Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 22:07:47 (7264)


[22:07]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Umræður um málefni sjávarútvegsins hafa verið rúmfrekar í sölum Alþingis síðustu daga og síðustu vikur. Það er eðlilegt, það hefur verið mikil gerjun og reyndar gróandi og gróska í þessari atvinnugrein. Við höfum mætt miklum erfiðleikum en erum líka í sókn.
    Eftir mikla uppsveiflu í sjávarútvegi í byrjun þessa áratugs tók við öldudalur sem byrjaði að gera vart við sig fyrir rúmum tveimur árum. Það var eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar að mæta þessum umskiptum, sem m.a. felast í því að afurðir okkar seljast nú á fjórðungi lægra verði en í tíð fyrri ríkisstjórnar og við höfum þurft að skera þorskaflann niður um helming. Ég lagði á það áherslu í öndverðu að þessum nýju aðstæðum yrði mætt með markvissum almennum aðgerðum, raungengi krónunnar yrði breytt, skuldbreytingar yrðu framkvæmdar, skattar yrðu lækkaðir á atvinnufyrirtæki og reynt yrði að ná fram kostnaðarlækkunum. Það er fróðlegt að fara yfir það nú hvernig til hefur tekist í þessu efni.
    Við höfum framkvæmt tvær markvissar gengisbreytingar, við höfum náð fram betri raungengislækkun en áður, sem hefur skilað sér betur til atvinnugreinarinnar en fyrri gengisbreytingar þannig að samkeppnisskilyrði sjávarútvegsins og annarra útflutningsgreina eru nú betri en þau hafa verið í meira en þrjá áratugi. Við höfum framkvæmt tvær umfangsmiklar skuldbreytingar, lengt lán og tryggt afborgunarleysi af stórum hluta skulda sjávarútvegsins og náð með því að létta greiðslubyrði atvinnufyrirtækjanna í landinu. Við höfum aflétt aðstöðugjaldinu af sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum og sjávarútvegsfyrirtækin eru byrjuð að gera sérstaka samninga um raforkuverð með þeim árangri að raunkostnaður vegna raforku í fiskvinnslu á síðasta ári var 2% lægri en á árinu áður. Þannig hefur með markvissum aðgerðum verið tekið til varnar og sjávarútvegi tryggð hagstæð samkeppnisskilyrði við þessa miklu erfiðleika sem við höfum tekist á við.
    Þetta hefur gerst um leið og við höfum tryggt aukinn stöðugleika. Þessi stöðugleiki hefur síðan leitt til þess að það tókst að lækka raunvexti sem um munar. Sú aðgerð er nú smám saman að skila sér til hagsbóta fyrir atvinnufyrirtækin og gefur þeim nýja möguleika til viðspyrnu. Og það er athyglivert, þrátt fyrir það sem sagt hefur verið í þessari umræðu hér í kvöld, að vegna þessara umfangsmiklu aðgerða þá hefur sjávarútvegurinn í heild að mati Þjóðhagsstofnunar verið rekinn nokkurn veginn í jafnvægi undanfarin tvö ár og jafnvel er útlit fyrir að svo verði enn á þessu ári. Og það er athyglivert að vegna þessara ráðstafana hefur sjávarútvegurinn ekki verið að safna skuldum upp á síðkastið. Auðvitað eru miklir erfiðleikar í þessari atvinnugrein, auðvitað eru erfiðleikar í mörgum byggðum, en í heild þá hefur þessi verulegi árangur náðst þrátt fyrir það mikla mótlæti sem við höfum þurft að takast á við.
    Við höfum einnig með markvissum aðgerðum í efnahagsmálum náð þeim umtalsverða árangri að nú er jöfnuður í viðskiptum við útlönd í fyrsta skipti síðan 1986. Og hvaða raunhæfa þýðingu hefur þetta hagfræðihugtak, jöfnuður í viðskiptum við útlönd, í daglegu lífi okkar fólksins hér í landinu? Jú, jöfnuður í viðskiptum við útlönd hefur þá raunhæfu þýðingu að með þeim aðgerðum sem leitt hafa til þess höfum við verið að styrkja framleiðslugreinarnar í landinu gagnvart þjónustugreinunum. Og með því að framleiðslugreinarnar eru nú að uppistöðu til úti á landsbyggðinni þá höfum við með þessu verið að ná þeim árangri að tryggja betra jafnvægi á milli dreifbýlis og þéttbýlis í landinu. Allt eru þetta mikilvæg skref fram á við fyrir atvinnulífið, fyrir byggðirnar í landinu og fyrir fólkið í landinu.
    Sjávarútvegurinn hefur hagnýtt sér þessar aðstæður. Stjórnendur og starfsfólk í atvinnufyrirtækjunum hefur nýtt sér þessar aðstæður til hagræðingar og til þess að ná meiri árangri í rekstri. Útgerðarmenn og sjómenn hafa sótt á ný mið út fyrir landhelgina og fært fleiri milljarða í nýjum tekjum inn í þjóðarbúskapinn með því móti. Stjórnvöld hafa með ýmsum aðgerðum, m.a. með starfsemi aflakaupabankans, stuðlað að því að við gætum í auknum mæli nýtt áður vannýttar fisktegundir og með því móti hefur okkur tekist að veita nýjum milljörðum kr. inn í þjóðarbúskapinn. Þannig hafa útgerðarmenn og sjómenn tekist á við þessi verkefni og notfært sér þær betri aðstæður sem skapaðar hafa verið. Fiskvinnslan hefur einnig verið í sókn. Efnahagsbreytingarnar hafa leitt til þess að staða hennar er nú betri en áður gagnvart útgerð í landinu, það er betra jafnvægi á milli fiskvinnslu og útgerðar. Útflutningur á óunnum fiski hefur dregist saman svo um munar. Í dag hefur verið sagt frá því að útflutningur á óunnum fiski er 80% minni en í fyrra og útflutningur á þorski heyrist nánast sögunni til. Fiskvinnslufyrirtækin hafa tekið stærri framfaraspor í því en nokkru sinni áður að fullvinna afurðirnar í neytendaumbúðir til þess að skapa meiri verðmæti hér innan lands, til að skapa meiri vinnu og til að komast inn á stöðugri markaði erlendis. Allt er þetta verulegur árangur, sýnir kraftmikla atvinnugrein sem er í mikilli sókn þrátt fyrir þá erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lýsti því fjálglega hvernig hann hefði komið hugmyndum um útflutningsleið á pappíra Alþb. Þessi útflutningsleið á vinnuskjölum Alþb. er í lifandi framkvæmd núv. ríkisstjórnar og atvinnufyrirtækjanna í landinu.
    Það hefur verið unnið mikið og markvisst að því undanfarin tvö ár að endurskoða fiskveiðistefnuna. Það hefur verið vandsamt verk og erfitt vegna þess að þar er í mörg horn að líta, ólíkir hagsmunir sem togast á. Markmiðið með þessari endurskoðun hefur fyrst og fremst verið það að tryggja áframhaldandi stöðugleika í rekstrarumhverfinu, tryggja aukna hagkvæmni í rekstri atvinnugreinarinnar og skynsamlega nýtingu þessarar mikilvægustu auðlindar landsins. Vissulega eru um þetta miklar deilur og ólíkir hagsmunir og það hefur verið tekist á og við höfum hlustað á ólík sjónarmið og deilurnar leiddu jafnvel til þess að á miðjum sl. vetri kom til stórfelldra vinnudeilna á milli útgerðarmanna og sjómanna. Þrátt fyrir þetta er Alþingi Íslendinga að takast að afgreiða endurskoðun á fiskveiðistjórnunarlöggjöfinni. Ég ætla ekki að segja að það sé í sátt við alla, en vonandi með þeim hætti að sæmilegur friður haldist, að við getum tryggt þann stöðugleika sem við erum að keppa að. Því það er auðvitað óviðunandi með öllu að breyta í grundvallaratriðum þessum leikreglum frá einu ári til annars. Við verðum ef við ætlum að tryggja sókn, áframhaldandi sókn sem skapar okkur ný tækifæri, að tryggja stöðugleika að þessu leyti og það er okkur að takast um þessar mundir.
    Með þessu umfangmikla starfi hefur okkur tekist að skapa höfuðútflutningsgrein landsmanna betri samkeppnisskilyrði en hún hefur áður búið við, stöðugan efnahagslegan grundvöll og okkur er að takast að skapa stöðugleika varðandi þær leikreglur sem fiskveiðistjórnin setur þessum höfuðatvinnuvegi. Þetta er umtalsverður árangur sem skapar skilyrði til nýrrar sóknar, meiri verðmætasköpunar og aukinnar velferðar fólksins í landinu.