Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 02:21:58 (7220)


[02:21]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Afstaða mín gagnvart því hvort þau skip sem hafa verið keypt notuð til landsins fá að koma inn á skipaskrá liggur fyrir í þingtíðindum þar sem sá sem hér stendur flutti fyrirspurn um það mál til samgrh. í vetur. Varðandi það hvort ég sé tilbúinn að standa að þessu með hv. þm. og koma svo í haust og telja hverju það hefur breytt, virðulegur forseti, er einfalt mál: Ég er ekki tilbúinn til þess. Ég er ekki tilbúinn til að fara í tilraunastarfsemi með það með hv. þm. Það liggja engin rök til þess að Alþingi fari í einhverja tilraunastarfsemi með það hvað störfum fækki mikið eftir þessum tillögum. Það er skylda Alþingis að koma til móts við þau sjónarmið í þjóðfélaginu sem hafa komið fram í umræðunni síðustu daga. Ég er sannfærður um að það er hægt að finna málamiðlun sem þeir aðilar sem ég nefndi áðan, sjómenn, útvegsmenn, fiskvinnsla og landverkafólk, geta sæst mun betur á heldur en það sem hæstv. ríkisstjórn er með á ferðinni núna. En það er ekki hægt vegna þess að samkomulagið skal blífa. Málið snýst nefnilega um það að sýna fram á að hæstv. ríkisstjórn geti afgreitt þetta mál í þinginu, ekki um hina efnislegu niðurstöðu. Ef það snerist um hina efnislegu niðurstöðu mundu menn fara ofan í málið núna með tilliti til ábendinga atvinnumannahópsins, Verkamannasambandsins og LÍÚ, svo ég nefni einhverja aðila.