Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:35:11 (7210)


[01:35]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér alveg hárrétt hjá hv. þm. að það var farið að krauma undir hjá ýmsum hagsmunaaðilum upp á síðkastið. Það er ekkert skrýtið vegna þess að staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn hefur verið með slík lausatök á þessum málum með því að setja málið hvað eftir annað í nefnd, senda síðan nefndarmenn hingað og þangað um landið til að kynna niðurstöðu sem þó var alls ekki vitað hvort ætti að lögfesta og leggja síðan fram á Alþingi frv. sem mörg fyrirtæki hafa síðan byggt sínar aðgerðir á. Síðan koma brtt. við þetta frv. og fótunum er kippt undan öllum þeim aðgerðum sem þessi fyrirtæki hafa gripið til. Þetta hefur skapað óvissu hjá fyrirtækjum og það er útilokað fyrir atvinnulífið að búa við slíkt.
    Þetta var ekki, hv. þm., með þessum hætti þegar Framsfl. fór með þessi mál. Það er það sem skilur á milli. Sú breyting kemur einmitt glöggt fram og kristallast í þessari umræðu því það er bara við einn hagsmunaaðila sem sátt er um þær breytingar sem núna er verið að leggja til, þ.e. við sjómannasamtökin. Allir aðrir, útgerðarmenn og fiskvinnslumenn, eru á móti þessu. Það hefur því ekki einu sinni tekist að ná samstöðu við hagsmunaaðila í málinu, hvað þá við stjórnmálaflokkana sem núna sitja á þingi. Það er því auðvitað gjörbreyting á málsmeðferð allri.