Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 22:39:54 (7268)


[22:39]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Eldhúsdag má skilgreina sem uppgjörs- eða fardag þar sem farið er yfir störf, verk metin og jafnframt litið til framtíðar. Störf þingsins hafa staðið stutt að mínu mati, óþarflega stutt, því mörg mæt mál bíða afgreiðslu, nokkur stjórnarmál en mörg þingmannamál sem ég hefði viljað sjá afgreidd. Ég nefni dæmi um frv. til laga um tvísköttun lífeyris, þál. um steinsteypu til slitlagsgerðar, notkun íslensks iðnvarnings og eldsneytissparandi mengunarbúnað.
    Ég vil nefna árangur Alþfl. á erfiðum tímum. Hverju höfum við jafnaðarmenn fengið áorkað með starfi í ríkisstjórn á sl. sjö árum, á einhverju mesta samdráttartímabili sem verið hefur í sögu lýðveldisins? Landsmenn njóta í fyrsta skipti stöðugleika án verðbólgu. Ef áheyrendur efast þá nefni ég fjölskyldu sem skuldar vegna fjárfestinga í íbúðarkaupum og annars 8 millj. kr. Fyrir ári þurfti þessi fjölskylda að greiða í afborganir og vexti 1.330 þús. kr., en á þessu ári 1.170 þús. kr. Kaupmáttaraukningin er 160 þús. kr. Er þetta einhvers virði? Óskar einhver eftir gömlu góðu verðbólgunni?
    Ágætu landsmenn. Í tíð fyrrv. iðnrh. var unnið að undirbúningi stóriðju. Sú vinna er eins og fjármunir á bók og verður tekin út þegar hentar. Gerð var úttekt á stöðu iðnaðarins, svo sem á samkeppnisstöðu og hæfni íslensks atvinnulífs með tilliti til gæða. Þar erum við fyllilega samkeppnishæf einnig hvað varðar verð. Á grundvelli fyrrgreindrar úttektar hófst núv. iðnaðar- og viðskrh. handa um að vinna skipasmíðum og viðgerðum viðeigandi sess. Menn muna að upplýst hefur verið hvernig beitt er undirboðum og ríkisstyrkjum og ýmsum óeðlilegum aðgerðum til að ná verkefnum frá Íslandi. En nú er ný stefna sem sést á því að verkefni skipasmíðastöðva á Íslandi voru aðeins fyrir 300--400 millj. kr. á síðasta ári, en eru nú þegar komin í þá upphæð og horfir til tvöföldunar í það minnsta. Ég minni á að talið er að tvö störf fylgi hverju starfi í nýskipasmíðum og eitt og hálft við viðgerðir. Umskiptin eru mikil og bjartsýni er um að það takist að reisa við íslenskan skipasmíðaiðnað. Lánshlutfall frá Fiskveiðasjóði er hækkað í 70%. Einnig er kostur á 20% láni að auki frá Iðnlánasjóði til verkefna innan lands. Það vantar bara herslumuninn á að skipasmíðastöðvarnar geti rétt úr kútnum vegna skorts á eigin fé.
    Nú þegar, góðir landsmenn, eru íslenskir útgerðarmenn komnir í viðræður við skipasmíðastöðvar um nýsmíði togara og loðnuskips og það þarf að fylgja því eftir með skynsemi og einurð. Þessi dæmi sýna best árangur af breyttum viðhorfum og nýrri stefnu.
    Fyrir tilstuðlan iðnrh. og einnig fjmrh. hafa verið settar vinnureglur um hvernig farið skuli með mál sem lúta að undirboðum og ríkisstyrkjum í iðnaði í samskiptalöndum Íslendinga. Átak hefur verið gert varðandi styrkveitingar og nýsköpun í smáiðnaði. Fjörutíu aðilar fengu styrk á síðasta ári og hafa allir náð árangri. Íslenskt, já takk, eru orð sem allir landsmenn skilja. Átak hefur verið gert varðandi breytingu á skilningi manna á áhrifum á innri markaði og atvinnu. Íslendingar eiga að velja að öðru jöfnu íslenska framleiðslu og afurðir. Ég vil lýsa ánægju með og fagna marktækum árangri í þessu efni.
    Góðir tilheyrendur. Krafan hlýtur að vera um að menn tendri ljós bjartsýni á framtíðina. Við höfum gengið í gegnum þrengingar og uppstokkun í atvinnu- og efnahagslífi og eigum að geta farið að njóta ávaxta þess í formi nýrra atvinnutækifæra og bættra lífskjara. Alþfl. er framsýnn umbótaflokkur með raunsæja stefnu. Alþfl. hefur haft kjark til að setja fram skoðanir og kröfur um mál þó ekki hafi verið til vinsælda fallið á líðandi stund. Ég nefni sem dæmi uppstokkun heilbrigðiskerfisins, umbætur í almannatryggingum og húsnæðis- og húsaleigubótakerfi. Svo má spyrja: Ætli það sé fyrir tilviljun að fyrsta stórátakið til að sameina sveitarfélög, stækka atvinnusvæði og skapa tilfærslumöguleika verkefna frá ríki til sveitarfélaganna gerist á valdatíma Alþfl.? Alþfl. hefur barist gegn stjórnkerfum landbúnaðarins, sem samkvæmt handbók bænda eru á annað hundrað talsins, og bent á einföldun og skilvirkni fyrir bændur, en því miður án skilnings þeirra eða samstöðu. Afkomumöguleikar bænda eru bundnir við erlendan tækjabúnað og bændur eru neytendur eins og við hin. 60% af neyslu bænda, eins og okkar hinna, eru erlendar landbúnaðarafurðir í einhverju formi. Þetta gleymist og menn hafa farið offari í málum sem hafa í raun átt að vera vernd fyrir íslenskan landbúnað en orðið til skaða. Hér skal það nefnt að Alþfl. hefur aldrei farið með stjórn landbúnaðarmála, það eru aðrir sem bera ábyrgð á því að fjöldi bænda býr við fátækramörk.
    Ágætu tilheyrendur. Eftir skamman tíma fara fram sveitarstjórnarkosningar og er að hefjast snörp barátta nú síðustu dagana. Ég vona að málefnaleg framsetning og drengskapur ráði ríkjum. Ég óska að trú á manngæði og jöfnuð ráði málflutningi og að bjartari tímar séu í vændum fyrir landsmenn alla. Megi þessi gildi ráða vali kjósenda í komandi sveitarstjórnarkosningum. --- Góðar stundir.