Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 21:36:08 (7261)


[21:36]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Að bjóða fram krafta sína til starfa á vettvangi stjórnmála er að bjóðast til að axla ábyrgð. Við segjum oft að pólitík sé að vilja, að pólitík sé að þora, en fyrst og fremst snýst þetta óvenjulega starf um að axla ábyrgð. Stjórnmálamenn eiga fyrst og fremst að hafa það að leiðarljósi að horfa fram um veg, sækja fram að settu og yfirlýstu marki og verða ótrauðari þó að leiðir lengist vegna áfalla eða breyttra ástæðna.
    En það er líka hollt að horfa um öxl og meta árangur í ljósi aðstæðna. Þegar við jafnaðarmenn lítum um öxl yfir þau ár sem Alþfl. hefur setið í ríkisstjórn getum við verið nokkuð sáttir. Alþfl. hefur átt erindi í ríkisstjórn og Alþfl. hefur átt hlut að árangri sem skiptir máli fyrir þjóðarhag. Bæði ráðherrar og þingmenn flokksins eru tilbúnir að fara yfir þau mál, hv. þm. Ávallt hefur flokkurinn axlað tvíþætt hlutverk við þátttöku í stjórn landsins: Að taka á efnahagsmálum og ríkisfjármálum með festu, auka frjálsræði í viðskiptum til hagsbóta fyrir atvinnulífið og að vinna markvisst að umbótamálum á sviði fjölskyldumála sem er grunntónninn í lífsskoðun jafnaðarmanns. Sum verka okkar ráðherra koma strax til framkvæmda og verða sýnileg meðan önnur eru þannig vaxin að þau skila sér til hagsbóta fyrir land og þjóð til lengri tíma litið.
    Alþfl. lagði heill og óskiptur áherslu á að ná fram EES-samningnum vegna möguleikanna sem hann opnar okkar atvinnulífi og formaður Alþfl. hefur axlað þá ábyrgð að ná þeim viðamikla viðskiptasamningi fram. Tugir fyrirtækja í fiskiðnaði og útflutningi hafa á undanförnum missirum á hljóðlátan hátt nýtt

sér tækifæri EES-samningsins til nýrrar vöruþróunar, til nýrrar markaðssetningar og til nýrrar sóknar á þessu helsta markaðssvæði okkar.
    Frændþjóðir okkar stefna nú að aðild að Evrópusambandinu. Norðurlandasamstarfið hefur verið eins og gullinn strengur í alþjóðasamstarfi okkar Íslendinga. Saman hafa frændþjóðirnar starfað þar sem sameiginlegir hagsmunir hafa verið í húfi og þar sem mikilvægt er að lýðræðistónn Norðurlanda heyrist á vettvangi alþjóðamála. Það er mörgum umhugsunarefni hvernig samstarf þessara þjóða muni þróast þegar Evrópusamvinnan er orðin slík þungamiðja. Við þurfum að tryggja með samningaviðræðum að við höldum í framtíðinni réttindum og skuldbindingum EES-samningsins, finna okkar stöðu í samstarfinu í Evrópu, en ég met það svo að leið okkar til að hafa áhrif sé ekki síst í gegnum Norðurlandasamstarfið. Þrátt fyrir erfiðleikana og lakari afkomu þjóðarbúsins hefur ríkisstjórnin náð góðum árangri og við náðum sameiginlegri niðurstöðu í landbúnaðarmálum og við höfum náð samkomulagi í sjávarútvegsmálum en báðir þessir málaflokkar eru þeirrar gerðar að meiri samstaða er um aðgerðir innan landsvæða en innan stjórnmálaflokka.
    Mörg mikilvæg mál hafa náð fram að ganga. Vaxtalækkunin ein sér er ein mesta kjarabót fjölskyldnanna í landinu og mun ásamt skattabreytingum verða lyftistöng í okkar atvinnulífi. Löggjöf um fjármagnsmarkaðinn og gjaldeyrisviðskipti ásamt aðgerðum til að jafna samkeppnisstöðu og nýsköpun í iðnaði á eftir að skila sér í þróttmeira atvinnulífi.
    Það er oft sagt að umræða um efnahagsmál kæfi alla aðra umræðu en þar liggur grunnurinn að velferðinni. Þess vegna hefur Alþfl. ávallt lagt svo mikla rækt við efnahagslegar umbætur samhliða velferðarmálum. Efling og stækkun sveitarfélaga, flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga og sjálfstæði þeirra varðandi tekjuöflun og framkvæmdir er veigamikil undirstaða framfara og fjölskyldumála. Með lögum um tilraunasveitarfélög opnast nýir möguleikar til uppbyggingar og þróunarþjónustu við íbúana. Þetta eru mikilvægar forsendur öflugrar fjölskyldustefnu. Það er í sveitarfélögunum sem jafnaðarstefnan springur út í mestum blóma og með því sjónarmiði eru flest baráttumál Alþfl. sett fram. Þar ber hátt uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins. Í tíð núv. félmrh. hefur fjöldi íbúða aukist um 4.000. Meðaltalið er 500 á ári.
    Löggjöf um húsaleigubætur er mikilvæg viðbót í stuðningi hins opinbera við húsnæðiskostnað. Það hefur verið stutt við húsnæðisöflun fólks með niðurgreiðslum vaxta í húsnæðiskerfinu og með vaxtabótum. En þessi stuðningur nær eingöngu til þeirra sem eru að eignast húsnæði. Nú verður úr því bætt að leigjendur hafa borið skarðan hlut frá borði. Með húsaleigubótunum verður komið verulega til móts við fjölskyldur á leigumarkaði.
    Baráttumál Alþfl. í ríkisstjórn hafa ekki síst verið á sviði félagsmála og nægir að nefna frá liðnum árum lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveða á um rétt íbúanna til þjónustu. Málefni fatlaðra þar sem verulega ver tekið á réttindamálum fatlaðra, stoð og liðveislu, settar fram nýjar áherslur í atvinnumálum þeirra og fjölgað valkostum í búsetumálum fatlaðra.
    Á liðnum missirum hefur mikil uppbygging verið í byggingu hjúkrunarrýmis fyrir aldraða og þjónustuíbúðir aldraða er eftirsóttur kostur.
    Þetta eru fáein af þeim mörgu fjölskyldumálum sem Alþfl. hefur sett á oddinn. En þýðingarmesta fjölskyldumálið er atvinnan. Engin ríkisstjórn unir við atvinnuleysi. Þaðan af síður skipuleggur hún það. Það er ótrúleg og fráleit staðhæfing. Breyttir atvinnuhættir ásamt tækniþróun hafa valdið atvinnuleysi hjá frændþjóðum okkar. Þess vegna er starfsmenntun í atvinnulífinu svo mikilvæg. Með lögum um starfsmennun í atvinnulífinu var stofnaður starfsmenntasjóður sem úthlutað hefur verið úr til 70 verkefna. Um 8 þúsund manns hafa notið þess. Þó mikilvægast sé að taka á atvinnumálum til varanlegrar frambúðar er brýnt að takast á við tímabundinn vanda. Tugum milljóna hefur verið varið til átaksverkefna til að efla atvinnu kvenna í dreifbýli og sl. haust var veitt 60 millj. kr. til sérstakra kvennaverkefna og þótti takast sérstaklega vel til með þá framkvæmd. Þar var leitast við að veita styrki til verkefna sem væru varanleg og einnig styðja við smáiðnað og handverk sem konur um allt land hafa verið að koma á laggir. Þennan þátt atvinnumála verður að efla og rækta og leita nýrra leiða til stuðnings.
    Hæstv. forseti, góðir áheyrendur. Í lok þessa mánaðar ganga landsmenn til sveitastjórnarkosninga. Það er vaxandi krafa þjóðar að stjórnmálamenn axli þá ábyrgð sem þeim er lögð á herðar. Í því felst krafa um að þeir afli sér ekki stundarvinsælda með því að ávísa á börn og barnabörn. Jafnaðarmenn um land allt eru reiðubúnir að axla þá ábyrgð og bjóða fram krafta sína í þágu heimabyggðar. Á 50 ára afmæli lýðveldisins geta Íslendingar horft um öxl á öfluga og glæsta þjóðfélagsuppbyggingu. Sú uppbygging er byggð á sterkri hefð lýðræðis og réttlætis og virðingar hvort fyrir öðru. Á slíkum tímamótum horfum við til framtíðar og okkur ber að halda fram á veg undir sama merki. --- Góðar stundir.