Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:40:43 (7213)


[01:40]
     Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hendir stundum hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, að hann vill taka menn í yfirheyrslur. Hann hefði sennilega farið vel sem sýslumaður eða prófdómari því hann hefur gaman af að taka menn upp. ( Gripið fram í: Hann var kennari.) Hann var víst kennari er upplýst hér og skýrir það kannski nokkuð. En nú er það reyndar ekki hlutverk hv. þm. að standa fyrir yfirheyrslum á ræðumanni og ekki heldur í sjálfu sér nema þá bara tilraunarinnar virði hjá hv. þm. að reyna að barna þannig minn málflutning eða túlka hann að honum takist í einu stuttu andsvari að sanna að ég hafi enga skoðun á sjávarútvegsmálum og þar fram eftir götunum. Auðvitað hef ég það. Ég hef bæði í ræðu og riti, blaðagreinum, þingmálum og með fjölmörgum öðrum hætti lýst viðhorfum mínum til þeirra mála og ég þori alveg óhræddur að leggja fram litteratúrinn á móti hv. þm. Þó það væri sett í akademíu til prófunar og ef við værum báðir að sækja um stöður í sjávarútvegi þá þori ég sem háskólamenntaður maður alveg að fara í samjöfnuð um það. Ég tel að mitt greinasafn, minn litteratúr, mundi standast alveg fyllilega samjöfnuð. Þannig er nú það. Auðvitað hef ég haft mínar áherslur og ég hef líka reynt að vera samferða því sem hefur verið stefna míns flokks á hverjum tíma og átt þátt í að móta hana.
    Ég bið hv. þm. að snúa ekki þannig út úr orðum mínum að ég hafi áðan verið að segja að ég væri hvorki með eða á móti aflamarkskerfi. ( JGS: Þú sagðir það áðan.) Það sagði ég ekki, hv. þm. Það sem ég sagði var að ég hefði aldrei tekið trú á kerfið. Það hefði aldrei orðið trúaratriði hjá mér að vera annaðhvort kvótamaður eða ekki kvótamaður því ég væri að reyna að forðast hina kerfislægu nálgun í þessum efnum. Við skulum þá bara lesa í gegnum þetta þegar þetta kemur prentað í þingtíðindunum.
    Varðandi það fylgiskjal sem fylgdi með þáltill. Alþb. fyrir ári síðan þá hefur það bara nákvæmlega þá stöðu sem þar var til stofnað. Það var fylgiskjal með tillögu. Og það var tillagan sem við flm. berum ábyrgð á. Fylgiskjalið var hvorki kynnt né ætlað að vera fram sett sem afgreidd stefna flokksins.