Flugmálaáætlun 1994--1997

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 15:43:07 (7304)


[15:43]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja það vegna þess að ég skrifa undir nál. með fyrirvara að sá fyrirvari lýtur fyrst og fremst að því að ég tel að það þurfi að hafa svolítið öðruvísi aðdraganda að endurskoðun flugmálaáætlunar en hér hefur verið við hafður. Það ber þó ekki að líta þannig á að ég sé að gagnrýna alvarlega þá tillögu sem hér liggur fyrir því það er ekkert ofsagt hjá hv. formanni nefndarinnar að niðurstaða nefndarmanna hafi verið sú að það hefði verið vel að verki staðið og undirbúningur vandaður og ekkert út á það að setja með neinum hætti. Hins vegar tel ég að fyrr í röð þessara verkefna sem þarf að vinna við flugmálaáætlun þurfi að hafa samband við þingmenn eða vinna dálítið með líkum hætti og gert er í sambandi við endurskoðunina á t.d. vegáætlun þannig að menn viti fyrr hvernig horfir í þessum málum en þeir fái í hendur fullbúið plagg eins og það sem hér er til umfjöllunar.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á frv. eru í raun og veru mjög smávægilegar miðað við heildarumfang tillagnanna og sýna í sjálfu sér, af því að um þær er samstaða, að þarna var þrátt fyrir allt gott undirbúningsstarf unnið. En það er náttúrlega hluti af þessu máli sem hlýtur að vera ástæða til að minna á að það hafa orðið gífurlega miklar breytingar á notkun flugvalla í kringum landið. Yfir það var farið við fyrri umr. þessa máls og það kemur fram í því hvernig ýmsir flugvellir eru meðhöndlaðir í þessari áætlun að þar hefur orðið veruleg minnkun á flugi á undanförnum árum.
    Það sem var kannski helst til umræðu í nefndinni undir lokin voru þær breytingar sem hafa birst í þessum brtt. og reyndar atriði sem ekki hafa orðið að brtt. sem ég vil vekja athygli á. Það var rætt dálítið í nefndinni um t.d. flugvellina á Patreksfirði og Bíldudal og óskað eftir greinargerð um þá velli. Það er mjög stutt á milli þeirra flugvalla og vitanlega vaknaði sú spurning hvort ekki væri rétt að velja annan þeirra flugvalla sem aðalflugvöll fyrir svæðið og leggja áhersluna á að byggja hann upp til framtíðarinnar. Niðurstaðan af því varð sú að hér er ekki lögð til nein breyting á þeirri áætlun sem fyrir liggur. Það er sem sagt tillaga um að þessir flugvellir séu nánast reknir eins og tvær flugbrautir á sama velli. Vitanlega mun það verða dýr rekstur. Ég vil láta það koma fram að

það er mín skoðun að það þurfi að velja annan hvorn flugvöllinn sem framtíðarflugvöll fyrir svæðið. Það virðist allt benda til þess að niðurstaðan af því, ef það yrði gert, yrði að Bíldudalur yrði valinn. En ég held að allur dráttur á því að taka þessa ákvörðun muni verða til þess að í þessa starfsemi verði settir meiri peningar til reksturs og framkvæmda en annars þyrfti að gera. Mér finnst að þarna séu menn að ýta á undan sér ákvörðun sem hefði þurft að taka. Ég tel að það hefði verið rétt að láta það ekki dragast fram yfir þessa áætlun því nú er verið að ráðstafa verulegum fjármunum til þessara tveggja valla.
    Síðan vil ég taka undir það sem hv. formaður nefndarinnar nefndi áðan um Reykjavíkurflugvöll. Það er alveg greinilegt að þar þurfa menn að fara að vinna myndarlega áætlun um uppbyggingu flugvallarins og að öllum líkindum verða menn að finna leiðir til að fjármagna að einhverju leyti sérstaklega sem þar þarf að gera. Það eru mjög háar fjárhæðir sem þarf til að bæta flugvöllinn í Reykjavík og alla aðstöðu í kringum starfsemina þar og það verður ekki dregið lengur. Reykjavík er miðpunktur þessara samgangna og þegar um slíkt er að ræða má það auðvitað ekki drabbast niður eins og raunverulega er og hefur verið að gerast á undanförnum árum, að vinna að þeirri uppbyggingu sem þarf.
    Ég fagna því að tillagan um breytingarnar gagnvart Þórshöfn er komin fram. Það var líka um lítils háttar breytingu gagnvart Vopnafirði að ræða og undir það get ég svo sem vel tekið. Það var svona held ég meira, ef maður má segja, móralskt nauðsynlegt að það kæmi fram einhver tala til flugvallarins á Vopnafirði vegna þess að af einhverjum ástæðum hafði sú flugufregn komist af stað að það stæði hreinlega til að leggja þann völl af af því að ekki var gert ráð fyrir framkvæmdum þar. Það er nú öruggt mál að engar slíkar hugrenningar lágu á bak við það sem í áætluninni var. En hitt kom mjög greinilega fram að sá völlur hafði um tíma verið kannski dálítið á undan öðrum völlum í uppbyggingu vegna þeirrar einangrunar sem þetta byggðarlag þarf við að búa.
    Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa flugmálaáætlun. Við nefndarmenn höfðum gott samstarf um þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir. Ég geri ráð fyrir því að það verði góð samstaða um að afgreiða hana í þinginu.