Lyfjalög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 14:11:13 (7296)


[14:11]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hefur þessi umræða tekið allnokkurn tíma og verið farið ítarlega í það frv. og þær breytingartillögur sem fyrir liggja. Hins vegar hafa fulltrúar þingflokka og talsmenn flokkanna í þessari umræðu átt tal saman til þess að freista þess að liðka fyrir gangi þessa máls og afgreiðslu þess og í því ljósi hefur það orðið að samkomulagi að sá er hér stendur, heilbr.- og trmrh., muni skipa nefnd er hafi það hlutverk m.a. að fylgjast með hvaða áhrif EES-samningurinn hafi á lyfjanotkun og lyfjakostnað almennings og hins opinbera hér á landi. Nefndin verður skipuð fulltrúum frá þeim stjórnmálaflokkum sem fulltrúa eiga á Alþingi ásamt fulltrúa heilbrrn. sem verður formaður. Nefndin skal fyrir 1. sept. 1995 skila skýrslu til ráðherra m.a. um ofangreind áhrif.
    Þessu til viðbótar er við það miðað að heilbr.- og trn. geri breytingartillögu á milli 2. og 3. umr. í þá veru að gildistími þeirra ákvæða frv. sem lúta að verðmyndunarkerfi og lyfjadreifingu verði ekki 1. júní heldur 1. nóv. 1995.
    Ég hygg að með þessum breytingum sé talsvert komið til móts við sjónarmið aðila í þessu máli og að í því ljósi geti náðst allgóð sátt um afgreiðslu þessa máls á hinu háa Alþingi.