Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 02:17:39 (7218)


[02:17]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég benti á það í ræðu minni áðan að við hefðum álitsgerð Þjóðhagsstofnunar sem segði að vísu ekki að það töpuðust 5 þús. störf vegna samdráttar í úthafsveiðum heldur, ef maður tekur þeirra forsendur og reiknar út frá þeim, 1.700--1.800. Það fer því ekkert á milli mála að menn eru sammála um þetta.
    Ég hygg reyndar einnig að hv. þm. sé sammála mér í því að viðskiptin tonn á móti tonni hafi dregið mjög úr útflutningi á óunnum fiski. Það er alveg ljóst að aðilar málsins eru engan veginn sammála á þessu stigi núna um hvað fyrirhuguð lagasetning þýðir hvað þetta snertir. Ég tel því að kjarninn í því sem atvinnumannahópurinn setti fram standist þó menn geti greint á um það í stærðum hverjar afleiðingarnar verði.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það getur farið svo að störfum við fiskveiðar fjölgi eitthvað ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. En ég er ansi hræddur um að ef það gerðist út frá þeim forsendum sem þar eru gefnar mundu tekjurnar lækka verulega fyrir hvern einstakan sjómann ef ganga á þá braut, sem er verið að marka með þessum breytingum, að þrengja framsalsheimildirnar verulega og skylda hvert skip til að veiða í meira mæli sínar heimildir sjálft.