Tollalög

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 13:30:36 (7238)


[13:30]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Austurl., formanns efh.- og viðskn., þá fjallaði iðnn. sérstaklega um þetta frv. vegna þess að það snertir óneitanlega hagsmuni iðnaðarins og má segja að þessar reglur og þetta frv. sé undirbúið að nokkru leyti að frumkvæði iðnaðarins í landinu og að iðnaðurinn hafi um langt árabil knúið á um setningu reglna af því tagi sem hér er verið að gera tillögu um. Það er því miður ekki fyrr en nú sem það tókst að ná eyrum réttra aðila, þar á meðal Alþingis, að því er þetta mál varðar og ber auðvitað að fagna því að gert er ráð fyrir að breyta tollalögum með því að heimila álagningu undirboðs- og jöfnunartolla eins og í frv. er gert ráð fyrir.
    Samhliða því að fjallað hefur verið um frv. þá hefur hv. nefnd, trúi ég, og reyndar hv. Alþingi haft til meðferðar eða skoðunar, má segja, þau drög að reglugerð sem legið hafa fyrir í fjmrn. varðandi útfærslu á þessum greinum og þessum lagabreytingum. Það er auðvitað býsna margt í þessum reglugerðardrögum sem kallar og vekur upp spurningar sem ég ætlaði hér við 2. umr. málsins að víkja lauslega að, ef hæstv. fjmrh. hefði aðstöðu til að fylgjast með umræðunni.
    Það er í fyrsta lagi að við 1. umr. málsins kom fram að það væri ætlunin að utanrrn. hefði úrskurðarvald um álagningu undirboðs- og jöfnunartolla þegar sú ákvörðun snertir alþjóðlega viðskiptasamninga sem Ísland væri aðili að. Okkur var skýrt frá því í iðnn., eða alla vega barst það okkur einhvern veginn til eyrna, að þessi hugmynd um úrskurðarvald, úrslitavald utanrrn. að því er þetta varðar, væri úr sögunni. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort það sé rétt að það sé ekki gert ráð fyrir því að utanrrn. hafi þetta úrskurðarvald.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, vil ég skýra frá því að í iðnn. komu fram miklar áhyggjur yfir því að það ferli sem hér er gert ráð fyrir væri óskaplega flókið, þungt í vöfum og seinlegt og það væri ekki víst að það dygði til þess að tryggja íslenskan iðnað andspænis undirboðum erlendis frá.
    Það efni var einnig mjög rækilega rætt í nefndinni hvernig ætti að fara með innflutning frá ríkjum sem ekki búa við markaðshagkerfi, en í 7. gr. reglugerðardraganna sem ég hef undir höndum er gert ráð fyrir tilteknum aðferðum í þeim efnum. Í þessum drögum segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þegar um innflutning er að ræða frá ríkjum sem búa ekki við markaðshagkerfi skal ákveða eðlisverðið á viðeigandi og sanngjarnan hátt samkvæmt einni af eftirfarandi aðferðum:
    1. Miðað við verð fyrir sams konar vöru í öðru landi sem býr við markaðshagkerfi og raunverulega er seld til neyslu á heimamarkaði í því landi eða til annarra landa.
    2. Miðað við tilbúið verð fyrir sams konar vöru í öðru landi sem býr við markaðshagkerfi.
    3. Ef hvorki verð né tilbúið verð fundið samkvæmt 1. og 2. tölul. telst fullnægjandi skal miða við verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber hér á landi fyrir sams konar vöru að teknu tilliti til sanngjarns ágóða.``
    Út af fyrir sig þá hljómar þetta að mínu mati allt eðlilega. Vandinn er hins vegar sá að þegar við spurðum þá iðnaðarráðuneytismenn hvort þeir teldu að þessi ákvæði þessarar greinar reglugerðardraganna hefðu dugað í tilteknu máli sem kom upp hér í vetur, að því er varðar tilboð sem skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi hafði gert í skip sem fór til Póllands, þá var svarið að það væri ekki ljóst að þetta hefði dugað til að tryggja það að þetta verkefni hefði verið unnið hér á landi. Og það sem mér fannst kannski koma mjög skýrt fram, bæði hjá fulltrúum iðnrn. og fulltrúum fjmrn., var það að menn hefðu ekki kannað í þaula hvernig þessi ákvæði reglugerðanna hefðu komið út ef þau hefðu verið í gildi við tilteknar aðstæður, en ég held í raun og veru að það sé óhjákvæmilegt til að átta sig á því hvort eitthvert gagn er í þeim ákvæðum sem hér eru inni.
    Ég verð að segja það mjög eindregið, hæstv. forseti, að ég dreg það mjög í efa að þessi ákvæði reglugerðarinnar dugi til að verja íslenskan skipasmíðaiðnað og skipasmíðar fyrir tilboðum sem kunna að berast einkum frá löndum eins og Póllandi og segjum Kóreu, fyrst og fremst vegna þess að vinnulaunin eru svo ofboðslega lág í þessum löndum miðað við það sem gerist í Vestur-Evrópu.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, vil ég svo víkja að því sem fram kemur í reglugerðardrögunum varðandi rannsókn þessa máls. Það er sem sagt þannig að gert er ráð fyrir því að það verði skipuð samráðsnefnd til að fara með þessi mál og hún er skipuð með tilteknum hætti og ég hef í sjálfu sér í fljótu bragði engar athugasemdir við skipun hennar. Þegar einhver telur á sig hallað þá á hann að kæra til þessarar samráðsnefndar. Það er fyrsta skrefið. Og ef samráðsnefndin telur að frumathugun lokinni, samkvæmt 24. gr. reglugerðardraganna, að nægar sannanir séu fyrirliggjandi til að taka kæru til efnislegrar útlausnar skal þegar hefja rannsókn máls. Sú rannsókn sem samráðsnefndin á að framkvæma er allítarleg líka því þar á að kanna ein fjögur mjög viðamikil atriði. Komist hún að þeirri niðurstöðu að þeirri athugun lokinni að þetta sé þannig að það þurfi að skoða málið þá fyrst hefst rannsóknin. Til að rannsóknin geti byrjað þá þarf að birta tilkynningu um upphaf rannsóknarinnar í Lögbirtingablaðinu. Það er næsti frestur í málinu. Þar á að tilgreina þá vöru sem rannsókn beinist að og viðkomandi útflutnings- eða upprunalandið. ,,Jafnframt skal gerð``, með leyfi forseta, ,,grein fyrir þeim upplýsingum sem borist hafa og tilgreint innan hvaða frests aðilar sem hagsmuna hafa að gæta geta komið að upplýsingum og skriflegum sjónarmiðum.`` Síðan líður tiltekinn frestur og svo segir hér: ,,Almennt skal rannsókn ekki taka til styttra tímabils en síðustu sex mánaða fyrir útgáfudag tilkynningar um upphaf rannsóknar.`` Síðan er rakið hér hvað gerist ef hagsmunaaðilar neita að veita nauðsynlegar upplýsingar o.s.frv.
    Að lokum segir hér í þessum reglugerðardrögum: ,,Þessari rannsókn skal almennt lokið innan árs frá því að hún hófst``. Spurningin er þá sú: Liggur málið þá þannig að það sé hægt að stunda innflutning á þessari vöru eða viðskipti með þessa vöru, sem er með niðurgreiðslum á, án þess að beita jöfnunar- og undirboðstollum, í allt að eitt ár áður en látið er til skarar skríða? Sé það svo þá er alveg ljóst að viðkomandi iðngrein eða fyrirtæki er dautt áður en hægt er að beita þessum ráðstöfunum. Þess vegna held ég að reglugerðardrögin eins og þau eru núna og lögin séu ófullkominn og mjög gölluð að því leytinu til að þau muni seint og illa duga a.m.k. íslenskum skipasmíðaiðnaði. Það er þetta sem ég vil vekja sérstaka athygli á og við ræddum mjög rækilega í hv. iðnn., sem tók málið til meðferðar og sendi bréf um afstöðu sína til þess, eins og fram kom í áliti og ræðu hv. 1. þm. Austurl.
    Sem sagt, ég vil ítreka það að ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því hvernig hann hyggst haga þessum málum. Í fyrsta lagi varðandi innflutning frá ríkjum sem ekki búa við markaðshagkerfi og í öðru lagi varðandi málsmeðferðina alla frá því að rannsókn málsins hefst og til loka hennar. Hvort hæstv. ráðherra getur ekki hugsað sér að ganga þannig frá málum að þetta geti tekið skemmri tíma og hægt sé að gera þetta öflugra og virkara sem aðhald við innflutning og um leið stuðning fyrir íslenskan iðnað.