Skipulag ferðamála

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:10:24 (7246)


[14:10]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á skipulagi ferðamála, nr. 79/1985, með síðari breytingum.
    Nefndin hefur fengið á sinn fund Jón Birgi Jónsson, ráðuneytisstjóra í samgrn., og Ragnhildi Hjaltadóttur skrifstofustjóra sem og Birgi Þorgilsson, formann ferðamálaráðs.
    Umsagnir um frv. bárust einnig frá nokkrum aðilum.
    Helstu breytingar á frv., eins og það var lagt fram, eru þær að felld verður úr gildi skylda ferðamálaráðs til að halda a.m.k. fjóra fundi á ári og þess í stað er lögfest skipan framkvæmdanefndar á vegum ferðamálaráðs. Sú framkvæmdanefnd hefur þegar verið stofnuð en skortir lagastoð til þess að ákvarðanir hennar í umboði ferðamálaráðs geti verið gildandi. Þessi skipan stefnir að því að gera starfsemi á vegum ferðamálaráðs virkari og auðveldari í vöfum, að ekki sé skylt að kalla saman fjölmennan hóp eins og ferðamálaráð a.m.k. fjórum sinnum á ári en þess í stað geti framkvæmdanefnd starfað í umboði þess.
    Enn fremur er felldur á brott sá kafli laganna sem fjallar um Ferðaskrifstofu ríkisins sem ekki er lengur til og hefur verið seld öðrum aðilum.
    Þá er í þriðja lagi breytt nokkuð leyfisveitingum til reksturs ferðaskrifstofa, sem hafa verið tímabundin, og heimilað að flokka slík leyfi eftir eðli starfsemi og breytt ákvæðum um tryggingar ferðaskrifstofa þannig að tryggingin taki eingöngu til neytendaverndar. Heimilað er að ferðaskrifstofur sameinist um að setja slíka tryggingu sem getur orðið hagkvæmt þegar um smáa aðila er að ræða á sviði ferðamála.
    Enn fremur eru í frv., eins og það var lagt fram, breytingar á skipan Ferðamálaráðs en nefndin leggur til að þær greinar frv. sem að því lúta, sem eru 2. og 10. gr. þess, falli brott til að greiða fyrir því að þau ákvæði frv. sem samkomulag er um að séu mjög til bóta komist fram. Um þau ákvæði sem fjallað er um í 2. og 10. gr. var nokkur ágreiningur og engin ástæða til að tefja hin þýðingarmeiri ákvæði frv. með því að stefna framgangi frv. í hættu með því að halda fast við þau efnisatriði sem ollu ágreiningi.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem tillaga er flutt um á þskj. 1130 en fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í samgn. skrifa þó undir nál. með fyrirvara.