Skýrsla um skuldastöðu heimilanna

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:36:24 (7284)


[13:36]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram varðandi þessa skýrslu. Hér er afar merkilegt og brýnt mál á ferðinni og hér koma fram mjög athyglisverðar upplýsingar um skuldastöðu heimilanna og það er augljóst mál að við þurfum umræðu um þessa skýrslu. Það er afar sérkennilegt að hún skuli koma fram daginn eftir eldhúsdag þegar við lesum það hér í inngangi að Þjóðhagsstofnun skilar skýrslunni af sér 6. apríl. Fyrir mánuði síðan var skýrslunni skilað í ráðuneyti og það hefur tekið mánuð að koma henni hingað inn í þingið. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Þetta er mjög alvarlegt og brýnt mál og það er ekki viðunandi að vinnubrögð séu með þessum hætti. Við gerum okkur áreiðanlega öll grein fyrir því að það hefur tekið mikinn tíma að vinna þessa skýrslu og vonandi er hér vönduð vinna á ferðinni, en það þarfnast skýringa að það skuli hafa tekið mánuð að koma skýrslunni úr ráðuneytinu og hingað inn á þing.