Lyfjalög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 11:25:09 (7279)


[11:25]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það eru nú liðnir nokkrir dagar síðan hæstv. heilbr.- og trmrh. flutti ræðu í lok fyrsta hluta 2. umr. um þetta merka mál, sem þeim bræðrum, hæstv. heilbr.- og trmrh. og hv. formanni heilbr.- og trn,. finnst vera það mikilvægasta sem Alþingi fjallar um þessa dagana.
    Sú ræða er mér nokkuð minnisstæð vegna þess að að henni lokinni fannst mér að það væri e.t.v. ekki svo langt á milli sjónarmiða hæstv. ráðherra og stjórnarandstöðu eða minni hluta hv. heilbr.- og trn. og e.t.v. væri möguleiki á því að við nálguðumst nú og fyndum sameiginlegan flöt til að ljúka þessu máli. Það gladdi mig vissulega. Þó ég gæti í sumum tilvikum alls ekki lagt sama skilning og hæstv. ráðherra í ýmsar greinar frv. þá var ég tilbúinn til þess og er tilbúin til þess enn í dag að fara með þetta aftur inn í nefnd til þess að fara betur yfir þann skilning sem hæstv. ráðherra leggur á einstakar greinar og gengur þvert á það sem kemur út úr okkar nefndarstarfi og einnig þvert á þær umsagnir sem okkur hafa borist.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er búinn að fara vel yfir þann hluta af ræðu hv. formanns heilbr.- og trn. sem hér talaði í gærkvöldi og ég verð að segja að miðað við það hvernig þessi mál hafa þróast undanfarna daga og miðað við þá umræðu sem átti sér stað, þennan fyrsta hluta, þá finnst mér afar ómaklega að stjórnarandstöðuþingmönnum í heilbr.- og trn. vegið. Og ég vildi gjarnan biðja hæstv. ráðherra eða hv. formann heilbr.- og trn., það er sama hvor er, að fara yfir það hér hvar í málflutningi okkar, hv. þingmanna í minni hluta heilbr.- og trn., við vorum svona ómálefnaleg. Fara bara yfir það hér lið fyrir lið og leyfa okkur þá að svara fyrir, en fara ekki með svona hástemmdar fullyrðingar fyrir alþjóð. Mér finnst þetta ómerkilegur málflutningur og ekki sæma þingmanni og síst af öllu hv. formanni heilbr.- og trn.
    Við höfum lagt í þetta mikla vinnu og vandað okkar vinnu. Og ég trúi því ekki að hv. formaður heilbr.- og trn. geti t.d. borið það að þeir tveir fulltrúar Framsfl. sem sitja í hv. heilbr.- og trn. hafi ekki þekkingu á þessum málum og þeir hafi ekki staðið hér og farið yfir þetta mál á málefnalegan hátt, að þarna sé um að ræða, hvort sem það eru þessir tveir hv. fulltrúar, fulltrúi Kvennalistans eða Alþb., að okkar málflutningur byggist helst á einhverri hagsmunagæslu fyrir apótekara landsins. ( Gripið fram í: Það er rétt.) Okkar málflutningur hefur fyrst og fremst byggst á því að hér viljum við jafnt lyfjaverð um land allt.
    Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson vill gjarnan kaupa olíuna á sama verði hvar á landi sem hann er staddur. Hann þarf kannski að nota töluvert af olíu í dag, meira en lyfjum, og vill fá að kaupa hana á sama verði hvar sem er. En það gildir allt annað um lyfin. Og ég harma það að hv. formaður heilbr.- og trn. skuli hafa þennan háttinn á í stað þess að boða til fundar í heilbr.- og trn. og ræða þessi mál þar við okkur og reyna að ná samkomulagi sem mér virtist, eftir ræðu hæstv. ráðherra hér um daginn, að væri e.t.v. í augsýn. En þegar talað er á þennan máta þá er auðvitað lengri vegur í það að þetta samkomulag náist.
    Það er líka umhugsunarvert að formaður heilbr.- og trn., sem staðið hefur að því að færa 600 millj. yfir á sjúklinga með aukinni þátttöku þeirra í lyfjakostnaði á undanförnum árum skuli bjóða sér slíkan málflutning og kalla alla þá sem komu fyrir nefndina og okkur ber að taka á móti og hlusta á af fyllstu kurteisi ,,hagsmunaaðila``. Auðvitað erum við það öll. Auðvitað erum við öll hagsmunaaðilar þegar lyfjaverð í landinu er til umræðu. En auðvitað þekkjum við þetta. Við vitum að það er ekkert einsdæmi að þegar við erum að fjalla um frumvörp þá komi til fundar við nefnd þeir sem eiga hlut að máli. Hv. þm. hefur e.t.v. tekið þátt í því þegar við vorum að afgreiða fyrir stuttu frumvörp sem sneru að prestastéttinni en fáir hafa verið duglegri við að sitja á pöllum og fylgja málum sínum eftir, sem er bara hið besta mál því þeir þekkja það sem þá er verið að ræða betur en e.t.v. nokkur sem hér situr inni nema e.t.v. hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson.
    Það sama gildir auðvitað um alla þá fjölmörgu aðila sem heimsóttu heilbr.- og trn.

til þess að ræða þetta mál. Þeir hafa þekkingu á því og þess vegna komu þeir. Mér finnst það gott og þannig eigum við að vinna. Við eigum að hlusta á þá sem málið snertir. Við eigum að gera það og við tókum það hlutverk okkar alvarlega og ég hélt að hv. formaður nefndarinnar hefði gert það líka því ég man ekki til þess að hann hafi á nokkru stigi neitað því að kalla fyrir nefndina þá aðila sem beðið var um og fundist sjálfsagt að þeir kæmu til viðtals við nefndina. En að tína svo einhverja úr og kalla minni hluta nefndarinnar sérstaka hagsmunagæslusveit vegna þess að að einhverjum hluta falla saman skoðanir minni hluta nefndarinnar og þeirra sem komu á fund nefndarinnar, Apótekarafélags Íslands og fleiri aðila.
    Við erum að gæta hagsmuna þeirra sem ætla sér og þurfa að nota lyf. Og það er grundvallaratriði í heilbrigðiskerfinu að allir landsmenn sitji við sama borð hvað varðar heilbrigðisþjónustuna. Það er einkennilegt ef málum er þannig komið að þeir einir sem vita hvernig þessum málum er best komið og hvað lækkar lyfjaverð alls staðar á landinu eru tveir menn. Vegna þess að eins og sjá má þá mætir enginn úr hv. heilbr.- og trn. þegar verið er að ræða þetta mál nema formaðurinn. ( Gripið fram í: Og þú.) Úr meiri hlutanum sem skrifar undir brtt. og nál. Hvar er þetta fólk? Hvað ætla fulltrúar Sjálfstfl. að segja um þetta mál? Hvers vegna koma þeir ekki og lýsa því hvað það var sem sannfærði þá rétt á síðustu dögum nefndarstarfsins um það að hér værum við á réttri leið. Hvers vegna koma þessir hv. þm. ekki og lýsa því fyrir okkur?
    Ég hafði alls ekki ætlað að eyða hluta ræðu minnar í þetta vegna þess að ég hélt að málflutningi eins og hv. þm. var með í gærkvöldi væri lokið. Við værum komin á það stig að ætla að reyna að ná saman og ljúka þessu máli. Ég hélt það. Ástæðan fyrir því að ég bað um orðið upphaflega var einungis sú að í fyrsta hluta 2. umr. var ég með beinar spurningar til hæstv. ráðherra sem hann ekki svaraði og ég ætlaði einungis að ítreka þær. En manni finnst mjög ómaklega að okkur vegið og þá fyrst og fremst okkur sem störfum í minni hluta hv. heilbr.- og trn. þegar farið er með þær upplýsingar fyrir alþjóð --- bara kokhraustur, hv. þm., sem búinn er að færa 600 millj. yfir á sjúklinga á nokkrum mánuðum, það er nefnilega ekki langt síðan Alþfl. byrjaði að demba yfir okkur nýjum og nýjum reglugerðum og færa kostnaðinn yfir á sjúklinga --- að það séu bara hv. þm. Framsfl. og Alþb. og Kvennalistans sem fyrst og fremst séu að vinna gegn hag sjúklinga í landinu. Þetta er ómerkilegur, óvandaður málflutningur. Læt ég þá þeim kafla ræðu minnar lokið um ómerkilegan málflutning hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar og sný mér að því sem var erindið í ræðustólinn upphaflega áður en þessi eftirminnilega ræða var flutt. Það voru spurningar mínar til hæstv. heilbrrh.
    Fyrst bað ég um skýringar ráðherra á 2. gr. frv. og síðan þeim brtt. sem mér skildist á ræðu hæstv. ráðherra að væru nánast sameiginlegar, alla vega brtt. sem hæstv. ráðherra hafði samþykkt og meiri hluti nefndarinnar flytur. Þar kemur í ljós að meiri hluti nefndarinnar leggur til að 3. mgr. 2. gr. falli út þar sem segir: ,,Leggja skal árlegt eftirlitsgjald á fyrirtæki þau og stofnanir sem Lyfjaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með og skal gjaldið standa undir kostnaði við rekstur eftirlitsins.``
    Í stað þessarar málsgreinar --- virðulegi forseti, ég bíð þar til bræður hafa haft samráð sín á milli. Ef því er lokið þá held ég áfram. Í stað þessarar málsgreinar eiga að koma tvær nýjar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um eftirlitsgjöld og innheimtu þeirra að fengnum tillögum Lyfjaeftirlits ríkisins.``
    Sem sagt heimildin til þess að leggja á þetta árlega eftirlitsgjald er felld út. Í stað heimildarinnar koma þessar tvær nýju málsgreinar. Mér hefði fundist eðlilegra að þessu væri breytt þannig að fyrst komi heimildin inn og síðan hlýtur að koma ákvæði um nánari útfærslu á henni. En það hlýtur að vera hægt að hártoga þetta í lagatexta ef þessu verður ekki breytt.
    Við í minni hlutanum vildum fá nánari útlistun á því með hvaða hætti gjaldstofninn yrði og hvort um er að ræða eitthvert hámarksgjald. En það er ekki í brtt. og ég vildi biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins nánar út í það með hvaða hætti hann hyggst leggja

þetta gjald á og hvort það hefur verið tekin ákvörðun um eitthvert hámark.
    Ég tel nauðsynlegt að breyta þessu og að á milli 2. og 3. umr. komi tillaga til breytingar á 2. gr.
    Síðan var ég með spurningar til hæstv. ráðherra er varða 20. gr. Ég vil ítreka þakklæti okkar í minni hlutanum í hv. heilbr.- og trn. Það hefur verið tekið töluvert tillit til þeirra ábendinga sem við komum með við 1. umr. og í nefndarstarfinu. Því eins og ég segi tel ég að starf nefndarinnar hafi verið vandað. Ég tel að í það minnsta hafi fulltrúar minni hlutans í hv. heilbr.- og trn. ásamt formanni lagt mikla vinnu í málið og þar af leiðir að ég tel að við eigum ekki skilið þau orð sem hv. formaður nefndarinnar lét hér falla í gærkvöldi, í sjónvarpsviðtali um daginn og hefur ítrekað aftur og aftur við þessa umræðu. Finnst mér þá að það sé verið að segja að vinnubrögðin hafi í raun ekki verið svona vönduð. (Gripið fram í.) Vegna þess að hv. formaður virðist bara ekkert hafa hlustað á þau rök sem við höfum alla tíð verið með, að lyfjaverð verði jafnt í landinu öllu. Það er meginmálið hjá okkur.
    Þá spurði ég hæstv. ráðherra hvort hann ætlaði sér að hafa einhverjar takmarkanir á auglýsingum. Danir hafa haft þann háttinn á að banna auglýsingar lausasölulyfja í sjónvarpi og þeir virðast komast upp með það þrátt fyrir aðild að EES-samningnum. Þeir hafa sagt í sínum gögnum, eins og reyndar hefur komið fram í öllum þeim gögnum sem við höfum, að við það að heimila auglýsingar á lausasölulyfjum í öllum fjölmiðlum muni það verka neysluhvetjandi. Eftir þeim upplýsingum sem við fengum þá fóru þeir þá leið að banna auglýsingar í sjónvarpi. Ég vildi gjarnan heyra hvort hæstv. ráðherra hefur einhver áform um að gera það líka.
    Síðan var ég með fyrirspurn til ráðherra um það hvernig háttað verður auglýsingum á þeim lausasölulyfjum sem eru svokölluð undanþágulausasölulyf eins og ofnæmislyfið Teldanex eins og sterk verkjalyf sem hægt er að kaupa í lausasölu í 10 töflu skammti og í 20 töflu skammti en ef það þarf af einhverjum ástæðum að fá stærri skammt þá verður að fá það gegn lyfseðli. Auglýsing á þessum lyfjum í lausasölu hlýtur að verka sem auglýsing á sömu tegund lyfja þegar hún er ekki í lausasölu, þ.e. lyfseðilskyld ef hún fer yfir ákveðinn töfluskammt. Það sama gildir um verðlagningu á undanþágulausasölulyfjum. Á að fara eftir einhverjum allt öðrum reglum þegar um er að ræða verðlagningu á sterkum verkjalyfjum í þeim tilvikum þar sem þetta fellur undir lausasöluna, 10 töflur, heldur en þegar um er að ræða 50 töflur sem leystar eru út samkvæmt lyfseðli?
    Ég bað um skýringar ráðherra á þessu vegna þess að í grg. með frv. og í yfirferð okkar á frv. hefur þessum spurningum aldrei verið svarað. Hvernig verður samræming á auglýsingum og verðlagningu á lyfjum sem eru hvort tveggja í senn lausasölulyf og lyfseðilskyld lyf? Hvernig verður þetta samræmt?
    Meiri hluti nefndarinnar er með brtt. við 20. gr. sem átti að bæta úr. ( Heilbrrh.: Ráðherra hlustar ef það er málið.) Ég er fegin að heyra það því mér bregður við þegar hv. formaður heilbr.- og trn. er líka farinn úr salnum og hélt að þeir væru kannski loks að fara yfir frv. saman í hliðarherbergi, en ég get þá haldið áfram.
    Meiri hluti heilbr.- og trn. leggur til breytingu á 20. gr. sem á að tryggja stöðu dreifbýlisins umfram það sem var í frv. En ég get ekki séð að svo verði. Alla vega er þessi grein þannig að hægt er að fara með hana eins og margar aðrar greinar frv. og hártoga sitt á hvað. Þá er fyrsta spurningin: Er um staðbundin leyfi að ræða þegar lagt er til að lyfjafræðingur sæki um lyfsöluleyfi á ákveðnum stað eða að reka lyfjasölu á ákveðnum stað? Ég tók dæmi áður af Selfossi þar sem lyfjabúðin á Selfossi þjónar mjög stóru svæði. Hún þjónar Stokkseyri, Eyrarbakka, Sandvíkurhreppi, Gaulverjabæ, Villingaholtshreppi og fleiri hreppum sem hægt er að telja upp hérna til fróðleiks fyrir hæstv. ráðherra. Ef lyfjafræðingur sækir um að reka apótek fyrir þetta svæði og þarf samkvæmt brtt. að fá umsögn viðkomandi sveitarstjórnar þá skilst mér, eins og brtt. eru og eftir ræðu hv. formanns heilbr.- og trn. og einnig á þeim skýringum sem við fengum í nefndinni, að aðeins sé um að ræða umsögn bæjarstjórnar á Selfossi. Ekki annarra sveitarfélaga sem þó skipta við apótekið. Og að leyfið sé staðbundið þannig að ef viðkomandi rekstraraðili ætlar að færa apótekið og reka það í næsta sveitarfélagi við Selfoss, sem er Sandvíkurhreppur og er vel framkvæmanlegt, það tekur ekki nema tvær mínútur að skjótast yfir í það sveitarfélag, þá verði að sækja um leyfið aftur þó það þjóni sama svæði og þá þurfi umsögn þess sveitarfélags sem er Sandvíkurhreppur og þá gildi íbúafjöldi Sandvíkurhrepps sem er alls ekki nægur til þess að hægt sé að reka heilt apótek. Þar búa bara örfáir einstaklingar. Og það hafi ekkert að segja þó að lyfjabúðin eigi að þjóna Selfossi líka.
    Mér finnst alls ekki nóg skýrt kveðið á um þetta í frv. og brtt. hvort leyfin eru staðbundin og hvernig verði þá farið með þær umsóknir sem berast. Þarf í hvert einasta skipti ef apótekarinn vildi færa sig um set innan þess svæðis sem hann þjónar að sækja um nýtt leyfi ef farið er yfir til næsta sveitarfélags? Mörkin milli sveitarfélaga hljóta að eiga að ráða vegna þess að umsagnaraðilinn er aðeins einn.
    Þá er sagt að það skuli gilda ákveðnar reglur um það hver sé fjöldi íbúa á bak við hvert lyfsöluleyfi og fjarlægðin á milli apóteka. En það er ekkert sem segir við hvaða fjölda er miðað. Eigum við að miða við töluna 5.000, eins og kom upp í frv., eða er það einhver önnur tala?
    Hvernig hyggst ráðherra bregðast við ef sótt er um lyfsöluleyfi í sveitarfélagi og viðkomandi sveitarstjórn eða bæjarstjórn veitir heimild sína eftir að hafa verið beðin um umsögn en hæstv. ráðherra sjálfur vill ekki viðkomandi umsækjanda? Eftir hverju á þá að fara ef vilji viðkomandi sveitarstjórnar og hæstv. ráðherra stangast á?
    Verða sömu reglur sem gilda um lágmarksíbúafjölda sem á að vera á bak við hverja lyfjabúð eða verða þetta mismunandi reglur?
    Það voru fleiri atriði sem ég vildi fá nánari skýringar á hjá hæstv. ráðherra en ég ítreka að það sérstaklega hvernig á að afgreiða umsóknir ef um staðbundin leyfi er að ræða. En þetta er ekki það gífurlega frelsi sem frv. boðar og segir að við ætlum að gefa þetta allt saman frjálst en svo ætlum við að setja ríkið í hörkusamkeppni á móti sem er náttúrlega ekkert frelsi. Eins og hæstv. ríkisstjórn hefur túlkað hugtakið frelsi til þess að reka fyrirtæki hér á landi þá er þetta frv. náttúrlega ekkert í þá áttina því það á að vera heimild til að reka apótek við heilsugæslu og sjúkrahús og sjúkrahúsin mega afgreiða lyf. Það er vissulega til bóta. Eins og við segjum í okkar nál. þá er rekstur sjúkrahússapóteka til bóta en þó vantar miklu skýrari ákvæði um það hvernig rekstri þeirra skuli háttað. Mér hefði fundist eðlilegt að annaðhvort væri orðið göngudeildarsjúklingar tekið út úr frv. eða það kæmi mjög skýr skilgreining á því hvað er göngudeildarsjúklingur. Er það sá sem eingöngu kemur á göngudeildir sjúkrahúsanna eða er það göngudeildarsjúklingur sem sækir sína þjónustu til sérfræðings sem hefur stundað hann á sjúkrahúsi en beinir síðan eftirmeðferðinni út á stofu til sín, læknamiðstöðvar hér og þar um alla borgina? Er það göngudeildarþjónusta vegna þess að viðkomandi læknir er í fullu starfi hjá sjúkrahúsinu og tekur með sér lyfseðlana af sjúkrahúsinu til að skrifa á þá því þeir eiga að vera sérmerktir út frá þeirri forsendu að á meðan sjúklingurinn sé í eftirmeðferð eftir aðgerð eða legu á sjúkrahúsi þá sé hann göngudeildarsjúklingur? Eða verður sjúklingum mismunað á þann máta að það verði eingöngu þeir sjúklingar sem fara inn á sjúkrahús og lenda þar hjá læknum sem ekki hafa aðstöðu úti í bæ sem kallast göngudeildarsjúklingar og versla við sjúkrahússapótekið en þeir sem eru í eftirmeðferð á læknastöðvum eða læknastofum úti í bæ heita ekki göngudeildarsjúklingar heldur bara eitthvað allt annað, bara eftirmeðferðarsjúklingar eða eitthvað álíka?
    Það hefur verið meginregla að meðhöndla staðbundin sérleyfi á sérstakan máta og þau verður auðvitað að auglýsa á mjög sérstakan máta. Hvernig verður staðið að því að auglýsa þessi staðbundnu lyfsöluleyfi? Gerist það þannig að hæstv. ráðherra ákveður svæðið þar sem hann eða ráðuneytið telur að þarna sé nú tilvalið að setja upp apótek og nauðynlegt að setja upp apótek eða lyfjaþjónustu og þá er auglýst? Eða gerist það þannig að einhver lyfjafræðingur kemur til hæstv. heilbrrh. og segir: Ég hef áhuga á að opna apótek á þessu ákveðna svæði og þá fer auglýsingin eftir því? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra síðan að meta umsækjendur verði þeir fleiri en einn eða tveir, verði þeir fleiri heldur en þeir sem lýstu yfir áhuga sínum í upphafi? Það eru engar reglur um það hvernig á að meta

þessar umsóknir og eftir hverju á að fara. Þá kemur aftur að því: Hvað ef umsögn viðkomandi sveitarstjórnar stangast á við vilja hæstv. ráðherra? Ef í viðkomandi sveitarstjórn er t.d. enginn alþýðuflokksmaður, hvað ætlar hæstv. ráðherra þá að gera? (Gripið fram í.) Já.
    Ég var búin að ræða það hér að ég teldi að það væri nauðsynlegt að gefa einhvers staðar upp fjarlægðina á milli lyfsala og þó sérstaklega fólksfjölda því að fjarlægðin getur verið mismunandi. Þessar viðmiðanir um fólksfjöldann ættu að fylgja a.m.k. í greinargerð þannig að það verði engin hætta á að það verði mismunandi viðmiðanir eftir því hvar á landinu búið er. Við þurfum að sjá skýra reglur sem gilda fyrir þéttbýlissvæðið þar sem þó eru kannski ekki fleiri heldur en 3, 4 eða 5 þúsund íbúar og aftur þar sem er um stórt svæði að ræða þar sem er eingöngu dreifbýli og fjöldinn miklu minni. Mér hefði fundist eðlilegt að það væri ákvæði þess efnis í frv. að setja reglugerðir um þetta.
    Þá eru heimildir heilsugæslustöðvanna til að reka lyfjaverslun sem hæstv. ráðherra og hv. formaður heilbr.- og trn. telja mjög til bóta. Það er vissulega til bóta að það sé heimilt því að það er slæmt þar sem heilsugæslustöðvar eða sveitarfélög eru að reka lyfjaverslun nánast án heimilda. Það er slæmt. Það getur verið nauðsynlegt að veita slíka undanþágu. En þá vantar í brtt. og frv. með hvaða hætti á að meðhöndla þessi leyfi því að þau eiga að vera í undantekningartilvikum. Þau eiga að vera í sérstökum tilvikum en ekki í samkeppni við einkaaðilana heldur eru þetta undantekningar. Setjum nú svo að það sé nauðsynlegt að setja upp apótek á einhverju ákveðnu svæði, enginn sækir um leyfi og heilsugæslustöðin er sett í reksturinn. Hvað ef síðan kemur lyfjafræðingur sem lýsir yfir áhuga sínum á því að opna lyfjabúð á svæðinu? Hvernig á að meðhöndla það? Hvernig á að meðhöndla þær fjárfestingar sem ríkið þegar það er búið að fara í? Hvernig á að bregðast við ef stjórn heilsugæslustöðvarinnar er alls ekki tilbúin að leggja niður apótekið og viðkomandi sveitarstjórn, sem oftar en ekki á fulltrúa í stjórn heilsugæslustöðva, hafnar umsókn sem kemur frá lyfjafræðingi á þeirri forsendu að hún vilji frekar styðja við bakið á sinni heilsugæslustöð? Það er ekkert um það í brtt. eða greinargerð eða neinu slíku hvernig á að fara með það ef svona dæmi koma upp.
    Það eru líka áform um að færa heilsugæslureksturinn aftur til sveitarfélaganna. Þá gæti hæstv. ráðherra samkvæmt þessum brtt. lent í því að sveitarstjórn á að gefa umsögn með eða móti lyfsöluleyfi sem sótt er um en er um leið beinn rekstraraðili að apóteki sem er í heilsugæslustöðinni á viðkomandi svæði. Það er ekkert um hvernig á að taka á þessu. Það þarf að móta mjög skýrar reglur sem taka af allan vafa með hvaða hætti verður farið með rekstur heilsugæsluapóteka ef einhver sækir um leyfi til þess að reka apótek á sama stað og fjárfestingar og þann kostnað sem búið er að leggja í. Ekki síst þarf að athuga þetta í ljósi þess að það er yfirlýst stefna að færa heilsugæslustöðvarnar aftur yfir til sveitarfélaganna. Ég tala ekki um ósköpin ef reynslusveitarfélögin verða samþykkt hér og þetta verður eitt af verkefnunum sem reynslusveitarfélögin fá. Þá getur það dæmi komið upp strax að reynslusveitarfélagi verða fengnar heilsugæslustöðvar til reksturs, eiga að sjá um reksturinn og jafnframt gætu orðið hagsmunaárekstrar þar á milli ef viðkomandi heilsugæslustöð ætla að reka apótek og síðan yrði sótt um leyfi þar sem sama sveitarstjórn ætti svo að gefa umsögn. Á þessu þarf auðvitað að taka.
    Annað var það í 20. gr. sem við nefndum við 1. umr. og sem við óttumst að geti orðið til þess að hér verði um hringamyndun að ræða í rekstri lyfjabúða, en það er 3. liðurinn þar sem er talað um skilyrði sem þarf að uppfylla fyrir lyfsöluleyfi og þar á meðal er það að viðkomandi þarf að hafa verslunarleyfi eða gera samninga við aðila sem hefur verslunarleyfi. Í 21. gr., minnir mig, er reynt að taka á því sem lýtur að hringamyndun en við teljum að þetta ákvæði í 20. gr. opni samt þann möguleika að fullu. Það getur verið bagalegt að fagleg og rekstrarleg ábyrgð sé ekki hjá sama aðila þegar um er að ræða rekstur á lyfjabúð því að við getum aldrei talað um þetta alveg skylt einhverjum öðrum verslunarrekstri. Það er ekki hægt. Þetta er hluti af heilbrigðiskerfinu og við eigum að varast að tala um þetta eins og hverja aðra verslun sem er verið að reka úti á horni og að sömu lögmál gildi um þennan rekstur og allan annan verslunarrekstur. Það er ekki þannig.

    Í 24. gr. er ákvæði þar sem fjallað er um að lyfsalar skuli tölvuskrá allar upplýsingar af lyfseðlum á formi sem samþykkt er af landlækni og tölvunefnd og að landlæknir geti krafist þessara upplýsinga allt að einu ári aftur í tímann. Það á að setja þessar upplýsingar á ákveðið form sem fylgir lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Það má vel vera að þessi upplýsingaskylda þurfi að vera fyrir hendi og sé nauðsynleg og það var vissulega bóta að það var jafnframt sett á heildsöluna, sem ekki var í frv. að mig minnir. Það er vissulega til bóta. En ég velti fyrir mér þegar svona opin heimild er fengin embætti landlæknis, að geta krafist þessara upplýsinga allt að einu ári aftur í tímann, hvort ekki sé rétt að taki landlæknir þá ákvörðun að kalla eftir slíkum upplýsingum þá þurfi hann að bera þá ákvörðun undir annan aðila, t.d. lyfjamálastjórann eða Lyfjaeftirlitið. Það geta verið svo margar ástæður til þess að landlæknir taki þá ákvörðun að kalla upplýsingarnar inn. Mér hefði fundist nauðsynlegt að hafa einhvern slíkan varnagla að þegar ákvörðun hefur verið tekin á vegum landlæknisembættis um það að kalla inn upplýsingar allt að ári aftur í tímann, þarna er um mjög persónulegar upplýsingar að ræða, þá mætti setja þann varnagla að það þyrfti að bera þá ákvörðun undir einhvern í ráðuneyti eða, sem mér fyndist eðlilegt miðað við frv., lyfjamálastjórann eða Lyfjaeftirlitið.
    Þá má einnig velta því fyrir sér hvort það hafi ekki verið rétt að ákvarðanir um það hvernig þessar upplýsingar skuli skráðar yrðu eingöngu teknar af tölvunefnd en ekki landlækni því að það getur komið upp ágreiningur milli landlæknis og tölvunefndar og það er ekki ljóst samkvæmt frv. hver ætti að skera úr um ef slíkur ágreiningur kæmi upp.
    Þá er það 40. gr. um lyfjaverðsnefnd sem er áætlað að ákveða hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum í heildsölu og smásölu. Í greininni má finna, ef maður leitar vel, einhverjar leiðbeiningar fyrir lyfjaverðsnefnd til að miða við verðákvarðanir sínar, en það vantar hins vegar að það sé kveðið skýrt á um almennar reglur fyrir nefndina að byggja ákvarðanir sínar á. Þessar ákvarðanir eru mjög mikilvægar, bæði fyrir kaupendur lyfja og seljendur. Það er sama hvor aðilinn er, ákvarðanir lyfjaverðsnefndar eru mjög mikilvægar og þurfa helst að standast alla gagnrýni. Það þyrftu að vera í lögum beinar viðmiðanir til að fara eftir til þess að kaupendur eða seljendur gætu lagt mat á það hvort nefndin hafi farið að lögum og hvort um réttmæta ákvörðun er að ræða. Þessar viðmiðanir er auðvitað hægt að setja í reglugerð og þarf ekki kannski að breyta frumvarpstextanum til þess. Það mætti setja þær beint inn í reglugerð.
    Ég lýsti líka skoðun minni á því að sú breyting að setja fulltrúa Hæstaréttar í nefndina til þess að tryggja góð vinnubrögð væri vissulega til bóta. Þó sýnist mér að hann gæti lent í þeirri aðstöðu, vegna þess að það er ekkert sem kveður á um það að fulltrúi Hæstaréttar skuli vera formaður nefndarinnar með tvöfalt atkvæðavægi, þá gæti hann sem við hugsuðum að væri þessi varnagli fyrir góðum vinnubrögðum og til þess að nefndin hefði ekki á sér mjög pólitískan blæ sem vissulega er hætta á að þetta sé meira háð pólitískum vilja heldur en kannski því sem raunhæft er, þá hefði mér fundist eðlilegt að þessi fulltrúi væri formaður nefndarinnar.
    Við í minni hluta höfum alltaf sagt að við værum tilbúin til að afgreiða þau ákvæði sem lúta að EES-breytingunum en við hefðum gjarnan viljað að það yrði skipuð sérstök nefnd sem fylgdist með og gerði úttekt á EES-breytingunum og áhrifum þeirra á lyfjamarkað. Og við höfum reyndar talið að til að reynslutíminn og að úttektin séu marktæk þurfum við a.m.k. eitt og hálft ár og þessi nefnd skili síðan skýrslu sinni til Alþingis. Þá er náttúrlega alltaf möguleiki á því að gera einhverjar breytingar og gildistaka frv. væri miðuð við það að þessari skýrslu hefði verið skilað og hægt að gera breytingar ef þyrfti.
    Það þarf líka aðlögunartíma til að koma þessum breytingum á. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir landsbyggðina að sá aðlögunartími sé góður því að það er ekkert í frv. sem tryggir það að landsmenn sitji við sama borð hvað lyfjaverð áhrærir. Þvert á móti. Það eru allir umsagnaraðilar, ekki bara hagsmunaaðilarnir heldur allir sammála um. ( Gripið fram í: Og ekkert í gildandi lögum.) Jú, það hefur verið þannig samkvæmt gildandi löggjöf og með stýringu heilbrrn. Og vel að merkja þá hélt ég ekki að ég ætti eftir að tala fyrir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. héldi þessum völdum, en ég tel að það sé hans hlutverk að sjá

til þess að landsmenn allir sitji við sama borð hvað varðar verð á heilbrigðisþjónustu og náttúrlega að þeir sitji við sama borð hvað varðar heilbrigðisþjónustuna almennt. Ég held að það sé okkar besta ráð til þess að svo sé að valdið sé hjá ráðherranum. Ef tryggingin væri sú að ráðherrann gæti veitt heimild fyrir apótekum hjá heilsugæslustöðvum úti á landi og það væri síðan nákvæmlega útfært hvernig skyldi fara með þær heimildir ef sótt væri um leyfi, þá væri hægt að skoða þetta á allt annan máta. Það eru svo margir endar lausir í frv. að það er afar ótraustvekjandi.
    Það er kominn mikill bunki af pappírum sem við höfum fengið í kringum þetta því að það tilheyrir þessum vönduðu vinnubrögðum okkar að safna saman öllum þeim upplýsingum sem við mögulega getum. Í bunkann minn bættist í morgun ræða hv. formanns heilbr.- og trn. frá því í gærkvöld sem ég hefði kosið, eins og ég hef sagt áður, að væri málefnalegri þar sem hlutverk hv. þm. sem formanns hv. heilbr.- og trn. er fyrst og fremst að koma réttum skilaboðum og upplýsingum á framfæri til landsmanna. Það er fyrst og fremst hlutverk hv. formanns.
    Það hefur mjög margt verið skrifað um það fyrirkomulag sem við höfum á lyfjadreifingu. Það hefur mjög margt verið skrifað, m.a. mjög merkileg greinargerð sem kemur frá Hrannari Erlingssyni í maí 1992 og merkt er Háskóli Íslands, viðskipta- og hagfræðideild, smásala lyfja á Íslandi. Kannski væri ástæða til að lesa skýrsluna upp þar sem ég er dauðhrædd um að hv. formaður heilbr.- og trn. hafi ekki lesið hana og jafnvel að hæstv. ráðherra hafi fengið embættismenn sína, svo ágætir sem þeir nú eru, til að lesa skýrsluna fyrir sig og segja sér, taka saman aðalatriðin. En það er þannig að þó að það sé gott að hafa góða og ábyrga embættismenn, þá er auðvitað best að lesa gögnin bara sjálfur. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu um daginn, ég man ekki lengur hvaða dag það var, að hann teldi að það væri talsverður stuðningur við meginefni frv., það var dálítið merkilegt að hann orðaði það nákvæmlega þannig, meginefni frv., að brjóta upp þetta trénaða lénskerfi. Hvert er meginefni frv. er það eina sem þá greinir á um hæstv. heilbr.- og trmrh. og hv. formann heilbrn., þá bræður. Það er það eina sem þá greinir á um í þessu máli. Annar þeirra segir að meginverkefni frv. sé að brjóta upp þetta trénaða lénskerfi, sem er alveg full þörf á, en hinn segir að meginverkefni frv. sé að lækka lyfjaverð um land allt. Þetta er eini ágreiningurinn sem ég hef rekist á milli þeirra. ( Heilbrrh.: Ég sagði það fimmtán sinnum í ræðu minni.) Þetta var fyrsti punkturinn í ræðu hæstv. ráðherra og það hefur enginn mælt gegn því að lyfsölukerfinu megi breyta. ( Heilbrrh.: Og lækka verðið.) Og lækka verðið, að sjálfsögðu. Við erum búin að halda hér margar ræður um það að lyf til sjúklinga eru allt of dýr í dag. Það erum við búin að segja hv. formanni heilbr.- og trn. og hæstv. ráðherra síðan hann kom inn á þing og auðvitað oft áður. Það er hægt að fá ljósrit af þeim ræðum öllum fyrir hæstv. ráðherra þegar þeir hafa verið að hækka hlutdeild sjúklinga um 600 millj. kr. á tveimur undanförnum árum. --- Um 600 millj. kr. ( Gripið fram í: Það er mikið.) Það er mikið, það eru stórar upphæðir og það er vissulega þörf á því að skila einhverju af því til baka en ekki bara til Reykvíkinga.
    Frv. mun lækka lyfjaverð með lækkandi álagningu og samhliða innfluttum lyfjum, hefur verið sagt í umræðu. Það höfum við sagt líka að vissulega má færa rök fyrir því að samhliða innflutt lyf munu lækka eitthvað lyfjaverðið og það höfum við sagt. Og það hefur komið fram hjá flestum umsagnaraðilum að það mun gerast. Það hefur einnig komið fram að ef svo ólíklega fer að frv. verði samþykkt þá muni lyfjaverð lækka í Reykjavík. Það hefur enginn mælt því í mót en ekki á landsbyggðinni. Þar munu menn sitja annaðhvort við sama lyfjaverð og í dag eða hækkandi. (Gripið fram í.) Jú, en hærra lyfjaverð, hæstv. ráðherra, og það kemur að því að hæstv. ráðherra getur farið í pontu og svarað þessum spurningum og kominn tími til. Þessari umræðu væri nefnilega löngu lokið ef spurningum okkar hefði verið svarað þegar við hófum 2. umr. Þá væri þessari umræðu áreiðanlega lokið og við værum orðin sammála um það, hv. formaður heilbr.- og trn. og hæstv. ráðherra, að það þyrfti að fylgjast mjög vel með þróun lyfjaverðs og umfram allt að tryggja að allir landsmenn sitji við sama borð.
    Lyfjaþjónustan er, svo ég segi það einu sinni enn, hluti af heilbrigðisþjónustunni og

fram til þess hefur það verið markmið okkar að þar sætu landsmenn allir við sama borð. Það er, hv. formaður heilbr.- og trn., nákvæmlega það sem fulltrúar í minni hluta hafa sagt frá upphafi. Ég vona að okkur takist að koma því til skila í dag að það er meginmálið að allir sitji við sama borð.
    Ráðherra --- hæstv., þetta hæstvirtur er svo sjálfsagt mál að það á ekki að þurfa að tuða á þessu í hvert sinn sem maður talar til hæstv. ráðherra --- lýsti hryggð sinni yfir því að ekki fleiri hv. þm. skyldu sjá að þetta frv. er neytendamál fyrst og fremst. Um það snýst þetta og um það snýst allur okkar málflutningur. Neytendamál fyrst og fremst. Allir neytendur sitji þar við sama borð, hvar sem búið er á landinu.
    Hæstv. ráðherra sagði líka að frv. tryggði lipurt og gott aðgengi neytenda og tryggði að ekkert heilsugæsluumdæmi verði án lyfsölu þar eð heilsugæslustöðvarnar fái heimild til að reka lyfjabúð. Það flest engin trygging í heimildum. En það er sjálfsagt að lagfæra það að þær heilsugæslustöðvar og þau sveitarfélög sem standa í þessum rekstri í dag fái heimildina. En þetta er engin trygging vegna þess að stjórnir heilsugæslustöðva munu ekkert fara að reka lyfjabúð eða apótek öðruvísi en að sjá sér einhvern hag í því. Og það mun verða erfitt fyrir starfsfólk heilsugæslustöðva að segja við þá sjúklinga sem þurfa að skipta við það apótek: Því miður, vina mín eða vinur, ég þarf að selja þér pillurnar á allt öðru verði en Reykvíkingar fá sínar. Því miður. Við getum ekkert að þessu gert. Svona er samkeppnin, við sitjum ekki við sama borð.
    Jafnframt sagði hæstv. ráðherra að í frv. væri ekki slegið af öryggiskröfum. Hvað með sölu lausasölulyfja? Hvað með þær yfirlýsingar, sem ég er einhvers staðar með, ég veit ekkert hvort ég finn þær, í blöðum um það að hér ætli ýmsir stórmarkaðir að vera með lyfsölu? Danir hafa skoðað þetta mál mjög vel og segja þvert á móti að með því að hafa kerfið alveg frjálst þá sé slegið af öryggiskröfum, sérstaklega að því er varðar lausasölulyfin. Að það verði hægt að setja upp lyfjaverslanir í stórmörkuðum og síðan auglýsingarnar. Þar er fjármagnið til að auglýsa og þá verði ekki þessi hreinu skil á milli matvöru og lyfja. Smátt og smátt verði þetta neysluhvetjandi og fólk fari í auknum mæli að reyna að lækna sig sjálft. Eins og maður sér í Bandaríkjunum auglýsa mjög illa haldnar konur eða karlar sem halda ýmist um höfuð, maga, eyru eða háls og alltaf kemur eitthvert lausasölulyf sem má kaupa við verkjunum. Þetta er neysluhvetjandi og slegið af öryggiskröfunum.
    Jafnframt sagði hæstv. ráðherra að það væri vitleysa í málflutningi okkar að það yrði í gangi tvenns konar verð í landinu vegna þess að ákveðið hámarksverð gilti. Hámarksverð er ekki neitt nema hámarksverð. Það getur þýtt, ekki bara tvenns konar verð heldur þrenns konar. Lyfjaverðið getur verið mismunandi á fjórum, fimm, sex stöðum þó að það sé hámark. Þú ferð bara upp að þakinu og getur verið alls staðar á bilinu. ( Heilbrrh.: Svona er það í dag.) Það er tvenns konar eða þrenns konar lyfjaverð þannig að þetta er engin vitleysa í okkar málflutningi. Við sögðum að í landinu getur og verður að öllum líkindum í gangi tvenns konar lyfjaverð. Það er ekkert í frv. sem kemur í veg fyrir það og það mun verða gífurlegur munur á verði á lausasölulyfjum hvort þau eru keypt hér eða úti á landi. Póstverslunin, sem hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir gerði mjög góð skil í sinni ræðu og mun fara yfir aftur, mun hjálpa til þess að draga úr líkunum á því að lyfjabúðir verði reistar úti á landi.
    Mér finnst þetta svolítið áberandi misskilningur hjá þeim bræðrum, hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni og hæstv. ráðherra, að það að við setjum hámarksverð á eitthvað þýði að þá verði ekki um neina mismunun að ræða. Við erum með þetta hámark og þá verður engin mismunun. En hámarkið er --- og það er best að endurtaka þetta af því að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er kominn inn í salinn --- upp að hámarkinu getur mismunurinn átt sér stað. Hámarkið getur orðið það verð sem gildir úti á landi en hitt annars staðar á þeim svæðum þar sem hægt er að fara í þá samkeppni sem talað er um.
    Um þetta atriði eru allir umsagnaraðilar sammála okkur, nema þessi eini sem mig minnir að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir hafi sagt mér að hafi lýst því yfir á fundi nefndarinnar að hann hefði ekki lesið frv. Það var sá eini. Hann lýsti því yfir að þetta væri dágott frv. og allt í lagi með það en því miður hefði hann ekki lesið það. Hann hefði ekki haft tíma til þess að lesa þetta.
    Þá sagði hæstv. ráðherra: Við Íslendingar erum ekki einir á báti meðal þjóðanna hvað varðar breytingar á ríkjandi lyfsölukerfi. Og hæstv. ráðherra sagðist ekki vera hissa ef Danir færu að hugsa sér til hreyfings. Danir hafa verið með þetta í skoðun í ansi langan tíma. 1989 skipuðu þeir vinnuhóp, sem átti að skoða þetta og fara yfir allar þær tillögur sem þá höfðu komið fram og þær sem hugsanlega kæmu fram við skoðun þessa vinnuhóps. Í þeim vinnuhópi sátu fulltrúar frá samkeppnisráði, sambandi umdæmaráðs sveitarfélaga, samninganefnd sjúkratrygginga, stjórn heilbrigðismála og heilbrigðisráðuneytið. Danir ætluðu þessum vinnuhópi að koma með nokkrar mismunandi tillögur á framtíðarskipan lyfjadreifingar og í tillögunum átti að koma fram mismikil opinber afskipti af starfseminni.
    Þessi nefnd hefur nú fyrir nokkru síðan skilað af sér til danskra stjórnvalda og niðurstaðan --- hver er hún? Þeir voru að fást við, og það fannst mér dálítið merkilegt þegar ég var að fara yfir þetta og skoða þau gögn sem ég fékk frá Danmörku, nánast nákvæmlega sömu hluti og við. Nákvæmlega sömu þætti.
    Það var náttúrlega þetta frjálsræði sem við viljum setja á hér samkvæmt frv. ráðherra, verði það samþykkt, en það var líka um það hvort rýmka bæri leyfi til að starfrækja sjúkrahússapótek og rétt sjúkrahússapóteka til að framleiða og selja lyf. Niðurstaða danskra stjórnvalda eftir þetta mikla starf síðan 1989 er allt, allt önnur en okkar. Það sem þeir virðast gera er að taka mark á þeim umsögnum og umræðu sem fram fer um málið.
    Ég fékk sendan bunka af umsögnum frá ýmsum aðilum sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson kallar hagsmunaaðila. Það er alveg rétt því allir landsmenn eru hagsmunaaðilar í þessu máli. Það eru allir. Það eiga allir hagsmuna að gæta.
    En niðurstaða þeirra er allt önnur en okkar. Þeir segja í sinni niðurstöðu: ,,Það er skilningur ríkisstjórnarinnar, [þeirrar dönsku] að út frá forsendum samkeppnisréttar sé í sjálfu sér æskilegt að afnema þau miklu afskipti sem nú eru á sviði lyfjadreifingar og koma í stað þess á fyrirkomulagi með frelsi til þess að setja upp apótek hvar sem er og frjálsri verðlagningu. Ríkisstjórnin vill þó ekki leggja slíkt til. Hún er þeirrar skoðunar að stefna í heilbrigðismálum leyfi af ýmsum mikilvægum ástæðum einungis endurnýjun á sviði lyfjadreifingar. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að tryggja að neytendur eigi sæmilega auðvelt með að kaupa lyf, einnig í dreifbýli.`` --- Einnig í dreifbýli. Þeir eru nefnilega að hugsa um hagsmuni heildarinnar þarna úti í Danmörku. Og þó er þetta allt annað sem þeir eru að fást við og meiri ástæða til þess að við hugsum um hagsmuni heildarinnar því dreifbýlið er allt annars eðlis þar heldur en hér. Við erum að tala um miklu meiri fólksfjölda þar en hér. Við ættum þess vegna að hugsa enn frekar um hagsmuni heildarinnar.
    Í tengslum við þetta segir danska ríkisstjórnin:
    ,,Telur stjórnin að það sé í samræmi við stefnu í félagsmálum að halda fast við að neytendaverð á lyfi sé sama alls staðar í landinu eins og reyndar er í öðrum EB-löndum. Með fullu frjálsræðisfyrirkomulagi yrði ekki unnt að taka tillit til þessa.``
    Þetta sögðu þeir eftir að hafa skoðað málið síðan 1989 og lesið allar umsagnirnar sem bárust, lesið þær, kynnt sér þær og farið yfir þær og komist að þessari niðurstöðu.
    Jafnframt segja þeir í sinni skýrslu:
    ,,Sala lausasölulyfja í kjörbúðum og verslunum með almennar vörur yrði trúlega til þess að litið yrði á lausasölulyf sem almenna neysluvöru en ekki sem vörur sérstaks eðlis. Þetta gæti leitt til aukinnar og væntanlega ómarkvissrar neyslu þessara lyfja.``
    Niðurstaðan er, með leyfi forseta: ,,Með núverandi fyrirkomulagi á veitingu einkaleyfa og þeirri skipan að ákveða brúttóhagnað apóteka hefur samfélagið áhrif á það hvernig fjármunum er varið í þessum geira, þar með talda mögleika á að afla geiranum fjármuna til verkefna sem skynsamlegt er af heilbrigðisástæðum að apótekin sjái um og sem ekki er hægt að ætlast til að innt sé af hendi ef fyrirkomulagið er frjálst.``
    Þeir ætla sum sé að leggja fram frv. eða hafa gert í samræmi við þetta. Mér finnst þetta vera mjög mikilvægur punktur, virðulegi forseti, þar sem þeir segja:

    ,,Með núverandi fyrirkomulagi á veitingu einkaleyfa og þeirri skipan að ákveða brúttóhagnað apóteka hefur samfélagið áhrif á það hvernig fjármunum er varið í þessum geira.``
    Það er nefnilega enn þá þannig að að stærstum hluta er það samfélagið, eru það íbúarnir sem greiða lyfin og við eigum þess vegna að segja: Skattgreiðendur okkar eiga að sitja þar við sama borð.
    Ég minnist þess að ýmsir hv. fulltrúar Sjálfstfl. hafa skrifað greinar um þetta á undanförnum tveimur árum og sakna ég þess að sjá þá ekki í þessari umræðu því ég er alveg sannfærð um að þeir hafa heilmikið til málanna að leggja og vil gjarnan heyra miðað við þá umræðu sem átti sér stað í hv. heilbr.- og trn. hvað varð til þess að breyta þeirri aðstöðu. Ég hef farið yfir það hvernig þeir hafa flutt þetta mál og skrifað um það á undanförnum mánuðum og sú niðurstaða sem fékkst í hv. heilbr.- og trn. stríðir töluvert gegn því.
    Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu en vil þó aðeins í lokin ítreka að það er svo margt sem maður vill svo gjarnan ræða við hæstv. heilbr.- og trmrh. þegar hann er í salnum og við erum að ræða þessi mikilvægu mál, eins og allar þær reglugerðir sem settar hafa verið á undanförnum mánuðum og árum sem hafa aukið hlutdeild sjúklinga. Ég vildi gjarnan fara yfir þá sögu en það gefst kannski tækifæri til þess seinna að ræða heilbrigðismál. Þó ekki endilega út frá þessu frv. því ég vona það að niðurstaða þessarar umræðu verði sú að við náum samkomulagi, að við getum afgreitt þetta mál í sátt og gengið sé að þeim sjónarmiðum okkar með nefndarskipun og gildistökuákvæði sem við höfum lagt mjög mikla áherslu á og tekið okkur þann tíma sem þarf til þess að fara yfir frv. og þær breytingar sem koma með EES-samþykktum og við verðum að afgreiða hér eins og þingmenn annarra þjóða sem eiga aðild að EES-samningnum. Við höfum afskaplega lítið um það að segja.
    Ég vil aðeins að lokum ítreka það að mér fannst þar til í gærkvöldi að við værum á réttri braut, þar til ég hlustaði á ræðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar. Það er mjög alvarlegur hlutur í mínum huga að ásaka okkur um það eftir að hafa farið yfir þetta mál á málefnalegan hátt, lagt í þetta mikla vinnu, að niðurstaðan sé sú að við viljum ekki leyfa landsmönnum öllum að kaupa sér ódýrari lyf, þeim sem þurfa á því að halda. Það var niðurstaðan. Ég ítreka það að þetta er með ómerkilegri málflutningi sem ég hef heyrt úr þessum stól núna í langan tíma og ég tel að þar hafi verið vegið að okkur á mjög ósmekklegan hátt eftir að hafa átt gott samstarf í hv. heilbr.- og trn. um málið. Ég hélt að sameiginlegt markmið okkar væri þó að ljúka þessu máli á sem skynsamlegast máta. Við erum með okkar tillögur þar um og vonandi náum við samkomulagi um það að lokum.