Skipulag ferðamála

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:14:41 (7247)


[14:14]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er komið frv. sem leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í sjálfu sér er margt jákvætt í frv. því verið er að tryggja hagsmuni neytenda eins og kom fram hjá frsm. nefndarinnar og formanni. Hins vegar hafa verið teknar út úr frv., eins og hann réttilega gat um, tvær greinar sem upphaflega voru og ollu talsverðum ágreiningi innan nefndarinnar.
    Ég hef skrifað undir frv. með fyrirvara. Hann felst einkum í því að hér erum við að taka á okkur skuldbindingar vegna EES-samningsins en ekki vegna þess að menn hafi sjálfir talið það rétt sem auðvitað hefði getað komið þrátt fyrir að við værum ekki aðilar að samningnum. Í öðru lagi er hér verið að

taka inn sérstaklega rétt neytenda en aftur á móti fellt út úr tryggingu almenn rekstrarábyrgð. Þó að ég telji rétt, eins og ég sagði, að tryggja hagsmuni neytenda með þessu þá sé ég ekki að endilega að það hefði þurft að fylgja með í kaupunum að minnka aðra ábyrgð.
    Að öðru leyti hef ég ekki sérstakt við þetta frv. að athuga. Ég vil þó vekja athygli á því í umræðum að aðrir nefndarmenn samgn. sem hafa skrifað undir með fyrirvara eru ekki í salnum. Ég veit að þeir voru á fundi fram eftir nóttu, allir með tölu, og það er e.t.v. eðlilegt að fara fram á það við virðulegan forseta að það verði kannað hvort þeir séu komnir í hús og geti gert grein fyrir sínum fyrirvara áður en umræðu um málið lýkur.