hins vegar sífellt í gangi tilhneiging til að stilla mönnum upp í einhverjar tvær fylkingar eða arma og þetta sé bara spurning um að vera kaþólskur eða mótmælandi og ekkert þar á milli. Það sé bara alveg bannað.
    Alþfl. hefur ekki verið mjög fyrirferðarmikill í þessari umræðu. Það er nokkur skaði af því að þeir alþýðuflokksmenn telja sjálfan sig stundum og eru jafnvel að reyna að telja öðrum trú um að þeir hafi stefnu í þessum sjávarútvegsmálum sem sé göfug og merk og öðruvísi en hjá öðrum og skýr og allt það. Ég segi bara það að hún hefur ekki komið fram í þessari umræðu. Ég hef marglýst eftir stefnu Alþfl. í sjávarútvegsmálum. Ég hef beðið talsmenn Alþfl., t.d. er einn hér viðstaddur, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, að koma hér upp og útskýra stefnu Alþfl. í stuttu máli --- það hlýtur að vera hægt úr því að hún er svona merkileg og einföld og skýr og allir sammála um hana --- stefnuna t.d. með auðlindaskattinn. Á hvaða grundvelli á auðlindaskattur Alþfl. að byggja? Á hann að byggja á núverandi kvótakerfi? Á hann að byggja á uppboði veiðiheimildanna á markaði þar sem hver sem er getur keypt eða á hverju? (Gripið fram í.) Hún er bara ekki til, hv. þm., því miður, því að á öllum þeim stöðum og stundum sem ég hef borið fram þessa spurningu hafa aldrei komið fram nein svör. Staðreyndin er sú að Alþfl. hefur enga stefnu í þessum málum nema þessa einu fyrirsögn, þennan eina samnefnara, auðlindaskatt, sem þeir hafa svo aldrei lagt í neina vinnu að útfæra hvernig eigi að framkvæma. Er þetta flokkur sem hefur efni á því að tala digurbarkalega eða niður til annarra sem hafa verið að sinna þessum málum? Ég segi nei.

    Sjálfstfl. og hæstv. sjútvrh. hafa líka stundum fallið í þá gryfju að tala digurbarkalega eins og sá sem valdið hefur í þessum málum og eins og sá sem væri búinn að taka rækilega til heima hjá sér og gæti leitt hvaða gest sem er inn í sitt hús og þar fyndist hvergi kusk undir teppi. ( Gripið fram í: Það var áður en . . .  ) Það hefur sennilega verið áður en sextánmenningarnir fluttu sitt frv. og margt fleira gerðist. Nú gæti maður spurt ef maður vildi vera kvikindislegur, sem ég að vísu ekki ætla að vera, m.a. með tilliti til þess að það er nokkuð farið að líða á nótt: Bendir lendingin í þessu máli og sálarástand Sjálfstfl. út og suður í kringum hana til þess að sjútvrh. hafi haft efni á því að fyrir sína hönd og síns flokks að setja sig á hærri hest en aðrir menn í þessum efnum? Ég held ekki. Ég held að sú mikla magalending sem er að verða í þessum málum hjá hæstv. sjútvrh. gefin engin tilefni til slíks. Niðurstaðan er því væntanlega sú að langskynsamlegast er að ræðast við með einhverjum rökum um þessi mál og sýna því viðeigandi tillitssemi að hér er á ferðinni stórt mál, snúið og vandasamt sem flestum hefur gengið erfiðlega að höndla hinn eina stóra sannleik gagnvart.
    Það sem ég svo að lokum, hæstv. forseti, ætla að leyfa mér að segja er það að nú er meira og minna að verða ljóst hver verður niðurstaðan og lendingin í sjávarútvegsmálum á þessu kjörtímabili því það er senn á enda og Alþfl. hefur ákveðið að flýta sínu flokksþingi til að undirbúa kosningar í haust. Í leiðara Dagblaðsins í dag frekar en í gær, nú er ofurlítið erfitt að henda reiður á sólarhringunum þessar stundirnar, hæstv. forseti, er því bersýnilega slegið föstu að þetta stjórnarsamstarf sé búið og eingöngu tímaspursmál hvenær hér dynja á kosningar. Þannig að mjög líklegt er í öllu falli, jafnvel þó að það dragist eitthvað fram á árið og yrði þess vegna öðru hvoru megin við næstu áramót, að við séum í síðustu umræðulotunni um sjávarútvegsmál á þessu kjörtímabili sem merktar verða þessari ólánssömu ríkisstjórn sem þjóðin losnar senn við. Þá er manni það náttúrlega umhugsunarefni hvernig hefur tekist til og hver uppskeran er. Hún er mögur, hún er afar mögur. Hún er satt best að segja sú allra slakasta fyrir hönd þessa málaflokks og þessarar atvinnugreinar sem skilað hefur verið á einu, næstum fullu, kjörtímabili í langan, langan tíma. Í langan tíma leyfi ég mér að fullyrða. Ég held að skýringin sé ekki sú að núv. hæstv. sjútvrh. sé sérlega mislukkaður umfram aðra menn sem sjútvrh., sem slíkur, sem pólitískur einstaklingur ef svo má að orði komast, það held ég ekki. Ég held að hæstv. ráðherra hafi verið vel meinandi og þokkalega þenkjandi um þessi mál eftir atvikum. Ríkisstjórnin sjálf og það samstarf hefur frá upphafi verið ógæfulegt en aðalástæðan að mínu mati er sú að ríkisstjórnin valdi frá byrjun vitlaust verklag í þessum málum. Vitlaust verklag. Þess vegna leyfi ég mér í lokin, hæstv. forseti, að vona að af þessu hafi menn nokkuð lært, og þar á meðal núverandi hæstv. sjútvrh. og þeir flokkar sem að ríkisstjórninni standa, að í grundvallarmáli af þessu tagi þegar í húfi er undirstaðan fyrir mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar þá er það ekki mál til þess að meðhöndla á þann hátt sem ríkisstjórnin hefur gert að leggja nánast grunninn að flokkspólitískum átökum um málið ef ekki faglegum líka. Því það að hefur því miður orðið niðurstaðan mestallan tíma þessarar stjórnar að hagsmunasamtökin og hinir faglegu aðilar hafa deilt harkalega í málunum og ekki verið í færum til að tala saman.
    Af þessu öllu ættu menn að læra það að þetta eru ómöguleg vinnubrögð. Það á að leggja höfuðáherslu á það að draga alla stjórnmálaflokka og alla helstu hagsmunaaðila saman að viðræðuborðinu þegar þessi mikilvægu mál eru til umfjöllunar. Auðvitað er það þannig að fyrir íslensku þjóðina er ekkert eitt atriði mikilvægara hvað atvinnumál og efnahagsmál snertir en það að sæmilega vel og farsællega takist til um málefni sjávarútvegsins. Í samræmi við það eiga menn að vanda vinnubrögð sín, þau þurfa að vera lýðræðisleg, þau þurfa að miða að sem mestri og breiðastri samstöðu um þessi mál en það hefur þessari ríkisstjórn því miður algjörlega mistekist. Hún hefur í þeim efnum uppskorið eins og hún hefur til sáð og það ber að harma.