Lyfjalög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 12:31:31 (7281)


[12:31]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Hæstv. ráðherra sagðist vera að svara hér spurningum sem ekki hefði borið á góma áður. Yfir öll þessi atriði var farið mjög rækilega um daginn þegar við hófum þessa umræðu. Ég fagna því að ráðherra skuli hugsa sér það þannig að setja um það mjög ákveðnar reglur hvernig á að útfæra sérstaklega 20. gr. og eins með undanþágulausasölulyfin og að stíga varlega til jarðar, hvað sem það nú þýðir, varðandi auglýsingarnar. En mér finnst það alla vega sýna vilja hæstv. ráðherra til þess að huga vel að þessum málum en flana ekki að neinu og það var akkúrat það sem við höfum farið fram á. En það má líka hugsa sér að sú nefnd sem við höfum farið fram á að verði skipuð komi eitthvað inn í þegar farið verður að móta þær reglugerðir og nánari útfærslu á frv., sérstaklega ef hún yrði hugsanlega skipuð fulltrúum allra flokka. Ég vildi gjarnan heyra áður en langt er liðið á þennan dag hvort hæstv. ráðherra gæti fallist á eitthvað slíkt.