Reynslusveitarfélög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 20:52:18 (7321)


[20:52]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls höfðum við fulltrúar Framsfl. orð á því að málið væri orðið allbreytt frá því að till. til þál. um heimild til stofnunar reynslusveitarfélaga var lögð fyrir Alþingi sl. vor og náðist um hana víðtæk pólitísk samstaða. Eigi að síður skrifum við upp á álit meiri hluta félmn. með fyrirvara og höfum ákveðið að leggjast ekki gegn þessu frv. Ég mun nú gera grein fyrir ástæðum þess af hverju slík ákvörðun var tekin og fara um það örfáum orðum.
    Eins og ég gat um áðan var lögð fram till. til þál. í fyrravor um að stofnuð skyldu allt að fimm reynslusveitarfélög sem störfuðu frá 1. jan. 1995 til 31. des. 1998 á grundvelli hugmynda sem fram koma í skýrslu sveitarfélaganefndar og félmrh. skipi fjögurra manna verkefnisstjórn sem hafi yfirumsjón með framkvæmd þessa tilraunaverkefnis. Það var gert ráð fyrir því í þessum tillögum að samningar um reynslusveitarfélög yrðu lagðir fyrir Alþingi til samþykktar þegar þeir væru frágengnir. Gagnrýni okkar á þetta frv. hefur m.a. falist í því að í frv. væri um mjög opnar heimildir til ráðherra að ræða og um óæskilegt framsal valds, ef svo má að orði komast, að ræða.
    Einnig hefur sveitarfélögunum verið fjölgað upp í tólf samkvæmt þessu frv. og í gögnum þeim sem félmn. barst er skrá um þau 15 reynslusveitarfélög sem valin hafa verið til að taka þátt í undirbúningi þessa verkefnis. Það á því eftir að kasta þremur sveitarfélögum úr þeim hópi. Það hefði verið æskilegt að það lægi fyrir áður en málinu lýkur á Alþingi hvaða sveitarfélög það verða endanlega sem skipa þennan tólf manna flokk sveitarfélaga sem tekur þátt í verkefninu. En það er einn megingalli frv. hvað hér er um opnar heimildir að ræða.
    Hins vegar hefur það komið fram í umsögnum um þetta mál að sveitarfélögin eru mjög jákvæð gagnvart þeirri hugmynd að taka upp reynslusveitarfélög og umsagnir sveitarfélaganna eru yfirleitt jákvæðar. Sveitarstjórnarmenn hafa áhuga fyrir þessari tilraun og hafa lagt nokkra áherslu á það að þetta frv. nái fram að ganga. Það eru auðvitað ástæður fyrir því sem ég vil minnast á. Í sameiningarkosningunum sem voru í haust höfðu ýmis sveitarfélög fengið vilyrði, ef svo má segja, um að þau mundu fylla þennan hóp ef um sameiningu yrði að ræða. Sveitarfélög sem sameinuðust mundu ganga fyrir. Það er áhugi hjá sveitarfélögunum, sérstaklega þeim stærri, til að glíma við verkefni sem ríkið hefur haft með höndum til þessa og sá áhugi hefur komið greinilega fram í þeirri vinnu sem nefndin hefur innt af hendi.
    Hins vegar er það mjög miður að það skyldi ekki vera hægt að halda þeirri samstöðu um málið sem skapaðist sl. vor og halda áfram í þeim anda sem þá var. Þó að ég skrifi upp á þetta álit og geri það með fyrirvara reyndar þá vil ég fara með nokkur varnaðarorð í þessu sambandi.
    Það er náttúrlega alveg nauðsynlegt að hér sé ekki um of mörg tilraunaverkefni að ræða. Það er nauðsynlegt vegna þess að það veldur óvissu hjá fólkinu í sveitarfélögunum, ruglingi í stjórnsýslunni, ef hér verður um allt of flókið kerfi að ræða. Ég vil því að við þessa umræðu komi fram það álit okkar að það eigi að stilla þessum verkefnum í hóf og gera þessa samninga eins einfalda og unnt er miðað við þann mikla fjölda sem er kominn inn í þetta verkefni. Það verður auðvitað aldrei hægt að gera þetta verkefni mjög einfalt, einmitt vegna þess að inn í það eru komin svo fjöldamörg sveitarfélög og mörg af stærstu sveitarfélögum landsins. Hér er um mjög flókið verkefni að ræða. Það er ein af ástæðunum fyrir því að forsvarsmenn sveitarfélaganna leggja áherslu á að þessar lagaheimildir fáist að þeir sjá að það er um mikið verkefni að ræða og þessir samningar hljóta að taka alllangan tíma. Þess vegna er lögð áhersla á það af þeirra hálfu að geta hafið þessa samninga.
    Við fulltrúar Framsfl. í nefndinni höfum gert tilraunir í félmn. og flutt þar skoðanir okkar um að laga þetta mál. Við hluta af tillögum okkar hefur verið orðið og fluttar brtt. sem eru á þskj. 1118. Þær brtt. eru þess efnis að félmrh. skuli hlutast um að árlega verði lagðar fram á Alþingi skýrslur verkefnisstjórna um framkvæmd verkefnisins og sú fyrsta verði lögð fram á næsta vori eða vorið 1995.
    Ég tel að þetta ákvæði sé til bóta. Þetta tengir þingið verkefninu og tryggir það þó að framkvæmdin kemur til umræðu á Alþingi. Það veitir þó visst aðhald í þessum efnum og kemur á móts við þá gagnrýni að hér sé um opnar heimildir að ræða þó það komi vissulega ekki til móts við hana að fullu. Það er mér alveg ljóst en ég tel þó að þetta atriði sé til bóta.
    Einnig kemur fram í nál. meiri hlutans sú skoðun að þær reglugerðir sem þarf að gefa út í tilefni þessara samninga verði lagðar fyrir viðkomandi fagnefndir þingsins til kynningar. Ég tel að með þessum hætti sé þingið einnig tengt þessu máli en ég tel alveg óviðunandi að ráðherra fái slíkar heimildir sem hér er um að ræða án þess að þurfa að gera þinginu nokkra grein fyrir málinu. Það er þó strax í áttina að þessi kvöð skuli vera.
    Það kom einnig fram í félmn. gagnrýni frá starfsmönnum heilbrigðisstofnana sem okkur fannst réttmæt um að óheimilt væri að víkja frá ákvæðum laga er varða skilyrði um faglega ábyrgð í stjórnum þeirra og innihald þeirrar þjónustu sem á að veita samkvæmt nefndum lögum. Okkur fannst rétt að taka af allan vafa um þetta og ég tel að þessi þáttur tillögunnar sé til bóta.
    Það er kannski ekki góðs viti en hins vegar var kallað í fulltrúa Skipulags ríkisins til nefndarinnar og í viðtali við hann komu fram slíkir annmarkar á 17. gr. að það var ákveðið að fella hana brott og þær heimildir sem þar um ræðir.
    Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að málið er alls ekki eins gott og vera skyldi og æskilegt hefði verið að meiri tími hefði unnist til að ganga frá því. En hins vegar er hér um heimildir til samninga að ræða sem ég legg mikla áherslu á að ráðherra fari varlega með og reyni að hafa þá samninga eins einfalda og skilvirka og kostur er og nokkurt samræmi á milli sveitarfélaga í þeim verkefnum sem flutt eru yfir til þeirra. Ég legg á það mikla áherslu og okkar fyrirvarar eru í því fólgnir.
    Þá má spyrja í ljósi þeirrar gagnrýni sem við höfum haft á frv. hvers vegna við leggjumst ekki gegn því. Það er vegna þess að sveitarfélögunum í landinu hafa verið gefin fyrirheit um að ráðast í þessa tilraun. Það er vegna þess að þau hafa áhuga á því að gera það. Þau hafa áhuga á því að taka að sér ný verkefni og ég segi fyrir mig að ég vil ekki koma í bakið á sveitarstjórnarmönnum með því að þetta mál fari ekki í gegn á vorþingi. En það leggur skyldur á verkefnisstjórnina og hæstv. félmrh. að flana ekki að neinu í þessum efnum, vanda þessa samningagerð eins og kostur er og ég legg ríka áherslu á að það á ekki að mismuna sveitarfélögunum í þessu efni. Þau sveitarfélög sem hafa fellt sameininguna og ekki kosið að halda þá leið nú að sinni eiga ekki að gjalda þess. Minn skilningur er sá að hér sé um tilraun til verkefnaflutnings að ræða og það eigi að taka yfir þau verkefni með þeim kostnaði sem því fylgir. Því aðeins er tilraunin marktæk. Það á ekki að mismuna sveitarfélögum eða bera á þau fjármagn umfram það sem það kostar að sinna þeim verkefnum sem eru tekin yfir. Það er minn skilningur í þessu máli og ég vil að hann komi hér skýrt fram. Ég vona að það sé skilningur annarra.
    Rök mín fyrir því að skrifa upp á nál. með fyrirvara og greiða fyrir framgangi þessa máls eru þau að þessir samningar geti farið af stað og hægt sé að fara að undirbúa þetta viðamikla verkefni því það veitir satt að segja ekki af tímanum til þess. Það er alveg nauðsynlegt að þetta verkefni sé eins vandað og kostur er og ekki sé flanað að einu og jafnframt að reglugerðir sem gefnar eru út í þessu sambandi séu vel kynntar fyrir fólkinu sem sveitarfélögin veita þjónustu, fólkinu í sveitarfélögunum. Það skiptir afar miklu máli að svo sé. Ég vil vara við því að færast of mikið í fang, taka fangið fullt af mismunandi verkefnum og ætla sér að gleypa allan þennan bita í einu. Það eru mín varnaðarorð í þessu sambandi.
    Hér eru t.d. engar heimildir til samgrh. í þessu sambandi en mér er kunnugt um það að mörg sveitarfélög horfa til samgöngubóta varðandi þessa tilraun. Það fylgir engin breyting á uppsetningu vegamála þessu máli. ( SJS: Er þetta vegáætlun?) Þetta er ekki vegáætlun. Þetta er frv. til laga um reynslusveitarfélög, hv. þm. Eins og ég sagði þá fylgir engin breyting á uppsetningu vegamála þessu máli en mér er kunnugt um það að sveitarstjórnarmenn hafa haft væntingar í þeim efnum. En sannleikurinn er sá að í kringum þetta mál eru miklar væntingar hjá sveitarstjórnarmönnum. Það má vel vera að leiðin verði ekki eins ljúf þegar þessir samningar verða upp teknir, það má vel vera að afstaðan breytist þegar sest verður yfir þetta mál en eigi að síður finnst mér nauðsynlegt að hrinda þessu verkefni af stað. Ég er samþykkur anda þess þó ég hefði vissulega meiri trú á því ef það hefði verið minna í sniðum. Þess vegna set ég fram þessi varnaðarorð um framkvæmdina og vil leggja á þau mikla áherslu.
    Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta mál að sinni.