Lyfjalög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 14:37:55 (7300)


[14:37]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrir mitt leyti staðfesta það að ég fékk það hlutverk þar sem fulltrúi okkar í heilbr.- og trn. er fjarverandi, hv. 4. þm. Suðurl., að taka þátt í umræðum um það hvernig væri hugsanlega best að lenda því máli sem er á dagskrá. Ég skildi lendinguna svo að menn væru út af fyrir sig þeirrar skoðunar að það væri til bóta sem fram hefði komið af hálfu hæstv. ráðherra og væru fyrir sitt leyti reiðubúnir til að greiða fyrir því eins og kostur er að ljúka 2. umr. málsins og ég vil fyrir leyti staðfesta það.
    Varðandi þær hugmyndir sem uppi eru um þetta samkomulag þá tel ég að þær séu

til bóta. Ég tel að það sé sérstaklega bóta að gert er ráð fyrir að það verði kannað sérstaklega og fylgst með því hvaða áhrif þær breytingar sem hér er um að ræða muni hafa á lyfjakostnað hins opinbera og á lyfjaverð í landinu. Það er alveg ljóst að það hefur verið aðaldeilumálið í þessum umræðum hvernig lyfjaverð í landinu mundi þróast. Hv. 5. þm. Austurl. hefur gengið mjög langt fram í því að ráðast að okkur í stjórnarandstöðunni með þessi mál og hefur fullyrt að við höfum í okkar málflutningi verið að ganga erinda þeirra sem síst skyldi, a.m.k. að mati okkar alþýðubandalagsmanna. Það er mjög óvenjulegt að nefndaformenn gangi fram með frýjuorðum af því tagi sem hv. formaður heilbr.- og trn. hefur gert.
    Nú segir í gamalli bók að ber er hver að baki nema sé bróður eigi og á það vel við í þessu tilviki þar sem hæstv. heilbrrh. hefur síðan reynt að gera gott úr hlutunum eins og kostur er og ráðherrum og forustumönnum er skylt að gera þegar dregur að lokum þinghaldsins á hverjum tíma. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hann skuli hafa beitt sér fyrir því að menn færu að tala saman um þessi mál af eins skikkanlegu viti og kostur er.
    Ég tel að það sé aðalatriðið að hættan sé sú sem rakin er í umsögn Alþýðusambands Íslands frá 2. mars 1994 að verð á lyfjum muni fara hækkandi. Ég tel að það sé aðalatriðið og ég tel að enginn hafi sýnt fram á að það sé rangt. Ég tel að hv. 5. þm. Austurl. hafi ekki gert það. Ég tel að hv. 5. þm. Austurl. hafi ekki bent á að sú markaðstenging á þessu ferli sem hér er um að ræða sé að öllu leyti til bóta. Ég tel hins vegar ekkert að því þótt hann hafi þessa skoðun. Ég tel hana ranga og ég tel að það muni koma í ljós að hún er vitlaus vegna þess að samkeppniskostnaðurinn mun auðvitað leita út í verðlagið með einhverjum hætti. Við alþýðubandalagsmenn viljum ekki að það komi niður á dreifbýlinu sérstaklega eins og mundi gerast ef ekki yrðu gerðar sérstakar ráðtafanir í þeim efnum. Þess vegna fagna ég því að það á að fylgjast með því hvort þær yfirlýsingar sem hv. 5. þm. Austurl. hefur verið með standast eða ekki. Hæstv. heilbrrh. hefur tekið undir það með okkur að það sé nauðsynlegt að fara rækilega yfir hvort það er eitthvert vit í því sem hv. formaður heilbr.- og trn. hefur verið að segja. Það er auðvitað ánægjulegt að hæstv. heilbrrh. skuli taka þannig á þeim málum sem fram komu frá hv. 5. þm. Austurl.
    Ég undirstrika það síðan að auðvitað hlýtur meðferð þessa máls að ráðast af því sem þróast næstu daga í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu og ekkert við því að segja. Hér hafa ekki farið fram neinar óeðlilegar umræður um þetta mál. Ég vísa því á bug og ég kann ekki við það satt að segja þegar menn eru bornir út úr þessum sölum þegar verið er að reyna að taka á málum með hliðsjón af heildarhagsmunum á hverjum tíma. Ég kann ekki að meta það þannig að ég vona að sú ofanígjöf sem hæstv. ráðherra hefur veitt hv. þm. og felst í samkomulaginu sem liggur fyrir í drögum verði til þess að þingmaðurinn láti sér að kenningu verða og hagi málflutningi sínum öðruvísi framvegis þegar hann ætlar að reyna að lenda málum í þessari virðulegu stofnun, enda eigi hann fyrir sér langan og farsælan þingferil og veit enginn hvar hann ber niður næst ef illa færi á Austfjörðum, því að eins og kunnugt er hoppar þingmaðurinn á milli landshluta eftir því sem fara gerir og alþjóð veit.