Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 23:20:57 (7273)


[23:20]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Gott kvöld, góðir Íslendingar. Sumarkoman fyllir okkur jafnan von og áræðni, glæðir bjartsýni og eflir trú á framfarir.
    Enginn mælir því mót að þjóðarbúið hefur átt við mikla erfiðleika að stríða á þeim þremur árum sem núv. ríkisstjórn hefur starfað. Flestir þekkja þær ástæður sem að baki liggja. En þjóðin var illa í stakk

búin til þess að takast á við skyndileg ytri áföll. Afrakstrinum af mesta góðæri í efnahagssögu þjóðarinnar á síðasta áratug var jafnóðum sóað.
    Þótt forusta Framsfl. og Alþfl. vilji helst gleyma þessum tímum þá man fólk gjörla eftir óðaverðbólgu og háum vöxtum sem bitnuðu verst á þeim er síst mátti. Fólkið í landinu man gjörla þótt forustumenn Framsfl. og Alþb. vilji gleyma og enn sitja þeir fastir í sínum gömlu sporum. Öllu á að bjarga með ríkisframlögum og allt að fjarmagna með lánsfé erlendis frá og stofna þar með sjálfstæði þjóðar í hættu.
    Umræður hér á Alþingi síðustu daga hafa um margt verið athygisverðar. Heilbrrh. hefur lagt fram frv. til laga sem tilbúið er til afgreiðslu um umtalsverðar breytingar á dreifingu og sölu lyfja sem mun styrkja lyfjadreifingu um landið allt og leiða til lækkunar á lyfjaverði, einnig á landsbyggðinni, m.a. með því að afnema lénsskipulag einkasölunnar á lyfjum sem viðhaldið hefur hæsta lyfjaverði hér á landi samanborið við Norðurlöndin.
    En nú bregður svo við að stjórnarandstaðan hefur eignast baráttumál sem er að standa gegn lækkun lyfjaverðs og verja um leið óbreytt lénsskipulag einkasölunnar og þá sem þess njóta gegn hagsmunum neytenda, fólksins í landinu. Það verður að teljast til tíðinda í íslenskum stjórnmálum að þegar á reynir skuli Alþb. standa í forustu með stuðningi Framsfl. og Kvennalista að því að verja þá sérhagsmuni er felast í því að viðhalda hæstu álagningu í lyfsölu á Norðurlöndum en hún er hér nú um 60%.
    Sama gildir einnig um afstöðu stjórnarandstöðunnar til flutnings ríkisstofnana út á land. Alþfl. hefur haft forustu um að ryðja þeirri stefnu braut að opinberar stofnanir sem vinna að verkefnum á landsbyggðinni eigi að vera staðsettar þar eins og aðstæður frekast leyfa. Það sjá allir að það er grundvallaratriði í þjóðarsátt um byggðastefnu að brotið verði á bak aftur hið sjálfvirka lögmál að allar þjóðarstofnanir eigi að vera í Reykjavík.
    Nú hefur umhvrh. Össur Skarphéðinsson gert tillögu um að flytja embætti veiðistjóra frá Reykjavík norður á Akureyri, en þá bregst stjórnarandstaðan öndverð gegn þeirri ætlan og beitir öllum ráðum til að koma í veg fyrir að slíkt geti orðið og telur víst að öllu sé best fyrir komið í Reykjavík.
    Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur ríkisstjórnin lagt sig fram um að treysta byggðina í landinu með því að leggja grunn að þjóðarsátt um byggðastefnu. Undir forustu iðnrh. Sighvats Björgvinssonar hafa framlög til niðurgreiðslna á húshitun á köldum svæðum landsbyggðarinnar verið stóraukin. Hér er um afar mikilvægt mannréttinda- og lífskjaramál að ræða og þessu starfi verður að halda áfram og ná enn frekari árangri.
    Undir forustu félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið unnið mikið verk við að efla sjálfsforræði sveitarfélaganna með því að verkefni verði flutt frá ríki til sveitarfélaga. Hér er um afar mikilvægt landsbyggðarmál að ræða sem undirbúið hefur verið í náinni samvinnu við sveitarstjórnarmenn.
    Þá hefur myndarlega verið staðið af hálfu stjórnarflokkanna að stórfelldri uppbyggingu í vega- og hafnamálum sem er lykilatriði í traustri byggðastefnu.
    Heilbrrh. Guðmundur Árni Stefánsson hefur beitt sér fyrir því að efla og styrkja heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni. Rekstur heilbrigðisstofnana hefur verið styrktur, m.a. með því að takast á við uppsafnaðar skuldir frá fyrri árum og eðlilegri uppbyggingu haldið áfram um land allt. Þetta hefur tekist án þess að það bitni á þjónustunni enda hefur hún víða aukist.
    Það var sannarlega viðkvæmt og erfitt verkefni að takast á við hina sjálfvirku útgjaldaþenslu velferðarkerfisins sem hefði um síðir annars brotið kerfið niður. Ekki stóð á hrakspám og gífuryrðum af hálfu stjórnarandstöðunnar sem gerði allt til þess að koma í veg fyrir hina nauðsynlegu endurskoðun án þess að leggja fram nokkrar jákvæðar tillögur til úrbóta nema meiri útgjöld úr ríkissjóði með ávísun á lántökur í útlöndum. Hrakspár stjórnarandstöðunnar hafa ekki ræst. Þvert á móti stöndum við nú innan tíðar á þeim tímamótum að geta tekist á við stór og ný verkefni á sviði heilbrigðismála til heilla fyrir framtíðina. Ákvörðun heilbrrh. um byggingu nýs barnaspítala er því sannarlega fagnaðarefni og fer vel á því að slík ákvörðun sé tekin á ári fjölskyldunnar er leiðir þá til upphafs framkvæmda. Það er löngu kominn tími til að hér verði bætt úr brýnni þörf og búið að sjúkum börnum og foreldrum þeirra eins vel og nokkur kostur er.
    Góðir Íslendingar. Sumarið felur í sér vonina um uppskeruna. Við sjáum þess nú glögg merki að það er að birta til í efnahagsmálum okkar. Það finnur fjölskyldufólk m.a. í stöðugu verðlagi á nauðsynjavörum. Unga fólkið, sem er skuldsett vegna íbúðarkaupa, finnur það í lægri vöxtum og atvinnureksturin á nú að vera í stakk búinn til þess að hefja nýja framfarasókn til nýsköpunar í atvinnulífi. Það er stærsta viðfangsefni stjórnmálanna núna að vinna bug á atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum.
    Samkomulag stjórnarflokkanna um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar er mikilvægur áfangi, endurskoðun sem fer fram við mjög lítið svigrúm og þröngar aðstæður er skapast af meiri takmörkun botnfisksafla en áður hefur þekkst. Aðgerðir stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum koma í veg fyrir annars alvarlegt öngþveiti en ættu að skapa skilyrði fyrir allar greinar sjávarútvegs til að komast út úr yfirstandandi þrengingum og njóta afrakstursins þegar aðstæður leyfa, aukningu hámarksaflans sem við verðum að vona að geti orðið strax á næsta fiskveiðiári. Sérstaklega ber að fagna því að veiðum krókaleyfisbáta er nú borgið, en ljóst er að gildandi lög um 2,2% aflahlutdeild á næsta fiskveiðiári hefði lagt þann útveg í rúst. Því hefur nú verið forðað og grundvöllur lagður að bærilegri afkomu þeirra fjölskyldna sem að krókaleyfisveiðum standa.

    Góðir Íslendingar. Sannarlega var unnið mikið þrekvirki undir forustu Jóns Baldvins Hannibalssonar með þeim árangri er náðst fyrir íslenska hagsmuni í viðræðum okkar um Evrópska efnahagssvæðið. Án þess samnings væri framtíð Íslands dökk og við yrðum að sætta okkur við langtum lélegri lífskjör en gerast í nágrannalöndum okkar. EES-samningurinn tryggir hvort tveggja í senn sjálfsforræði þjóðarinnar og traust viðskiptakjör við granna okkar í Evrópu. En það besta við þennan samning er það að nú er ekki nauðsynlegt að sækja um aðild að Evrópusambandinu eins og annars hefði getað orðið. Ég vil leggja áherslu á að væntanleg aðild annarra EFTA-þjóða að Evrópusambandinu gefur ekki tilefni nú fyrir Íslendinga að sækja um aðild að bandalaginu. Þvert á móti ætti það að geta styrkt stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna að standa utan Evrópusambandsins en eiga góða samvinnu og áframhaldandi viðræður við sambandsþjóðirnar á grundvelli EES-samningsins.
    Góðir Íslendingar. Það hefur verið lagður grunnur að bjartari tíð í efnahagslífi þjóðarinnar. Mikils er vert að gefast nú ekki upp þegar ávextir verkanna sjást svo greinilega. Uppskera sumarsins er í nánd. Mikilvægt er að góð samstaða megi nást um að uppskeran fari nú ekki forgörðum heldur efli réttlæti í landinu og bæti lífskjör. --- Góðar stundir.