Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 17:26:35 (7313)


[17:26]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Mér er nokkur vandi á höndum og vil láta það koma fram strax í upphafi framsögu fyrir þessu nefndaráliti að ég flyt hana í stað hv. þm. Jóns Helgasonar sem sæti á í allshn. og hefur samið þetta nál. frá 1. minni hluta allshn. eftir ítarlega umfjöllun um málið af hans hálfu og ég mun því reyna að gera grein fyrir þessu nál. eins og hv. þm. hefur sett það fram og eftir nokkrar umræður sem við höfum átt um málið og málsmeðferð.
    Eins og fram kemur í þessu nefndaráliti þá er í upphafi greint frá því að sú tillaga sem hér liggur nú fyrir um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 1994-- 1997 er gerð samkvæmt breytingu á lögum um Byggðastofnun sem samþykkt var í upphafi árs 1991 í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Sú ríkisstjórn lagði mikla áherslu á að Byggðastofnun fengi þessar nýju áherslur, þ.e. að vinna meira að áætlunar- og þróunarstarfi. Ég tel að það hafi verið mikilvægt verkefni sem stofnuninni var þar fengið og efast ekki um að starfsmenn stofnunarinnar og stjórn hafi tekið það hlutverk sitt hátíðlega og unnið mikið að undirbúningi þeirrar áætlunar sem hér liggur fyrir. Hitt er svo ljóst að það er kveðið á um það í lögum að í tillögunni komi fram stefna ríkisstjórnar í byggðamálum og skuli forsrh. kynna Byggðastofnun þá stefnu þegar undirbúningur tillögunnar hefst og á hvaða atriði lögð skuli áhersla við gerð hennar. Þetta vil ég undirstrika varðandi þá áætlun sem hér liggur fyrir að það hlýtur fyrst og fremst að vera fjallað um stefnu núverandi hæstv. ríkisstjórnar, enda, í samræmi við það sem ég nefndi, sendi hæstv. forsrh. Davíð Oddsson stjórn Byggðastofnunar bréf 28. febr. 1992 þar sem hann kynnir þau almennu markmið sem ríkisstjórnin leggur áherslu á. Ég undirstrika það því að af þeim sökum er ljóst að þessi tillaga er fyrst og fremst stefnumörkun núv. hæstv. ríkisstjórnar.
    Fyrsti minni hluti allshn. telur að nokkuð skorti á bjartsýni og framtíðarsýn í þessari tillögu og vill undirstrika það að byggðir landsins búi við mikil auðæfi sem eigi eftir á næstu árum og ártugum að verða miklu verðmætari en nú er og þjóna miklum tilgangi í því að skapa atvinnu, ekki aðeins fyrir okkur og landsmenn alla heldur að við búum yfir auðæfum sem geta nýst heiminum í miklu meiri mæli en er í dag þó að við sjáum það kannski sem framtíðarsýn.
    Í nefndarálitinu er síðan næsti kafli sem fjallar nokkuð um þær aðstæður í heiminum sem eru óðfluga að breytast. Mannfjölgunin er gífurleg og það þrengir sífellt að íbúum jarðar. Hér eru t.d. taldar upp þær staðreyndir að fyrir 70 árum voru íbúar jarðarinnar 1.800 milljónir en eru núna 5.300 millj. og er ljóst að fjölgunin er gífurleg og því kalli sú staðreynd á endurmat og algera viðhorfsbreytingu og fráhvarf frá hinum þröngsýnu hagfræðikenningum sem mótað hafa stefnu ríkisstjórna víða um heim eins og má segja hér á landi síðustu árin. Það er sem sagt ört vaxandi eftirspurn eftir ómenguðum matvælum, ekki aðeins á sviði sjávarútvegs heldur einnig á sviði landbúnaðar sem styrkir stöðu okkar mjög

og sú ímynd sem nú þarf að skapa landbúnaði og landbúnaðarafurðum sem koma frá Íslandi og einnig úr hafinu hér í kring, þ.e. sjávarafurðunum, að þær séu þær hreinustu og ómenguðustu sem völ sé á, það er áherslubreytingin sem við þurfum að huga að og þurfum þess vegna að byggja okkar stefnu í atvinnumálum til framtíðar horft með þetta ekki síst að leiðarljósi.
    Það er líka ljóst að margar erlendar þjóðir muni girnast slíka fjársjóði og vilja fá að nýta sér þá möguleika sem hér bjóðast. Við þurfum að sjálfsögðu að vera opnir fyrir því að taka á móti þeim aðilum sem vilja með okkur vinna, en við þurfum líka að standa dyggan vörð um þennan þjóðarauð okkar. Ríkisvaldið þarf í verki að sýna skilning sinn á því að við þurfum að nýta gæði landsins hvar þau er að finna og að allir geti haft nóg að starfa við sköpun verðmæta fyrir þjóðarbúið. Hér er að finna margvíslega möguleika með fjölbreyttari nýtingu landsins og úrvinnslu hágæðavöru. Ekki síst vegna þess hve atvinnulífið er orðið aðþrengt vegna hávaxtastefnu ríkisstjórnarinnar síðustu árin er nauðsynlegt að ríkisvaldið hafi frumkvæði að skipulegri úttekt og hefjist þegar í stað handa við að styðja þá sem nýta vilja þessa möguleika. Þrátt fyrir hina lamandi hönd stjórnarstefnunnar sem nú hefur ríkt um sinn eru sem betur fer víða einstaklingar sem eru tilbúnir til að leggja grundvöll að því að nýta möguleikana en koma alls staðar að lokuðum dyrum þegar stíga á fyrstu skrefin. Dæmi um slíka möguleika eru tilraunir til útflutnings á vatni, svo að eitthvað sé nefnt, en auðvitað væri hægt að nefna fjölmörg önnur viðfangsefni.
    Fulltrúi 1. minni hluta nefndarinnar undirstrikar hér í nefndaráliti sínu sérstaklega þennan þátt og gerir grein fyrir því að hann muni flytja sérstaka þáltill. þar sem lagt er til að skipuð verði nefnd til að fjalla um vatnsútflutning. Sú tillaga hefur nú þegar verið lögð fram í hv. Alþingi, þó ekki sé líklegt að hún fái afgreiðslu á þessu þingi. En hér er verið að ræða um einn af þeim miklu möguleikum sem við eigum, litið til framtíðar, á ýmsum sviðum atvinnumála og ekki síst undirstrikað að við eigum að nýta betur en við höfum gert ýmsar þær auðlindir þjóðarinnar sem í dag eru lítt eða ekki nýttar.
    Þá fjallar fulltrúi 1. minni hlutans í nefndaráliti sínu næst um meginmarkmið byggðastefnu og þar er m.a. rætt um það að í upphafi þeirrar tillögu sem við erum hér að fjalla um séu sett fram meginmarkmið byggðastefnunnar í þremur málsgreinum. Fyrsta markmiðið er almennt orðað og án takmarkana og hinum markmiðunum megi frekar velta fyrir sér þar sem segir í öðru lagi að fjallað sé um atvinnulíf og þjónustu. Þar er sett fram það skilyrði fyrir sérstökum stuðningi við atvinnulífið að það geti verið fjölbreytt eða eins og segir orðrétt í tillögunni, með leyfi forseta:
    ,,Svæðin verða að vera nægilega fjölmenn til þess að hægt sé að reka þar fjölbreytta þjónustu og atvinnulíf á hagkvæman hátt.``
    Út af fyrir sig má segja að þetta sé gott markmið og náist það sé hlutverki Byggðastofnunar á þessum svæðum að verulegu leyti lokið og gæti þá stofnunin einbeitt sér að svæðum sem eftir standa, þ.e. jaðarsvæðunum. Atvinnulíf á Íslandi utan stærstu þéttbýlissvæðanna byggist fyrst og fremst á landbúnaði og sjávarútvegi. Margir útgerðarstaðir hafa landrými að baki sér þar sem rekin er landbúnaður, en hjá öðrum er ekki um slíkt að ræða og þar hlýtur atvinnulífið því að verða að teljast fremur einhæft, þar sem segja má að öll önnur starfsemi sé bein eða óbein þjónusta við þennan eina atvinnuveg, þ.e. sjávarútveginn þar sem það á við eða landbúnaðinn þar sem það á við. Það gildir um þau héruð sem liggja langt frá útgerðarstöðum og verða því eingöngu að byggja á landbúnaði og nýtingu jarðanna. Þrátt fyrir það er hægt á þessum stöðum að reka einhæfan atvinnuveg með viðunandi árangri sem er þjóðarbúskapnum mikils virði. Það má skilja það á texta tillögunnar að þessum byggðarlögum verði ekki veittur stuðningur á sama hátt og öðrum og þyrfti það að koma greinilega fram ef svo er ekki.
    Síðan víkur fulltrúi 1. minni hlutans að þriðja meginmarkmiði þessarar tillögu, þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega.`` Síðan spyr hv. þm.: ,,Af hverju á aðeins að ,,draga úr``? Af hverju á ekki að stöðva eða snúa við? Hvað með gæði landsins og aðrar auðlindir?``     Þetta verður að teljast veikt orðað meginmarkmið. Umrætt jafnvægi í byggð

landsins hefur raskast allt of mikið og það lagast ekki aðeins með því að draga úr þeirri röskun heldur þarf að taka verulega til hendinni og gera betur.
    Næsti kafli í þessu nefndaráliti fjallar síðan um áhersluatriði nokkur og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir meginmarkmiðum tillögunnar eru talin upp í fjórum liðum þau atriði sem sérstök áhersla er lögð á til þess að hægt sé að ná þeim á næstu fjórum árum. Í 1. og 4. tölul. er fjallað um atvinnulífið. Í d-lið 1. tölul. er rætt um aðgerðir á jaðarsvæðum og þar nefnt að einkum verði horft til nýtingar náttúruauðlinda og ferðaþjónustu.
    Í riti Byggðastofnunar eru náttúruauðlindir í þessu skyni skilgreindar mjög þröngt, svo sem jarðhiti, og virðist það óeðlilegt þar sem um ýmsa aðra kosti getur verið að ræða, svo sem nýtingu gróðurs, veiðihlunninda og lindarvatns. Meiri hluti allsherjarnefndar hefur tekið tillit til þessarar ábendingar og flutt breytingartillögu, sem 1. minni hluti styður, um að við bætist orðin ,,annarra landgæða``.``
    Hér lýkur orðréttri tilvitnun í þetta nefndarálit, virðulegur forseti, en auðvitað verður að taka undir það sem hér segir, að þetta hefði þurft að skoða betur, vinna betur og setja sér áhersluatriði, setja þau greinilega og skýrt fram hvað átt er við og tína til meira og betur þá möguleika sem við höfum eða fyrir hendi eru.
    Síðan er í næsta kafla nefndarálitsins fjallað um stöðu atvinnulífsins og auðvitað hlýtur það að vera eitt af grundvallaratriðunum að atvinnulífinu séu búin þau skilyrði að fyrirtækin geti skilað arði. Það eru undirstöðuatriði fyrir allri atvinnuþróun í landinu og auðvitað þar með talið byggðaþróun. Þetta er reyndar nefnt eða tilgreint í tillögunni en síðan ekkert nánar fjallað um það, hvorki í ályktuninni sjálfri né í greinargerð, hvernig skuli taka á þessum málum og hvernig skuli bregðast við þeim vanda sem vissulega blasir nú við í atvinnulífi okkar.
    Öllum má vera það ljóst að miklar breytingar hafa orðið síðustu árin í efnahags- og atvinnulífi. Þjóðartekjur hafa dregist saman og atvinnuleysið hefur haldið innreið sína. Þótt ástæður séu margar, t.d. samdráttur í sjávarútvegi eða þorskveiðum, er aðgerðaleysi stjórnvalda mikill örlagavaldur. E.t.v. þarf ekki að taka um það langa eða ítarlega umræðu, virðulegur forseti, hér og nú, það var gert allítarlega í gærkvöldi í svokölluðum eldhúsdagsumræðum hér á hv. Alþingi, þar sem reynt var að benda á og draga fram hversu illa núverandi ríkisstjórn hefur staðið sig hvað þetta varðar og hvernig þróunin hefur orðið. Við stöndum nú frammi fyrir því alvarlega ástandi sem ríkir í atvinnumálum og undarlegt að hlýða á suma hv. fulltrúa stjórnarflokkanna hér á þingi, að þeir virðast nokkuð geta sætt sig við þetta og tala um að nú sé vor. Ekki veit ég hvort þeir eiga eingöngu við það að nú sé vor samkvæmt tímatalinu. Það er okkur auðvitað öllum ljóst, meira að segja hæstv. ráðherrum. En það er því miður ekki það vor í efnahagslífinu og atvinnumálunum sem við hefðum gjarnan viljað sjá samfara árstíðarbreytingunni. Með leyfi forseta langar mig til að lesa úr nál.:
    ,,Núverandi stjórnarflokkar þora því miður ekki að segja við þjóðina, enn síður við atvinnurekendur og allra síst við íbúa þessara staða, að hagræða eigi í sjávarútvegi og byrja á því að leggja niður 15--20 frystihús eða leggja 10--15 togurum, eins og þó virðist vera undirtónninn í stefnunni. Svo er kröfuhöfunum, sem eru að vísu oftast ríkisbankar og sjóðir í eigu ríkisins, kennt um erfiðleika þeirra sem lenda í vandræðum og missa skip sín eða kvóta með alvarlegum afleiðingum fyrir atvinnulífið.
    Eðlilegt er að fela Byggðastofnun að gera úttekt á því hvað það kostaði þjóðfélagið að leggja niður byggð og flytja fólkið á brott frá slíkum stöðum, hversu mikil verðmæti tapast og hvað kostar að byggja fyrir fólkið annars staðar, bæði atvinnustarfsemi og íbúðar- og þjónustuhúsnæði. Það hlýtur að vera gott fyrir alla aðila að vita hvað þeir eru að gera.``
    Hér er vitnað til þess að þróunin er því miður sú, eða blasir a.m.k. við sums staðar, að ef ekkert verður að gert þá kunna heilu byggðarlögin að leggjast í eyði eða leggjast af. Og auðvitað er nauðsynlegt í þessu eins og svo mörgu öðru að skoða heildarmyndina, skoða heildaráhrifin á þjóðfélagið og má þá gjarnan líta til þess hvað það kostar fjárhagslega. En auðvitað er margt, margt fleira sem þarf að líta til í því efni eins og það hvaða áhrif það hefur á einstaklingana sem við búa, hvaða áhrif þetta hefur á þjóðfélagsgerðina, hvaða áhrif þetta hefur á hugsunarháttinn og jafnvel hvaða áhrif slíkt kann að hafa á heilsufar.
    Síðan bendir talsmaður 1. minni hlutans á að það hafi ekki farið fram hjá neinum að meginstefna ríkisstjórnarinnar sé svokölluð innflutningsstefna. Sumir ráðherrar hafi hamrað á því að þjóðin þurfi að græða á því að auka sem mest innflutning ódýrra neysluvara í stað innlendrar framleiðslu og lagt áherslu á að því þurfi að ná fram með erlendum viðskiptasamningum, enda hefur þeim svo sem orðið nokkuð ágengt í því efni. En það eru þveröfug vinnubrögð við það sem flestar ef ekki allar nágrannaþjóðir okkar gera, sem lagt hafa mikla áherslu á að vernda sína innlendu atvinnuvegi.
    Virðulegur forseti. Síðasti kafli þessa nefndarálits hv. þm. Jóns Helgasonar ber síðan yfirskriftina ,,Niðurstöður`` og með leyfi ætla ég að lesa það sem þar stendur:
    ,,Hægt er að taka undir ábendingar gesta sem komu á fund nefndarinnar um að þessi tillaga til þingsályktunar væri beinagrind sem mestallt hold vantaði á. Það hlýtur að vera nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, ekki síst með tilliti til núverandi aðstæðna, hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram, sem og öðrum sem þarf að bæta við. Því hefði verið, að mati undirritaðs, nauðsynlegt að Alþingi hefði fjallað miklu meira um þá hlið málsins og sett fram ábendingar um afdráttarlausar aðgerðir.
    Í tillögunni, eins og hún var lögð fram, var gert ráð fyrir 1.300 millj. kr. framlagi á fjárlögum til Byggðastofnunar á næstu fjórum árum. Þetta var of naumt skammtað og erfitt að sjá að stofnunin gæti framfylgt hlutverki sínu með þeirri fjárveitingu. Nú gerir meiri hluti nefndarinnar tillögu um, samkvæmt fyrirmælum ríkisstjórnar, að lækka þessa tölu niður í 940 millj. kr. Vonlaust er við slíkar aðstæður, verði þessi tillaga samþykkt, að Byggðastofnun ráði við verkefni sín með ekki meira fjármagn í höndum.
    Fyrsti minni hluti telur að í meginmarkmiðum þingsályktunartillögunnar séu settar fram frómar óskir, þó með þeim athugasemdum sem hér hefur verið bent á, og vill því ekki tefja að hún verði afgreidd fyrir þinglok. Hins vegar kallar þessi afgreiðsla á að þegar í stað verði haldið áfram vinnu við nánari útfærslu og aðgerðir svo að vænta megi að eitthvað þokist í átt að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram.
    Eðlilegt hefði verið að leggja fram mótaðar breytingartillögur. Hins vegar kom tillagan til nefndar í lok febrúar eftir að hafa verið í vinnslu í tvö ár. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að meiri hluti hennar vildi engar efnisbreytingar gera á tillögunni umfram það sem fram kemur í breytingartillögum hans og þar af leiðandi ekki leggja neina vinnu í ítarlega athugun á stöðu og horfum í byggðamálum eða nauðsynlegar tillögur til úrbóta. Undirritaður mun því sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.``
    Þetta er síðan undirritað af hv. nefndarmanni í allshn. og fulltrúa 1. minni hlutans, hv. þm. Jóni Helgasyni.
    Virðulegur forseti. Ég hef nú reynt að gera í eins stuttu máli og ég taldi unnt grein fyrir þessu nefndaráliti. Auðvitað mætti ýmsu við þetta bæta og setja fram sitt persónulega álit á því hvernig virðist hafa verið staðið að þessari stefnumótandi byggðaáætlun og hvað má sjá í farvatninu af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ég ætla hins vegar ekki að eyða tímanum nú í það en aðeins segja það að lokum að það áhrifaríkasta og það virkasta væri auðvitað að losna við núverandi ríkisstjórn, sem hefur farið með atvinnulífið eins og raun ber vitni og alþjóð þekkir. Við eigum varla von á því að það verði miklar breytingar til bóta miðað við óbreytt ástand í stjórnmálum þjóðarinnar með ríkisstjórn sem er sjálfri sér sundurþykk og sundurleit og nær ekki saman um hin minnstu mál, hvað þá um að móta atvinnustefnu til framtíðar.