Tollalög

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 13:41:19 (7239)


[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. nefnd fyrir að hafa tekið á þessum málum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst og jafnframt hv. iðnn. sem fékk málið til skoðunar. Það er nokkur vandi fyrir mig að ræða þetta. Í fyrsta lagi hef ég ekki reglugerðina með mér og þó ég fengi hana í stólinn þá hugsa ég að það gagnaði lítt fyrir svörin. En það sem er kannski sérstakt í þessu máli er það að verið er að ræða um reglugerðina fremur en lögin og þá háttar þannig til að reglugerðinni má breyta án þess að þingið sitji og það er ráðherrann einn sem fer með reglugerðarvaldið.
    Ég vil taka það strax fram að það eru sérfræðingar fjmrn. sem hafa unnið að þessu máli mánuðum saman. Starf þeirra var mjög flókið, ekki síst vegna þess að það var erfitt að finna fyrirmynd annars staðar frá, í öðrum löndum, vegna þess að jöfnunar- og undirboðstollar eru mjög lítt notaðir og nánast ekkert og allra síst þar sem um þjónustusamninga er að ræða. Þess vegna er þetta nýjung, þess vegna má búast við því að þetta mál verði erfitt og flókið. Það sem við höfðum að leiðarljósi í fjmrn. var að gera þetta þannig úr garði að það stæðist, það væri víðtækt samkomulag um málið á milli ráðuneytanna og það skýrir kannski það fyrsta sem hv. þm. nefndi um það sem hann kallaði úrslitavald utanrrn.
    Það kann vel að vera að í tímans rás komi það til með að breytast, en okkur þótti eðlilegt að utanrrn., sem fer með samningaumboð fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og stjórnvalda fyrst og fremst gagnvart öðrum, skýrði hvað samningar þýddu þegar fjallað er um þessi tilteknu efni eins og undirboðstolla og jöfnunartolla. Undirboðstollar eru notaðir þegar um er að ræða undirboðsverð, þegar tilboð eru greinilega undir eðlilegu verði, en jöfnunartollar eru svör við því þegar um er að ræða styrki, niðurgreiðslur af hálfu sérstaklega opinberra aðila.
    Svar mitt við fyrstu fyrirspurn hv. þm. er því það að ég veit ekki til þess --- ekki hefur það verið rætt við mig a.m.k. --- að fallið yrði frá því að utanrrn. skýrði niðurstöðuna með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Ég held að það sé kannski eðlilegt að hugsa málið út frá því hvað mundi gerast ef fjmrn. gripi til aðgerða sem grundvölluðust m.a. á fríverslunarsamningum við aðrar þjóðir og utanrrn. væri þeirrar skoðunar að fjmrn. legði aðra merkingu í samninginn en utanrrn. Ég held að það sé augljóst að utanrrn. hefur talsvert um þetta að segja. Hitt er svo annað mál að ef niðurstaðan er á þann veg að aðrir aðilar en utanrrn. sætta sig við úrskurð, skulum við kalla það, utanrrn. þá er að sjálfsögðu hægt að gera mál úr því og halda því áfram ef menn hafa fram að færa mikilvæg rök í málinu.
    Ég ætla ekki að útiloka að þetta breytist, en á þessari stundu hef ég ekki a.m.k. heyrt að uppi séu áform þar að lútandi. Þvert á móti hef ég lagt á það áherslu að öll ráðuneytin, fjmrn., iðnrn., landbrn., sjútvrn. og utanrrn. væru sammála í einu og öllu þeirri reglugerð sem gefin verður út ef lagafrv. verður samþykkt.
    Ég held því miður, virðulegur forseti, að þá verði svörin kannski einnig fátækleg hvað varðar aðrar spurningar hv. þm. Hann minntist á það erfiða tilvik sem upp getur komið þegar ákveða á hvort um undirboð sé að ræða frá fyrirtæki sem starfar í landi þar sem ekki er markaðsskipulag og nefndi í því sambandi Pólland. Ég hygg að í Suður-Kóreu sé markaðsskipulag, en það er jafnljóst það sem hv. þm. sagði, að í báðum þessum löndum eru laun miklu lægri en laun hér á landi. En þótt laun séu miklu lægri þá getur sá þáttur í verði þjónustunnar eða smíðanna ekki leitt til þess að hægt sé að tala um undirboð. Því ef launin eru eins og eðlilegt er á þeim stað sem verkið var unnið, þá telst það ekki vera undirboð.
    Vandinn er sá, eins og kemur fram í reglugerðardrögunum, að setja sér viðmið. Hvað er undirboð og við hvað á að miða þegar ekki er um að ræða kannski eðlilegt verð í viðkomandi landi, heimsmarkaðsverð er ekki til eins og á viðgerðum. Við hvað á að miða? Nefndin, hópurinn eða starfsfólk fjmrn., réttara sagt, sem vann að gerð þessara draga, kaus að setja þessa viðmiðun sem hv. þm. réttilega bendir á að er kannski ekki mjög auðveld til þess að vinna eftir. En á meðan ekki er til neitt betra þá held ég að það hljóti að vera eðlilegt að hafa þessa viðmiðun í reglugerðardrögunum. Verði menn hins vegar sammála um annað og finni aðra betri aðferð er auðvelt að breyta reglugerðinni.
    Loks var minnst á það af hv. þm. að tíminn sem þetta tæki væri langur, ferlið væri flókið og það væri verið að gæta andmæla og upplýsingaréttar af hálfu þeirra sem málið kæmi við með þeim hætti að viss hætta skapaðist á því að þetta tæki sem við erum að fá hér heimild til að beita bíti ekki eins vel og við ætluðumst til og við viljum. Það kann að vera að tækið sé ekki eins auðvelt í notkun og ýmsir vilja, en við verðum þá jafnframt að gæta þess að fara að settum lögum, að reglum og að koma þannig fram við viðskiptaaðila íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi að það sé ekki gerður munur á því og þeim aðferðum sem við beitum gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Við verðum með öðrum orðum að gæta okkar á því að andmælaréttur og upplýsingar komist til skila til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.
    Ég tel, virðulegur forseti, að það sé vissulega rétt sem kemur fram hjá hv. þm. að þetta er flókið ferli, tækið er ekki jafnöflugt og það gæti virst. En eftir sem áður þá tel ég fulla ástæðu til þess að frv. verði að lögum. Það verði farið af stað með því að nota þau reglugerðardrög sem hér liggja fyrir, en vankantarnir verði síðan af reglugerðinni sniðnir þegar til framkvæmdanna kemur.
    Ég skal hins vegar taka fúslega undir það að ég hef mínar efasemdir um að allt breytist í einni andrá um leið og búið er að samþykkja frv. og búið er að setja reglugerðina því Ísland er ekki eina landið sem hefur fengist við þetta erfiða vandamál og ekki komist til botns í því hvernig best er að leysa það, sem sannast best á því að ríki grípa yfirleitt ekki til undirboðstolla og jöfnunartolla. Þau dæmi sem þekkjast helst um tolla á innflutning hjá siðuðum þjóðum byggjast á allt öðrum sjónarmiðum eins og t.d. varnarsjónarmiðum og miðast yfirleitt við vörutegundir þar sem um er að ræða heimsmarkaðsverð. Þannig að málið er þess vegna flókið og erfitt þegar verið er að kaupa samsetta vöru eða samsetta þjónustu. Þetta vil ég að komi fram þannig að menn haldi ekki að við höfum himin höndum tekið þó að þetta frv. sé samþykkt. Það er fyrst og fremst viðleitni til þess að nota öll þau tæki sem við megum nota í viðskiptum við aðrar þjóðir.
    Hinu er svo ekki að leyna að aðrar þjóðir hafa yfirleitt gripið til einhvers konar ríkisstyrkja. Það hafa Norðmenn gert og það hafa auðvitað margar þjóðir gert til þess að svara niðurgreiðslu annarra þjóða. En það er einmitt úr slíku ástandi sem við viljum komast og sem flestallar ríkisstjórnir í heiminum vilja komast og út á það gengur m.a. það starf sem nú fer fram á vegum GATT og hefur skilað nokkrum árangri að undanförnu en er þó enn þá í gangi og heilmikið á eftir að gerast í því máli.
    Það voru sérfræðingar ráðuneytisins sem fjölluðu um þetta mál og það var mikilvægt að um málið væri víðtækt samkomulag meðal ráðuneytanna. Ég vil gjarnan beita mér fyrir því að athugasemdir og tilmæli frá hv. iðnn. verði til skila haldið og þau verði tekin saman og skoðuð vandlega í ráðuneytinu, en ég legg þó fyrst og fremst áherslu á það að frv. verði samþykkt þannig að það sé þó einhver möguleiki á því að nota það tæki sem hér er verið að smíða fyrir íslenskan iðnað og íslenska framleiðslu fyrst og fremst.