Skýrsla um skuldastöðu heimilanna

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:34:24 (7283)


[13:34]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Varðandi þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. þm. þá má ég til með að koma með upplýsingar inn í þessa umræðu. Ég er mjög ánægð með að þessi skýrsla er komin fram og ég held að hún sé mikilvæg fyrir okkur öll að fá til skoðunar á því sem við öll höfum náttúrlega óttast og vitað að meira eða minna leyti. En það er verið að biðja um að setja í skýrslu upplýsingar á einn stað, sem ekki eru alltaf aðgengilegar. Ég vil nefna það, út af þeim orðum sem komu fram hjá þingmanninum, að þetta væri viljandi gert og af einhverjum annarlegum orsökum, að á síðasta kjörtímabili var ég sjálf með beiðni um skýrslu um skattframtöl og það tók marga mánuði að vinna hana. Ég var stjórnarliði en ráðherra reyndar ekki flokksmaður minn. En þetta eru upplýsingar sem mér finnst mikilvægt að komi fram þegar svona ásakanir birtast hjá þingmanni. Þá var sagt að það tæki svo langan tíma að vinna upp þessar upplýsingar í tiltæku samanburðarformi og á þann veg sem beðið var um, þrátt fyrir að maður skyldi ætla að það væri tölvutækt. Og maður verður að gera sér grein fyrir því að sumar skýrslur eru þannig að ef taka á saman allar upplýsingarnar þá tekur það langan tíma. Þessi skýrsla er komin fram og það er mikilvægt að hún hefur náðst fram og mér finnst að það sé ekki maklegt að saka þann ráðherra sem hér á í hlut, sem ber þennan hóp svo mjög fyrir brjósti sem hér er fjallað um, að þar sé einhverju leynt eða þar sé eitthvað tafið.