Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:37:19 (7211)


[01:37]
     Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg út af fyrir sig að við getum vel sæst á það, ég og hv. þm. Finnur Ingólfsson, að ástandið hafi verið skárra í öllu falli í tíð fyrrv. hæstv. sjútvrh. og á fyrri kjörtímabilum heldur en það hefur verið núna. Ég held að það sé alveg rökrétt niðurstaða. Auðvitað er þetta búið að vera með afbrigðum ótútlegt, ef svo má að orði komast, nú á síðustu missirum og ástandið óþolandi og illviðunandi. Það er alveg rétt sem hér var sagt að um þessa afgreiðslu, eins og ég reyndar fór yfir í minni ræðu, er ekki nokkur sátt, bullandi ágreiningur og hver höndin upp á móti annarri. Það er dapurleg niðurstaða svo ekki sé nú minnst á ósköpin, viðhengið, meðlagið til Alþfl., Þróunarsjóðinn. Ég var að fara í gegnum umsagnirnar um hann áðan og það finnst ekki einn einasti stuðningsaðili málsins. ( JGS: Það er ekki alveg rétt.) Jú, jú, þetta er svona, nema ríkisstjórnin sjálf og stjórnarflokkarnir. Auðvitað er þetta alveg hörmuleg staða. Við skulum ljúka þessum orðaskiptum, ég og hv. þm. Finnur Ingólfsson með því að sættast á það heilum sáttum að ástandið hafi verið mun skárra í tíð fyrrv. hæstv. sjútvrh.