Skráning og mat fasteigna

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 13:24:56 (7236)


[13:24]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum.
    Þetta er brtt. frá efh.- og viðskn. Brtt. er við 3. gr. 2. málsl. fyrri efnismálsgreinar og þar er átt við hverjir skipi fulltrúa í stjórn Fasteignamats ríkisins. Tillagan orðast svo: ,,Skal einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn af Sambandi íslenskra tryggingafélaga og einn án tilnefningar.``
    Mál þetta snýst um að það er verið að breyta Fasteignamati ríkisins í B-hluta stofnun og skipa henni sérstaka stjórn. Eins og frv. var sett fram gerði það ráð fyrir því að það væri einn fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í stjórninni en tveir skipaðir án tilnefningar. Nú hefur það gerst að það liggur fyrir að vátryggingalögum verður breytt á þann veg að Fasteignamat ríkisins mun væntanlega smám saman yfirtaka brunabótamatið og annast það beint eða óbeint. Af þeim ástæðum er eðlilegt að stjórn Fasteignamatsins verði breytt þannig að inn í hana komi fulltrúi tryggingafélaganna þannig að þar komi inn sjónarmið sem tengjast brunabótamatinu. Eftir sem áður hafa opinberir aðilar meiri hluta í stjórninni. Það er enn fremur fyrirhugað að stjórnin geri tillögur um og hafi gjaldskrá sem ætlast er til að standi undir stofnuninni.