Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 17:49:02 (7316)


[17:49]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í fjarveru nefndarmanns Kvennalistans í allshn., hv. þingkonu Önnu Ólafsdóttur Björnsson, ætla ég að gera grein fyrir nefndaráliti hennar um stefnumótandi byggðaáætlun, sem er 378. mál.
    Allshn. hefur fjallað ítarlega um tillögu til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997 og hefur m.a. fengið á fund sinn fulltrúa hinna ýmsu samtaka sveitarfélaga, stéttarfélaga og fleiri. Fulltrúi Kvennalistans átelur að það sé lítill áhugi fyrir því að víkja frá þeim texta sem lagður var fram í þessari tillögu og því borið við að hann væri niðurstaða úr samkomulagi sem hafi náðst um framlagningu tillögunnar.
    Fulltrúi okkar í allshn. er ekki ánægður með það að hér skuli Alþingi stillt upp á þennan veg og nánast ekki hægt að breyta neinu í textum frv. eða tillagna. Við kvennalistakonur höfum einnig leyft okkur að bera fram brtt. við þetta, enda eigum við ekki aðild að stjórn Byggðastofnunar sem hefur unnið þessa byggðaáætlun samkvæmt tilmælum

hæstv. forsrh.
    Það hafa að vísu verið lagðar fram nokkrar brtt. til að bæta texta tillögunnar og styðjum við að sjálfsögðu tillöguna með þeim brtt. og þær brtt. eru til bóta. Hins vegar hefur ekki verið tekið í það í nál. meiri hluta nefndarinnar að taka inn þær brtt. sem við höfum lagt fram, m.a. á þskj. 673 og 674.
    Ég ætla að gera hér grein fyrir þessum brtt. Brtt. á þskj. 674 fjallar um ráðningu atvinnuráðgjafa fyrir konur í öllum landshlutum. Atvinnuleysi meðal kvenna er mun meira en meðal karla og það hefur sýnt sig að þar sem sérstakir atvinnuráðgjafar hafa verið ráðnir til að sinna málefnum þeirra hefur náðst umtalsverður árangur.
    Nefndinni barst einnig mjög fróðleg greinargerð frá Elsu Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra Snerpu, sem er átaksverkefni í atvinnumálum kvenna á Vestfjörðum, þegar hún kom á fund nefndarinnar. Greinargerðin er birt sem fskj. I með þessu nál.
    Í fskj. II er hægt að sjá tölur um atvinnuleysi og kemur þar glöggt fram hve mikið atvinnuleysi kvenna er víða um land. Það rennir stoðum undir þá skoðun að þörf sé á sérstöku átaki í atvinnumálum kvenna. Ljóst er að það er vilji höfunda þáltill. að tekið verði sérstaklega á atvinnumálum kvenna, samanber a-lið 4. tölul. tillögunnar, en í þeim brtt. sem við höfum lagt fram er bent á nýtilegt ráð í því skyni og samþykkt hennar er því fullkomlega í takt við þá stefnu sem boðuð er í þáltill. Og það vil ég leggja alveg sérstaka áherslu á vegna þess að það er greinilega vilji höfunda að það sé áfram stutt við atvinnumál kvenna og tekið sérstaklega á þeim. Samt vilja þeir ekki, samkvæmt því sem hér kemur fram í nál. meiri hlutans, standa að því að mæla með því að þessi brtt. frá kvennalistakonum sé samþykkt.
    Brtt. á þskj. 673, sem fjallar um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, orðast svo, með leyfi forseta:
    ,,A-liður 3. tölul. orðist svo:
    Tillögur um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga verði lagðar fyrir Alþingi sem fyrst. Tillögur um flutning tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga fylgi verkefnaflutningi. Tillögurnar séu unnar í samráði við samtök sveitarfélaga og fulltrúa þingflokka.``
    Mér hefði fundist það mjög eðlilegt að í 3. tölul. í þessari stefnumótandi byggðaáætlun, þar sem verið er að tala um valddreifingu frá ríki til sveitarfélaga, væri það tekið fram að tillögur um flutning tekjustofna ættu að fylgja verkefnaflutningnum. Það er hins vegar ekki tekið fram. Má vera að mönnum finnist það sjálfsagt, en ég hefði talið að eðlilegra væri og fastara form að hafa það hér á blaði, því verði ekki samhliða þessari tillögu fluttar tillögur um flutning tekjustofna til sveitarfélaganna þá er tómt mál að tala um nokkra sátt um flutning verkefna. Það er ekkert launungarmál að ýmsir forsvarsmenn sveitarfélaga eru mjög uggandi um það að ekki muni verða gengið á fullnægjandi hátt frá flutningi tekjustofna með þeim verkefnum sem fyrirhugað er að sveitarfélögin taki við. Það er því augljóst að í stefnumótandi byggðaáætlun er bæði rétt og skylt að setja þessi sjálfsögðu markmið fram.
    Síðan er brtt. á þskj. 637, sem er í rauninni tvíþætt. Það er bætt við í 2. mgr. orðunum um að það skuli leitast við að tryggja viðgang og að umhverfi sé ekki spillt, þ.e. 2. málsgr. a-liðar.
    Að mati okkar er hér um sjálfsagða viðbót að ræða og í anda vaxandi vitundar fólks um gildi þess að nýting auðlinda lands og sjávar sé í sátt við vistkerfið. Það hefur ekki heldur fengist viðurkenning á því að eðlilegt sé að taka inn þessa viðbót sem við erum meðflutningsmenn að og teldi ég að það hefði einnig verið til bóta að svo hefði verið gert.
    Við styðjum, eins og ég sagði í upphafi, brtt. og nál. þetta, sem samið er af hv. þingkonu Önnu Ólafsdóttur Björnsson, sem lýsir því yfir, sem 2. minni hluti í allshn., að hún styður þáltill. ef samþykktar verða þær breytingar sem hér hafa verið nefndar, en styður einnig brtt. sem meiri hluti nefndarinnar flytur og telur þær vera eðlilegar lagfæringar. Verði þessar brtt. hins vegar ekki samþykktar þá mun 2. minni hluti ekki taka þátt í afgreiðslu þessarar þáltill.
    Til að gera enn nákvæmari grein fyrir því sem við höfum lagt mikla áherslu á,

þingkonur Kvennalistans, um það að ráðinn verði í öllum landshlutum atvinnuráðgjafi fyrir konur, þá ætla ég að gera hér nokkra grein fyrir greinargerð Elsu Guðmundsdóttur, sem er verkefnisstjóri í atvinnumálum kvenna á Vestfjörðum. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Tilgreint er í umræddri þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun að ,,áfram verði stutt við verkefni sem efla framtak kvenna í atvinnumálum``. Þar sem sérstakir atvinnuráðgjafar kvenna hafa starfað hefur þátttaka kvenna í athafnalífinu aukist til muna. Konur hafa ekki leitað sem skyldi til atvinnuráðgjafa sem ekki starfa sérstaklega fyrir konur. Kvartað er yfir því meðal annars að oft séu hugmyndir kvenna taldar of smáar í sniðum til þess að unnt sé að athuga möguleika sem í þeim búa.
    Þegar sérstakur atvinnuráðgjafi kvenna er til staðar þá leita konur til hans með hugmyndir sem þær annars hefðu látið kyrrt liggja. Á þeim sjö mánuðum, sem ég hef starfað, hafa komið til mín meira en þrjátíu fyrirspurnir og af þeim hafa þrjár nú þegar skilað sér út í atvinnulífið í formi starfandi fyrirtækja og fleiri eru í bígerð. Engin þeirra kvenna sem lögðu fyrirspurnir fyrir mig höfðu áður leitað til atvinnuráðgjafa. Greiðasta leiðin til þess að efla framtak kvenna í atvinnumálum er að ráða sérstaka atvinnuráðgjafa fyrir konur í öllum landshlutum.``
    Þetta segir Elsa Guðmundsdóttir í greinargerð sem hún sendi til nefndarinnar þegar verið var að fjalla um þessa tillögu.
    Ég vil enn og aftur leggja á það mikla áherslu að sú brtt. sem við kvennalistakonur höfum hér lagt fram um þetta verði samþykkt þegar atkvæðagreiðsla um þetta mál fer fram.