Alferðir

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:30:24 (7251)


[14:30]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Vestf. var því miður ekki á þeim fundi þar sem lokið var umfjöllun um þetta mál. Á þann fund kom Birgir Þorgilsson, sem er formaður ferðamálaráðs og gjörkunnugur starfsemi ferðaskrifstofa. Þar var hann spurður í þaula um þau atriði sem helst þóttu óljós í málinu og gaf hann um þau glögg svör. Ég tel að það sé misskilningur, sem kom fram hjá hv. ræðumanni og hafði komið fram í nefndinni, að hægt sé að selja það sem kallað er alferð án þess að um ferðalag sé að ræða. Pakkinn eða alferðin getur hins vegar tekið til þess hluta ferðalagsins sem lýtur að gistingu og þjónustu en ekki

fargjaldsins en það getur ekki gerst án þess að ferð sé farin. Það er alveg tvímælalaust og alveg skýrt og þarf ekki um það frekar að ræða.
    Það var talið af hálfu fulltrúa ferðaskrifstofa að ferðaskrifstofurnar mundu væntanlega þurfa að kaupa tryggingar gagnvart þeirri auknu neytendavernd sem frv. felur í sér. Það var jafnframt talið að þó svo að ekki yrði um lögfestingu þessa máls að ræða mundu ferðaskrifstofurnar ekki treysta sér til annars en að hafa sambærileg réttindi fyrir farþega í sínum ferðum og t.d. norskar, danskar og aðrar ferðaskrifstofur í kringum okkur hafa þegar þær selja sínum farþegum og ýmsar þeirra selja ferðir til Íslands.
    Varðandi það atriði að þessum hluta alþjóðasamninga kunni að verða breytt sem hafa komið fram raddir um frá Bretlandi, ef ég man rétt, þá er engin vissa fyrir því hvenær það gerist eða hvort það gerist. Verði breytingar á lögum og samningum sem um þennan þátt ferðamála fjalla hjá öðrum þjóðum þá getum við Íslendingar auðvitað tekið það upp til að færa það til samræmis fyrir okkar farþega. En það veit enginn hvenær það gerist og er að mínum dómi hið mesta óráð að bíða eftir því að það kunni að gerast einhvern tímann í framtíðinni.
    Eftir þá athugun sem fram fór á frv., einkanlega á síðasta fundi nefndarinnar en það hafði verið rætt á allnokkrum fundum, þá tel ég mig mega segja að nefndarmenn sem voru viðstaddir séu frv. sammála. Á hinn bóginn höfðu menn ýmsir hverjir --- það er kannski of sterkt að segja athugasemdir, en þeir voru ekki ánægðir með þetta nafn, alferðir, ( EKJ: Það verður aldrei notað.) sem þó var tekið upp að höfðu samráði við málvísindamenn. Ég get sagt það fyrir mína parta að um slíka nafngift má vitaskuld deila og ég ætla ekki að fara í neinar þrætur um að það hefði kannski verið eðlilegra að nota annað orð en nefndin hvarf þó ekki að því ráði að gera breytingar á þessu nafni. En ég tel mig mega segja það að þeir nefndarmenn sem voru viðstaddir afgreiðslu málsins og skrifuðu undir með fyrirvara, að sá fyrirvari var bundinn þessu nafni á þessari tegund ferðalaga en held ég ekki öðru.