Lyfjalög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 14:13:03 (7297)


[14:13]
     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessa tilkynningu sem hér kemur fram og er í anda þess sem við höfum verið að ræða. Ég er ekki fullkomlega sátt við þetta en mér finnst þetta vera hænufet í áttina og sýnir þó vilja til að koma á móts við þær kröfur sem við höfum verið með í þessu máli. Okkar ýtrasta krafa var sú að EES-þáttur frv. væri afgreiddur á þessu þingi en því sem eftir stæði varðandi lyfsölu og lyfjadreifingu væri vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari athugunar.
    Ég tel að sú nefnd sem á að skipa sem við erum með tillögu um og vísum til í okkar nál. gæti komið þarna að nokkru gagni. Ég tel þó að tíminn sé of skammur sem hér er boðaður vegna þess að það tekur tíma að sjá hvaða áhrif verða af EES-samningnum og hvaða breytingar þurfi e.t.v. að gera á því frv. sem hér liggur fyrir. Tíminn er því mjög knappur en ég segi aftur: Þetta er í áttina og það ber að þakka að menn séu tilbúnir að koma svolítið á móts við stjórnarandstöðuna í þessu máli.