Lyfjaverslun ríkisins

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 14:45:10 (7301)


[14:45]
     Svavar Gestsson :

    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem er í senn einkavæðingarmál og heilbrigðismál. Hæstv. fjmrh. kallar þetta einkavæðingarmál en ég kalla þetta heilbrigðismál. Ég er þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt fyrir ríkið að eiga þetta fyrirtæki, Lyfjaverslun ríkisins.
    Nú var verið að tala um það í síðasta dagskrármáli, hæstv. forseti, að breyta verulega lyfsölukerfinu í landinu og með hliðsjón af því hefði ég talið að það væri kannski sérstök ástæða til þess fyrir heilbrrn. að leggja á það áherslu að ráðuneytið eigi Lyfjaverslun ríkisins og hafi þannig möguleika til þess frá framleiðslu- og heildsöluhliðinni að meta þróun lyfjaverðs í landinu og lyfjamarkaðinn eins og hann er og lyfjaframleiðsluna á hverjum tíma. Staðreyndin er sú hins vegar að hæstv. fjmrh. hefur að sjálfsögðu ekki getað fallist á þessi sjónarmið. Ég segi að sjálfsögðu vegna þess að hann er með þá kreddu eins og kunnugt er að það eigi að selja ríkisfyrirtæki og við umræður um málið síðast fórum við yfir meginforsendur þess. Það voru ein átta atriði sem fram komu í ræðu hæstv. fjmrh. ef ég man rétt sem ég tel ástæðu til að gera sérstaka athugasemd við.
    Í fyrsta lagi sagði hæstv. fjmrh. að það hefði komið fram andstaða við einkavæðingu á samdráttartímum þó svo menn væru kannski hlynntir því á þenslutímum að reyna að draga inn eitthvert fjármagn frá ofþöndum efnahagsmarkaði til ríkisins með hlutabréfasölu á ríkisfyrirtækjum. Ég vil taka það fram fyrir mitt leyti að ég hef ekki gagnrýnt söluna á Lyfjaverslun ríkisins á þessum þröngu efnahagslegu forsendum heldur fyrst og fremst á þeim forsendum að ríkið þurfi að eiga þessa stofnun, Lyfjaverslun ríkisins, sem ég lít svo á að eigi að vera heilbrigðisstofnun, heilbrigðisfyrirtæki. Ég vil taka það fram að afstaða mín til þessa máls ræðst ekki af almennri afstöðu minni til einkavæðingar eða ekki einkavæðingar, enda finnst mér það satt að segja heldur fánýt pólitík að bíta sig fastan í það hvert eignarform fyrirtækja á að vera. Það á fyrst að spyrja að því hvernig fyrirtæki þjóna þeim almennu markmiðum sem þjóðin setur sér, í þessu tilviki í heilbrigðismálum, en það á ekki að spyrja að eignarhaldinu fyrst og fremst. Í þessu tilviki vill svo til að það er heppilegt að ríkið eigi eitt lítið fyrirtæki á sviði lyfjaheildsölu og lyfjaframleiðslu eins og Lyfjaverslun ríkisins.
    Í öðru lagi lagði hæstv. fjmrh. á það áherslu að þær viðræður sem hafa verið í gangi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og SFR um þetta mál væru í góðum farvegi. Ég verð að segja að ég fagna því að svo sé. Það er talsverð breyting frá því sem var á síðasta þingi t.d. þegar við ræddum um þessi mál. Hann lagði engu að síður áherslu á það að ríkið hefði sjálfstæði til sinna ákvarðana í þessu efni. Meiri hluti Alþingis gæti tekið sínar ákvarðanir og þessar viðræður eða þetta samráð gæti ekki stöðvað framkvæmd á stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég get út af fyrir sig skilið þá uppsetningu sem hæstv. ráðherra er með frá hans sjónarmiði sem samningsaðila við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Ég verð hins vegar að segja að ég tel að þetta sé ekki mjög geðug afstaða vegna þess að þarna er verið að segja: Ríkið ræður þessi, ríkið tekur sínar ákvarðanir, ríkið selur þetta fyrirtæki eða hitt, helminginn í þessu, 75% í þessu, 10% í þessu, ríkið ræður, en svo verður haldið áfram að tala saman og réttarstaða starfsmannanna hangir algerlega í lausu lofti. Ég tel satt að segja að þessi meðferð á starfsfólkinu sem það hugarfar lýsir að ríkið geti farið öllu sínu fram hvað sem líður stöðu starfsfólksins sé ákaflega sérkennilegt, að ekki sé fastara að orði kveðið. Ég mótmæli vinnubrögðum af því tagi og hugarfari af því tagi sem birtist í þessum yfirlýsingum hæstv. fjmrh. að fólkið í lýðræðisríki verði að beygja sig undir hvað sem stjórnvöldum á hverjum tíma kann að koma í hug.
    Í þriðja lagi vék hæstv. fjmrh. að spurningunni um það hvort biðlaunarétturinn væri eign í skilningi stjórnarskrárinnar eða ekki og hæstv. fjmrh. vísaði þeim kenningum á bug. Í sjálfu sér eru hans skoðanir og fjmrn. þekktar í þessum efnum til langs tíma. Engu að síður hefur það verið svo að virtir lögfræðingar hafa haldið algjörlega hinu gagnstæða fram. Í rauninni má segja, eins og hæstv. fjmrh., að það sé ekkert annað að gera í þessu máli heldur en að fá úrlausnir dómstóla. En spurningin er þá: Er ekki hægt að semja um þetta mál í eitt skipti fyrir öll þannig að það liggi fyrir hvernig eigi að haga málum þegar fyrirtæki eru einkavædd ef það gerist á annað borð? Þannig að það liggi fyrir hvaða skoðun báðir aðilar hafa á stöðu biðlaunaréttarins, hvort hann er eign eða ekki eign í skilningi stjórnarskrárinnar þar sem ég hallast heldur að því að það verði að líta á hann sem eign eins og hann er til kominn sögulega og í samningslegu samhengi við fjmrn.
    Ég legg þess vegna á það áherslu í þessu tilviki eins og í punkti númer tvö sem ég nefndi að ég tel nauðsynlegt að fjmrn. setji sig í þær stellingar að semja um hlutina en ekki alltaf að fara sínu fram gagnvart þessum aðilum sem eru náttúrlega lifandi fólk, það fólk sem er að vinna í þessum stofnunum. Vandinn með Sjálfstfl. í fjmrn. er sá að það er alltaf litið á ríkið sem hálfgerðan óþurftarrekstur og bagga á þjóðinni og vesen og kostnaður og skattar og eitthvað óvinsælt og leiðinlegt. Það er aldrei viðurkennt að auðvitað þarf það að vera svoleiðis í öllum siðuðum samfélögum að það sé til tiltekin félagsleg þjónusta sem verður að afla til fjármuna með sköttum af einhverju tagi og skattlagningu. Hér er um að ræða margvíslega þætti sem er líka alveg ljóst að svokallaður einkarekstur ræður ekkert við, t.d. að mennta fólk frá upphafi til enda svo að segja til þeirra starfa sem um er að ræða í hverju einkafyrirtæki. Við vorum svo heppin iðnaðarnefndarmenn í þessari virðulegu stofnun að í morgun vorum við boðin í fyrirlestur hjá Iðntæknistofnun. Þar var farið mjög rækilega yfir rekstur fyrirtækja í alþjóðlegu samhengi og ekki síst þýðingu smáfyrirtækja. Þar var bent á nauðsyn þess að til væri ríki og samfélag sem stæði t.d. að rekstri skóla m.a. vegna þess að fyrirtækin, smá eða lítil, hafa ekki peninga, aðstöðu, getu eða fagþekkingu til þess að mennta það fólk sem seinna kemur til starfa hjá þessum fyrirtækjum. Það verður að vera sameiginlegt verkefni ríkisins, samfélagsins, a.m.k. þegar um er að ræða leikskóla, grunnskóla og fyrri hluta framhaldsskóla þó að sérhæfingin geti að einhverju leyti verið inni í fyrirtækjunum.
    Eins er það, hæstv. forseti, að því er varðar heilbrigðismálin og heilbrigðisþjónustuna. Auðvitað verður þessi þjónusta að vera til og hún verður að vera á vegum samfélagsins. Hún getur ekki verið eingöngu á vegum einkaaðila. Enginn einkaaðili í rekstri hér á landi eða annars staðar er svo sterkur að hann geti rekið hina fjölbreytilegustu samfélagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu. Þá er ég ekki bara að tala um heilsugæslu á frumstigi og forvarnastarf heldur er ég líka að tala um sérhæfða heilsugæslu og jafnvel sjúkrahúsþjónustu. Það er ekki þannig að fyrirtæki reki sín eigin elliheimili.
    Mér finnst stundum að hæstv. fjmrh. og Sjálfstfl. sé á því sem kallað er ,,Henry Ford-línan`` í rekstri sem gengur út á það að sama stórfyrirtækið þurfi að eiga allt, alla línuna frá upphafi til enda og það sé ekki nein hugsanleg verkaskipting til eins og við erum að tala fyrir milli ríkisins og sveitarfélaganna annars vegar og svo einkamarkaðarins hins vegar. Allt verður þetta að leikast á.
    Á Íslandi höfum við búið við það undarlega kerfi, þær undarlegu kreddur verð ég að segja, að stærsti flokkur landsins hefur alltaf talið félagslegan rekstur af hinu vonda, eins og það er kallað á slæmri íslensku, og hefur þess vegna hafnað öllu því sem heitir félagslegur rekstur. Það hefur verið litið á það sem vesen og basl og puð að vera með félagslegan rekstur, enda þótt félagslegur rekstur sé undirstaða í mannlegu samfélagi og mannúðlegu samfélagi. Þess vegna segi ég alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég held að það sé nauðsynlegt fyrir Sjálfstfl. að taka sér dálítið tak í þessum málum og gerast nokkurn veginn nútímalegur stjórnmálaflokkur en ekki þetta forneskjutröll sem hann virðist yfirleitt vera þegar kemur að því að tala um samhjálp í þjóðfélaginu.
    Nú er það svo, hæstv. forseti, að það er langt frá því að félagsleg þjónusta sé einhver voðalegur baggi á Íslandi. Það er svo langt frá því. Staðreyndin er sú að félagslegur rekstur ríkis og sveitarfélaga á Íslandi er miklu minni en gerist í öðrum löndum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Í Bandaríkjunum er þetta hlutfall t.d. 49%. Í Evrópulöndunum er þetta á milli 50 og 60% yfirleitt. Hér á landi er þetta miklu lægra en í Bandaríkjunum. En hér er alltaf talað um félagslegan rekstur sem er þó miklu minni á Íslandi en annars staðar sem alveg sérstakt og stórkostlega alvarlegt vandamál. Það er auðvitað langt frá því. Staðreyndin er sú að það þarf að efla hinn félagslega rekstur og styrkja. Auðvitað á að spara og halda vel utan um hlutina. Auðvitað á að einkavæða suma þætti eins og við seldum Gutenberg um árið og þess háttar. En það breytir ekki því að það á ekki

að ganga fram í þessu eins og þetta séu krossferðarriddarar, eins og trúboðsleiðangur. Hér eiga menn að nálgast þetta pragmatískt og af skynsemi eftir því sem hentar hverju sinni og hætta þessum Heimdallarferðalögum alltaf á móti öllum ríkisrekstri. Auðvitað þarf að hafa hóf á honum með vissum hætti. Auðvitað getur ríkisreksturinn gengið allt of langt og það þarf að vera hóflegt líka eins og allir vita. Það þarf að gæta þess að ríkið nái ekki allt of miklu til sín, sölsi ekki allt of mikið undir sig. Það er alveg ljóst. Samfélagið og atvinnulífið verður að hafa sitt frelsi til að þróast og ráðstafa fjármunum og það er beinlínis hættulegt að annað sé uppi. En það má ekki alltaf setja hlutina upp í svart/hvítt eins og á kappræðufundum milli Heimdallar og Æskulýðsfylkingarinnar fyrr á öldinni sem við sóttum báðir, ég og hæstv. fjmrh., en við þyrftum báðir að fara að vaxa upp úr úr því sem komið er ef við ætlum að gera það á annað borð. ( Gripið fram í: Þið eruð nú ungir enn þá.)
    Þess vegna verð ég að segja það að þrátt fyrir ungan aldur einmitt, þá eigum við akkúrat að hafa burði til þess að mæta í endurnýjun lífdaganna á fullorðinsárum með nokkurn þroska en ekki ævinlega með þetta Heimdallarofstæki í farteskinu sem mér finnst dálítið örla á hjá hæstv. fjmrh. þó hann sé að mörgu leyti hinn ágætasti maður og reyndar að flestu leyti.
    Varðandi það sem hann vék að í fjórða lagi í ræðu sinni og ég tel ástæðu til að mótmæla alveg sérstaklega og koma að er spurningin um ríkisreksturinn í þessu samhengi og alveg sérstaklega söluna á SR-mjöli. Við sýndum fram á það fyrir nokkrum dögum að allar athugasemdir Ríkisendurskoðunar að því er varðar SR-mjöl stóðust. Ég efast satt að segja um að Ríkisendurskoðun hafi nokkurn tíma fengið eins málefnalega undirstrikun á Alþingi á sinni afstöðu og niðurstöðu og hún fékk í umræðunum um SR-mjöl. Þetta nefni ég hér, hæstv. forseti, vegna þess að í umræðunum um LR, þ.e. Lyfjaverslun ríkisins, sagði hæstv. fjmrh., með leyfi forseta: ,,Ég hef alvarlegar áhyggjur af því að skýrsla Ríkisendurskoðunar skaði Ríkisendurskoðun stórkostlega.`` Þetta eru stór orð af hæstv. fjmrh. um þessa stofnun. Ég vil taka upp hanskann fyrir hana og ég tel reyndar þakkarvert að þannig var að málum staðið við stjórn þingsins að við frestuðum umræðunni um Lyfjaverslun ríkisins fram yfir það að við ræddum skýrsluna um SR-mjöl vegna þess að það er alveg nauðsynlegt að við áttum okkur á samhengi hlutanna með tilteknum hætti og gerum okkur grein fyrir því að ef svo fer að meiri hluti Alþingis samþykkir að selja helminginn í Lyfjaverslun ríkisins, eins og menn munu vera að tala um, þá má ekkert SR-ævintýri endurtakast.
    Hvað er Lyfjaverslun ríkisins í augum fjmrn.? Hún er eign. Hver á þessa eign? Er það fjmrn.? Er það fjmrh.? Nei. Þessir aðilar sem þar eru eiga þetta með okkur hinum. Lyfjaverslun ríkisins er þjóðareign, er samfélagseign. Eign sem þjóðin trúir hæstv. fjmrh. fyrir um þessar mundir af því að svo vill til að hann er partur af ríkisstjórn sem mynduð var með tiltekinn meiri hluta á Alþingi á bak við sig. Auðvitað getur það breyst hvenær sem er. Þess vegna verð ég að segja það að mér finnst mikilvægt og þakkarvert að umræðan um SR-mjöl skuli hafa farið fram áður en við lukum þessari umræðu og beini því þakklæti bæði til hæstv. forseta og sömuleiðis hæstv. fjmrh.
    Í fimmta lagi gagnrýndi hæstv. fjmrh. hvað það hefði tekið langan tíma að fjalla um þetta mál. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki alveg þá gagnrýni. Rök hans voru þau að nefndarálit hefði verið dagsett 2. mars sl. Hvaða voðalegt mál er það allt í einu þó að það sé þannig að málinu sé ekki að fullu lokið þó að það hafi verið tekið út úr nefnd 2. mars sl.? Það eru engin undur. Staðreyndin er sú að það eru mörg dæmi um það í sögu þingsins að nál. og brtt. hafi beðið mikið lengur. Það eru jafnframt mörg dæmi um það að nál. og brtt. og annað hafi beðið svo lengi að það var bara alls ekki tekið fyrir. Ég minni hæstv. fjmrh. í þessu sambandi á lok síðasta þings þar sem voru óteljandi brtt. út og suður við alls konar mál hér og þar á dagskránni en það endaði með því að hæstv. forsrh. féll í viðjar persónuleikans og sleit þingi alveg þvert á það sem hafði verið talað um á milli manna án þess að þessar brtt. mættu koma til afgreiðslu. Það eru því engin undur þó að svona nefndarálit og niðurstöður liggi dálítinn tíma í þessari virðulegu stofnun.
    Í sjötta lagi sagði hæstv. fjmrh. að það ætti að nota verklagsreglur ríkisins varðandi söluna á þessu fyrirtæki ef um sölu yrði að ræða. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir þá yfirlýsingu úr því að hún kom fram.
    Í sjöunda lagi sagði hæstv. ráðherra einnig að það yrði vandað mjög til ráðgjafar í sambandi við hugsanlega sölu á Lyfjaverslun ríkisins.
    Í áttunda lagi sagði hann að það mundu fleiri en einn aðili verða látnir meta framtíðartekjuvirði fyrirtækisins.
    Í níunda lagi sagði hæstv. ráðherra að það yrði gerður skriflegur samningur ef um söluþjónustu yrði að ræða sem ráðherrann taldi smámál, hvort um þetta yrði gerður skriflegur samningur eða ekki því það mætti líta þannig á að hann hefði verið gerður um leið og þjónustan hefði verið keypt. ( Fjmrh.: Tilboði tekið.) Eða tilboði tekið. Út af fyrir sig er það alveg rétt.
    Mér fannst hins vegar í þessum liðum sem ég hef nefnt hér, þ.e. sjötta, sjöunda, áttunda og níunda lið, koma fram að í raun og veru viðurkennir hæstv. fjmrh. allar aðalathugasemdir Ríkisendurskoðunar í SR-mjöls málinu. Það tel ég út af fyrir sig mjög mikilvægt og ég þakka ráðherranum fyrir það að hann skuli ekki vera að reyna að hrista það neitt af sér og tekur það bara eins og það er.
    Í tíunda lagi kom það fram í ræðu hæstv. fjmrh. að það hefði verið haldinn um þetta mál á síðustu vikum einn fundur með honum og formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og forustu SFR, held ég að ég hafi tekið rétt eftir líka, Og þeir hefðu rætt um það þessir forustumenn BSRB og SFR að fresta málinu til haustsins. Þessu máli hér. Fresta því til haustsins. Og það er auðvitað það sem ætti að gera. Hvaða voðaleg ósköp liggur á því að ljúka við þetta mál og sum önnur mál hérna? Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að málið lítur þannig út að ráðherrarnir hafa enga trú á því að þessi ríkisstjórn muni lifa út þennan mánuð, það þurfi helst að klára öll mál núna fyrir vorið eins og þau leggja sig. Meira að segja eitthvert villidýrafrumvarp sem allt í einu er orðið lífsnauðsyn að klára til að bjarga andlitinu á hæstv. umhvrh. Það er alveg ótrúlegt. Og allt í einu þarf að afgreiða þetta mál, sölu á Lyfjaverslun ríkisins. Til hvers? Hvaða þjóðarnauðsyn liggur við? Er ekki hægt að halda upp á 17. júní kannski nema selja helminginn í Lyfjaverslun ríkisins? Kannski ríkisstjórnin ætli að láta það verða frv. sem verður flutt á Alþingi 17. júní að gengið verði frá sölu á helmingnum í Lyfjaverslun ríkisins. Það gengur ekki svo vel að fá Sjálfstfl. til að hafa skoðun á því hvað á að gerast á þjóðfundinum mikla 17. júní 1994. Kannski það verði LR sem verði auglýst til sölu á pöllunum undir Lögbergi. Það væri svo sem eftir öðru, reisninni hjá þessu liði sem stjórnar, með leyfi forseta, landinu um þessar mundir.
    Af hverju mátti ekki verða við þessum hógværu óskum forustumanna BSRB og SFR? Af hverju mátti ekki hinkra smástund með þetta mál til haustsins? Eru einhverjir menn tilbúnir til að snara út seðlum í sumar, bíða eftir að borga? Það er spurningin. Það eru sumir dálítið ríkir á þessum markaði, ráða honum að meiri hluta til er mér sagt. Ríkið er eins og hver annar kotungur á þessum markaði með lítinn minni hluta. Kannski stóru heildsalarnir og lyfjaframleiðendurnir bíði eftir því að kaupa sig inn í þessa starfsemi og inn í þetta fyrirtæki og þar með að veikja möguleika ríkisins til eftirlits á lyfjamarkaðinum í landinu. Þá er nú til lítils gengið götuna fram eftir veg fyrir hæstv. heilbrrh. að vera búinn að losa um apótekaravaldið ef kverkatakið kemur frá einokunarfyrirtækjum í framleiðslu og heildsölu á lyfjum í landinu. Það hefði kannski verið eðlilegast að þessi dagskrármál, númer eitt og tvö, væru í sama númerinu vegna þess að menn eru að tala um sömu grundvallaratriðin að mörgu leyti.
    Sú valdsmennska gagnvart opinberum starfsmönnum sem kemur fram í því að neita því að ræða við þá og hinkra til haustsins með þetta frv. er alveg ótrúleg. Nú hafði hæstv. fjmrh. reyndar nefnt að það mætti hugsanlega fresta þessu öllu fram í september en svo dró hann það til baka og færði frestunina til 1. júlí. Af hverju mátti þá ekki draga þetta fram til 1. sept. eða jafnvel eitthvað aðeins lengur? Hvaða óskapleg læti eru þetta? Er hann svona viss um að ríkisstjórnin sé svo komin að fótum fram að hún ráði ekkert við þetta? Auðvitað má segja að hæstv. fjmrh. sé viss vorkunn. Þessi stjórn er orðin alveg ótrúlega

fótfúin þó hún sé ekki nema þrevetur. Alveg ótrúlega fótfúin. Það er satt að segja alveg lygilegt hvað stjórnin er máttleysisleg miðað við það að hún hefur aðeins setið í þrjú ár, getur ekki einu sinni komið sér niður á það hvernig hún á að fara að því að kaupa þyrlu. Er búin að velkjast með það og lofa út og suður, þyrla í dag, þyrla á morgun. Var þyrlan kannski keypt í morgun? Það átti að taka það fyrir í ríkisstjórninni í morgun. Þeir rífast um allt þannig að hæstv. fjmrh. er auðvitað vorkunn. Hann vill ná þessu út úr þinginu svo að hann sé laus við rifrildið í þessu máli, endalaust pex um alla hluti.
    Í ellefta lagi nefni ég að hæstv. ráðherra fullyrti það í ræðu sinni að um sölu á þessum helmingshlut hefði ekkert verið rætt við einstaka aðila úti í bæ. Ég vona að það sé satt sem hæstv. ráðherra segir um það. Það væri a.m.k. ofboðslegt ef það hefði verið þannig að menn væru farnir að ræða um þetta. En hitt verð ég að segja að ég óttast það í fullri alvöru að það séu þó nokkrir aðilar úti í þjóðfélaginu farnir að athuga hvaða stöðu þeir hafa til þess að kaupa helminginn í Lyfjaverslun ríkisins. Lyfjaverslun ríkisins er gott og gróið fyrirtæki, nauðsynlegt fyrirtæki fyrir heilbrigðismálin í landinu og satt að segja vona ég að það verði betur staðið að sölunni á þessum helmingi, ef um þá sölu verður að ræða, en gerðist á SR-mjöli á dögunum. Ég vona að menn hafi lært eitthvað af því, en auðvitað vona ég fyrst af öllu að hæstv. fjmrh. láti þessa lokaræðu mína sér að kenningu verða og gleymi þessu frv. og dragi það frá afgreiðslu þingsins.