Samningur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:39:46 (7254)


[14:39]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um samning milli Íslands, Noregs og Danmerkur fyrir hönd Grænlands um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands.
    Með þessari þáltill. fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samnings milli Íslands, Noregs og Danmerkur fyrir hönd Grænlands um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands. Samkomulag náðist um texta samningsins á fundi í Kaupmannahöfn 11. og 12. þessa mánaðar.
    Ef staðfestur verður mun þessi samningur taka við af eldri samningi milli landanna sem seinast var gerður 18. maí 1992. Samkvæmt núgildandi samningi skal reynt að ná samkomulagi um leyfilegan hámarksafla fyrir hverja vertíð, en ef ekki næst samkomulag mun Ísland ákveða hámarksafla. Leitast skal við samkvæmt gildandi samningi að ákveða fyrir 1. júní ár hvert leyfilegan hámarksafla til bráðabirgða og fyrir 1. des. endanlegan leyfilegan hámarksafla fyrir vertíðina sem hefst 1. júlí og stendur til 30. apríl árið eftir.
    Aflinn skiptist þannig að 78% falla í hlut Íslands, 11% í hlut Grænlands, 11% í hlut Noregs.
    Íslenskum og norskum skipum er heimilt að veiða loðnu í lögsögu Grænlands og íslenskum skipum og skipum með grænlenskt fiskveiðileyfi er heimilt að veiða í lögsögu Jan Mayen.
    Um veiðar í íslenskri lögsögu er fjallað í 6. gr. samningsins. Heimildir eru takmarkaðar við norsk skip og grænlensk skip, þ.e. skip sem skráð eru í Grænlandi og fullnægja skilyrðum grænlenskra fiskveiðilaga um eignaraðild. Íslensk stjórnvöld geta einnig veitt fiskiskipum af öðru þjóðerni, sem fengið hafa grænlensk fiskveiðleyfi, veiðiheimildir. Í viðræðunum milli aðila hefur verið gengið út frá því að færeysk skip, sem hafa leyfi grænlenskra stjórnvalda til veiða á þeirra hlut, fái heimild til að veiða innan íslenskrar lögsögu. Veiðiréttindi takmarkast við nákvæmlega skilgreint svæði og tímabilið 1. júlí til 15. febrúar á hverri vertíð.
    Samningur þessi rennur út í lok yfirstandandi loðnuvertíðar, þ.e. 30. apríl 1994.
    Samningsdrögin sem hér um ræðir eru í grundvallaratriðum byggð á núgildandi samningi. Ákvæði um hlutfallslega skiptingu veiðiheimilda, ákvörðun leyfilegs hámarksafla og heimildir aðila til veiða í lögsögu hvers annars eru öll óbreytt.
    Í samningaviðræðunum lögðu Norðmenn og Grænlendingar mikla áherslu á að samningsákvæðum yrði breytt þannig að þessum þjóðum gæfist betri möguleiki á að nýta veiðiheimildir sínar. Flestar breytinganna í samningsdrögunum má rekja beint eða óbeint til þessara óska. Breytingarnar eru þessar helstar frá eldri samningi:
    1. Alþjóðahafrannsóknaráðið miðar ráðgjöf sína um leyfilegan hámarksafla við að sá bráðabirgðakvóti sem ákveðinn er í upphafi vertíðar samsvari nokkurn veginn 2 / 3 hlutum endanlegs kvóta. Í samningnum er ákveðið að Norðmenn og Grænlendingar geti miðað sína hlutdeild af upphafskvótanum við þennan væntanlega kvóta þannig að í reynd geta þeir veitt 16,5% af bráðabirgðakvótanum. Jöfnuður næst þegar endanlegur kvóti er ákveðinn.
    2. Bótareglum samningsins er breytt lítils háttar. Ef bráðabirgðakvótinn er aukinn minna en forsendur Alþjóðahafrannsóknaráðsins ganga út frá getur forgjafarákvæðið svokallað leitt til þess að Grænlendingar og/eða Norðmenn veiði meira en þeim ber. Þetta fá Íslendingar þá að fullu bætt í upphafi næstu vertíðar.
    Takist Grænlendingum eða Norðmönnum ekki að veiða sinn hlut af væntanlega kvótanum fellur

hann bótalaust til Íslendinga.
    Sé kvótinn aukinn umfram hinn væntanlega kvóta skal Grænland og/eða Noregur fá bætur frá Íslandi á næstu vertíð að því marki sem Íslendingar veiða hlutfallslega meira úr viðbótinni.
    3. Í sameiginlegri yfirlýsingu varðandi framkvæmd samningsins er kveðið á um að Norðmenn megi ekki veiða meira en 60 af hundraði heildarkvóta síns innan íslenskrar lögsögu. Sams konar takmarkanir gilda um veiðar Íslendinga við Jan Mayen.
    4. Samkvæmt samningnum getur hver aðili ákveðið fjölda erlendra skipa í lögsögu sinni. Fallist var á að rýmka þær takmarkanir á fjölda erlendra skipa innan íslenskrar lögsögu, sem íslensk stjórnvöld hafa sett, úr 25 í 36 á sumar- og haustvertíð. Takmarkanir eftir 1. desember verða hins vegar þær sömu og verið hafa.
    Í samningaviðræðunum gerðu Norðmenn tillögu um að breyta þeim takmörkunum um veiðar í íslenskri lögsögu sem miðast við að veiðar Norðmanna og Grænlendinga megi ekki fara fram eftir 15. febrúar eða sunnan 64°30'N. Á þetta gat íslenska sendinefndin ekki fallist. Í lok viðræðnanna var samþykkt að gera bókun í tengslum við undirritun samningsins þar sem Norðmenn kynna þessa afstöðu sína. Fram kemur í bókuninni að Íslendingar hafi tekið við þessum sjónarmiðum og skýrt frá þeim aðstæðum sem lægju að baki gildandi ákvæðum.
    Samningurinn gildir fyrir næstu fjórar vertíðirnar og framlengist sjálfkrafa um tvö ár í senn eftir það nema einhver hinna þriggja aðila segi honum upp í tæka tíð.
    Fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi tóku þátt í samningaviðræðunum um gerð samningsins og mæla með staðfestingu hans.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og utanrmn.