Samningur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:45:44 (7255)


[14:45]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég held að það sé ástæða til að fagna því að samningar náðust milli Íslendinga og grannþjóðanna, Noregs og Grænlands, um nýtingu þessa sameiginlega stofns. Þessi samningur er satt best að segja nokkuð merkilegur og hefur verið horft til hans sem fordæmis um það hvernig þjóðir gætu á frjálsum grundvelli án tengsla við alþjóðlega samninga leyst sín mál með farsælum hætti. Það hefur lengi verið stefna Íslands og kappsmál af okkar hálfu að ná sambærilegum samningum um fleiri stofna sem okkur eru sameiginlegir með öðrum þjóðum þannig að ég held að það sé jákvætt og mikilvægt í sjálfu sér að þessi samningur sem náðst hefur eftir áralangar viðræður haldi gildi sínu, hann hefur reyndar verið að segja má festur kannski enn rækilegar í sessi með lengri gildistíma og sjálfvirkum framlengingarákvæðum. Ég held að það sé gott að hann liggi svona fyrir og hann sé þá frekar en áður fordæmi fyrir mögulegum samningum sem gera mætti með fleiri tegundir. Kemur þá auðvitað í hug bæði rækjustofninn, karfastofninn og fleiri sem eru okkur og Grænlendingum sameiginlegir og norsk/íslenski síldarstofninn sem auðvitað lægi mjög beint við að semja um á svipuðum grundvelli og hér er gert því það vill nú einu sinni þannig til að í raun og veru snýr dæmið öfugt þegar kemur að norsk/íslenska síldarstofninum, hann hrygnir við Noreg en gengur hingað öfugt við það sem er með loðnuna sem hrygnir hér í okkar vatni en gengur um tíma út úr íslensku lögsögunni.
    Það er ástæða til að harma það --- eins og fer nú vel á að ég með þetta nafn segi --- að ekki skuli hafa náðst samningar um fleiri stofna þrátt fyrir miklar viðræður og endurteknar og ítrekaðar óskir Íslendinga um það, t.d. við Grænlendinga. Ástandið eins og það er í sambandi við rækjuna og karfann er auðvitað alls ekki nógu gott þar sem önnur þjóðin setur aflakvóta og reynir að stjórna veiðunum en hin án tillits til þess veiðir eða selur öðrum aðilum veiðirétt á sameiginlegum stofni. Ég ætla ekki í sjálfu sér að fara að ræða efnisatriði þessarar framlengingar sérstaklega eða þær lítils háttar breytingar sem á henni eru gerðar. Ég tel eftir atvikum að íslenskir samningamenn hafi haldið vel á spilunum og varið það sem mikilvægast var að aðgangur Norðmanna yrði ekki aukinn að veiðunum hér á vetrarvertíðinni. Það hefur aldrei sannast betur en í vetur hversu gífurlega verðmætur sá tími vertíðarinnar er þegar loðnufrysting og hrognataka fer fram og útflutningsverðmæti upp á hundruð milljóna ef ekki milljarða sköpuðust á fáeinum vikum þannig að önnur eins uppgrip og verðmætasköpun eru orðin fátíð að heita má í íslensku samfélagi eða íslensku atvinnulífi eins og á sér stað á hátíð loðnuaflans.
    Ég held á hinn bóginn að ekki sé hægt að mótmæla því að sú leiðrétting, sem gerð er gagnvart Norðmönnum eða Norðmönnum og Grænlendingum með lítils háttar hærri hlutdeild í útgefnum upphafskvóta, er sanngjörn vegna þess að það er auðvitað ekki rökrétt til frambúðar að byggja annars vegar á tiltekinni skiptingartölu, hundraðstölu sem hver aðili um sig eigi rétt á að taka úr stofninum, en hins vegar á fyrirkomulagi sem ár eftir ár eftir ár gerir það að verkum að einhver aðili samningsins nær ekki sínum hlut. Það verðum við Íslendingar auðvitað að horfast í augu við þannig að ég er ekki ósáttur við það þó að það hafi aðeins heyrst að þarna hafi menn slakað um of á. Ég er ekki ósáttur við það að hlutur Norðmanna og Grænlendinga hækki lítillega í upphafskvótanum. Miðað við allar aðstæður held ég að það hafi verið sanngjörn lending.