Reynslusveitarfélög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 21:29:19 (7324)


[21:29]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. félmn. fyrir umfjöllun og afgreiðslu á þessu máli og þær umræður sem hér hafa orðið. Ég held að það sé alveg ljóst að sveitarfélögin í landinu sýna þessu máli mikinn áhuga og ég tel að þetta sé mjög mikilvægur þáttur í því að efla sveitarstjórnarstigið og sjálfsforræði sveitarfélaga. Ég geri mér það vissulega ljóst eins og hér hefur kannski komið fram að þetta er vandasamt verk og vel þarf að því að standa ef vel á að takast. Hér er um að ræða að gera tilraunir um verulegar breytingar, bæði á verkefnum og fleiri þáttum varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga sem geta lagt grunninn að mikilvægum verkefnaflutningum til sveitarfélaganna í framtíðinni. Og þetta er vissulega eins og hv. síðasti ræðumaður sagði mjög spennandi verkefni að takast á við og það er mikilvægt að það verði gott samráð og samvinna milli ríkis og sveitarfélaga um þetta verkefni.
    Ég vil fara nokkrum orðum um nokkra þætti sem koma fram í þessari umræðu og fyrirspurnum sem til mín var beint. Við fórum gegnum ýmislegt af því í 1. umr. þessa máls sem fram kemur aftur í þessari umræðu, m.a. það sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf. að hann taldi að það væri ekki staðið hér að verki varðandi þetta frv. eins og lagt var upp með í þeirri þáltill. sem var samþykkt á Alþingi á sl. ári. Hann taldi sig ekki hafa fengið neina skýringu á því en sú skýring kom fram þegar við 1. umr. þessa máls.
    Í þáltill. var gert ráð fyrir því að lög um reynslusveitarfélög yrðu sett á árinu 1994 þegar drög að samningi milli ríkis og reynslusveitarfélaga liggja fyrir. Þá var einnig gert ráð fyrir því í þessari sömu tillögu að um yrði að ræða fimm sveitarfélög sem yrðu reynslusveitarfélög og það var ljóst að þegar verkefnastjórnin fór að fjalla um þetta mál og umsóknir frá sveitarfélögunum tóku að berast að miklu meiri áhugi var fyrir þessu máli en menn höfðu kannski gert sér grein fyrir. Þetta voru 38 sveitarfélög að mig minnir sem sóttu um það að verða reynslusveitarfélög en einungis var heimild fyrir fimm. Þar af voru að mig minnir um átta sem voru í sameiningarátaki og í þessari þáltill. var gert ráð fyrir því að þau hefðu að öðru jöfnu forgang. Því var verkefnastjórninni nokkur vandi á höndum og hún lagði það eindregið til að reynslusveitarfélögum yrði fjölgað úr fimm í tólf og það er skýringin á því að ekki var hægt að velja sveitarfélögin endanlega og því ekki að ganga til samninga við sveitarfélögin fyrr en Alþingi hafði fjallað um það og samþykkt að fjölga sveitarfélögunum. Þetta er meginskýringin á því.

    Nokkur orð um verkefni sem hér voru sérstaklega til umfjöllunar af hv. þm. 5. þm. Vestf. og snerta bæði ákvæði í þessu frv. um að víkja frá ákvæðum laga um málefni fatlaðra og Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er rétt hjá hv. þm. varðandi málefni fatlaðra að í 13. gr. laga um málefni fatlaðra er heimild til þess að gera samninga milli ríkis og sveitarfélaga um að sveitarfélögin annist þjónustu við fatlaða. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að svæðisráð eigi frumkvæði að því að unnið sé að gerð slíkra samninga en í þessu frv. sem við erum hér að fjalla um þarf frumkvæðið ekki að koma frá svæðisráðum þó að samráð sé haft við svæðisráðin um slíkar breytingar og flutninga.
    Hv. þm. spurði hvort gerðir hefðu verið einhverjir þjónustusamningar eða samningar við sveitarfélög á grundvelli þessa ákvæðis í lögum um málefni fatlaðra. Því er til að svara að það hefur ekki verið gert, en engu að síður hafa sveitarfélögin sýnt á því nokkurn áhuga að gera slíka samninga. Meginskýringin á því að slíkir samningar hafa ekki verið gerðir er sú að það hefur verið nokkur biðstaða í þessu máli, m.a. vegna sameiningarátaksins og þá hvort sveitarfélög mundu sameinast og líka vegna tillagna um reynslusveitarfélög. Ég hygg að þetta verði kannski það ákvæði varðandi fatlaða sem mikið mun koma til kasta verkefnastjórnar og mikið mun verða óskað eftir af sveitarfélögunum sem verða tilraunasveitarfélög.
    Hv. þm. spurði um það ákvæði sem er í þessu frv. varðandi málefni fatlaðra þar sem sagt er, með leyfi forseta, í 11. gr.:
    ,,Félagsmálaráðherra er heimilt, að höfðu samráði við viðkomandi svæðisráð, að fela sveitarfélagi að annast þjónustu við fatlaða í sveitarfélaginu, að hluta til eða öllu leyti, gegn umsamdri greiðslu á kostnaði úr ríkissjóði . . .  ``
    Hv. þm. spurði hvað þetta þýddi. Hv. þm. átti sæti þeirri nefnd sem fjallaði um sameiningarmál sveitarfélaga og reynslusveitarfélög og þar var einmitt fjallað um þetta mál þannig að ég geri frekar ráð fyrir að hv. þm. hafi hugmyndir um hvað hér er verið að fjalla um. Hér er m.a. verið að fjalla um að það sé hægt að gera rammafyrirkomulag eða tilraun með nýtt fjármögnunarform og það mundi þá fela í sér ef við tökum málefni fatlaðra sem dæmi að það væri ekki ríkisvaldið eða í þessu tilfelli t.d. stjórnarnefnd málefna fatlaðra sem úthlutaði til viðkomandi sveitarfélaga og það væri hún sem mundi ákveða hvort veitt yrði fjármagn í sambýli, liðveislu eða dagvistun. Það yrði væntanlega fjárframlag sett til viðkomandi reynslusveitarfélags og það reynslusveitarfélag mundi þá ákveða það sjálft hvernig það skipti því innbyrðis inn í þessum málaflokki.
    Varðandi húsnæðismálin, hv. þm. taldi að það væri fátt sem þar gæti komið til kasta reynslusveitarfélaganna. Ég hygg þó að það séu nokkur atriði og þau eru nefnd í greinargerð þessa frv. Það er í fyrsta lagi að gera breytingar á eftirlitsskyldum Húsnæðisstofnunar gagnvart sveitarfélögum. Hér gætum við verið að tala um eins og ég held að hv. þm. að hafi nefnt sjálfur að sveitarfélagið hefði þá sjálft eftirlit með því að fólk væri innan tilskilinna tekjumarka, þ.e. að meta greiðslugetu fólks, og það væri líka um það að ræða að því kostnaðareftirliti sem t.d. er á uppgjöri með félagslegum íbúðum, eftirliti með framkvæmdalánum og slíkir eftirlitsþættir yrði aflétt kvöðum á þeirri eftirlitsskyldu sem Húsnæðisstofnun hefur gagnvart þessum reynslusveitarfélögum.
    Hv. þm. nefndi líka ákvæði 2. gr. og taldi að í því ákvæði fælist ákveðin mótsögn. Hann nefndi sem dæmi að í frumvarpstextanum kemur fram að ráðherrum er ekki heimilt að víkja frá lögum nema tryggt sé að það hafi ekki í för með sér skerðingu á þeim rétti til þjónustu eins og þar kemur fram. Ég tel þetta mjög mikilvægt ákvæði að ekki sé hægt að víkja frá þeim rétti til þjónustu sem fólk hefur samkvæmt lögum. En hv. þm. taldi aftur á móti að með þessu væri hugsanlega hægt að skerða þjónustuna ef ég skildi hv. þm. rétt. Ég tel að þetta sé rangt hjá hv. þm. að nokkrum detti það í hug að með því að flytja þessi verkefni yfir til sveitarfélaganna þá sé einhver hætta á því að það sé verið að skerða þjónustuna. Tilgangurinn er einmitt þvert á móti að auka þjónustuna við íbúana með því að færa þessi verkefni yfir til sveitarfélaganna. Það kemur fram í greinargerð með frv. eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Af 2. mgr. leiðir m.a. að tilraunir mega ekki koma niður á gæðum þjónustu við

íbúana, þannig væri ekki heimilt að slaka á lögbundnum kröfum um að fagfólk veiti ákveðna þjónustu.``
    Tilgangurinn er þvert á móti að auka þjónustuna og ég tel ekki að það geti verið hætta á því þegar sveitarfélögin yfirtaka þessi verkefni að verið sé að skerða þjónustuna, þvert á móti. Það vil ég ítreka.
    Virðulegi forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa hér fleiri orð. Vegamálin voru nefnd hér nokkuð af tveim hv. þm. Það er rétt að í þessu frv. er ekki kveðið á um neinar heimildir til samgrh. að víkja frá ákvæðum laga og skýringin á því er eins og hér var nefnt frv. til nýrra vegalaga en þar er gert ráð fyrir víðtækum heimildum vegamálastjóra til að gera samninga við einstaklinga, fyrirtæki, sveitarstjórnir, stofnanir eða samtök þessara aðila um veghald. Það varð niðurstaðan í samræðum verkefnisstjórnar við samgrn. að ekki væri ástæða til þess að hafa heimildir í þessum lögum.
    Varðandi það sem hér hefur verið haldið fram að ég hafi gefið loforð í vegamálum í tengslum við sameiningu sveitarfélaga sem ekki hafi verið meiningin að standa við þá vil ég mótmæla því. Það sem ég hef haldið fram í þessu efni er sú samþykkt sem var gerð í ríkisstjórninni þar sem kom fram ef ég man það orð rétt að í samgöngumálum og við forgangsröðun framkvæmda í vegamálum yrði tekið tillit til sameiningar sveitarfélaga. Ég held að við það aukna fjármagn sem var veitt til vegamála nú á síðasta ári hafi að nokkru leyti verið höfð hliðsjón af sameiningarmálum sveitarfélaga. Ég minni á það sem ég hef sagt hér á þingi áður og kom reyndar fram í máli samgrh. á þingi við fyrirspurn um þetta efni að hann teldi að í ljósi sameiningar sveitarfélaga yrði höfð hliðsjón af sameiningarmálunum við endurskoðun vegáætlunar.
    Varðandi útsvarsprósentuna sem hv. 2. þm. Vesturl. nefndi, þá nefndi hún það líka við 1. umr. málsins hvort það væri heimild til þess hjá þessum reynslusveitarfélögum að hafa frelsi varðandi útsvarsprósentuna, þá tel ég það alls ekki útilokað þótt erfitt sé að sjá það fyrir að það sé hægt varðandi hámarkið á útsvarinu, en ég tel alls ekki útilokað að það sé skoðað í samningum við sveitarfélögin ef einhver sveitarfélög hafa áhuga á slíku að skoða það mál.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka það sem ég sagði að ég tel að hér sé á ferðinni mjög mikilvæg lagasetning sem mun styrkja sveitarstjórnarstigið og ítreka þakklæti mitt til nefndarinnar við meðferð og afgreiðslu á þessu máli.