Skýrsla um skuldastöðu heimilanna

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:43:34 (7287)


[13:43]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég held það sé öllum ljóst sem lesa þessa beiðni um skýrslu og þær spurningar sem hér eru settar fram að hér var um nokkuð viðamikið verkefni að ræða, enda var það svo að ráðuneytinu barst þetta frá Þjóðhagsstofnun 6. apríl. Ég býst við að þingmenn Framsfl., sem bera fram þessa beiðni um skýrslu, hafi ekki ætlast til þess að ráðuneytið yrði bara einhver póstur fyrir Þjóðhagsstofnun, þannig að við hefðum flutt þessa skýrslu eins og hún kom fram bara beint inn í þingið, heldur er hér verið að spyrja um afstöðu félmrn. og greinargerð þess um skuldastöðu heimilanna. Þannig að það var ekki óeðlilegt að ráðuneytið þyrfti líka nokkurn tíma til að fara í gegnum þessa skýrslu og vinna sinn inngang og greinargerð með henni. Og að halda því fram að þetta hafi af ásettu ráði komið fram deginum eftir að eldhúsdagsumræður voru, ég vísa því nú alfarið á bug. Þetta var tilbúið frá ráðuneytinu í síðustu viku en þetta tók þennan tíma að fara í gegnum prentsmiðju. Ég var einmitt að reka á eftir þessu sl. mánudag, en þetta tekur bara þennan tíma. Þannig að ég vísa því alfarið á bug að það hafi átt að halda þeim upplýsingum, sem hér koma fram, leyndum þar til að eldhúsdagsumræður yrðu afstaðnar.