Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 22:29:29 (7338)


[22:29]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Það er mér þungbært að þurfa að standa í þessum stól og lýsa yfir andstöðu minni við þetta mál. Ég hefði gjarnan getað hugsað mér þetta komast í framkvæmd í tilteknu formi sem málið er því miður ekki í.
    Þetta mál hefur verið lengi til umræðu og sérstakt áhugamál hæstv. félmrh. og má að sjálfsögðu virða hana fyrir þann dugnað sem hún sýnir í því að reyna að koma máli sínu áfram. Húsaleigubætur eru í eðli sínu stuðningur við tekjulágt fólk og hluti af tekjujöfnunarkerfi. Húsaleigubæturnar hafa sem slíkar kosti og galla. Þær létta að sjálfsögðu undir með þeim sem eru tekjulágir, en vegna þess að bæturnar skerðast með auknum tekjum þá hafa þær svokölluð jaðaráhrif þannig að þær gera fólki erfiðara fyrir í rauninni að komast úr fátækt og afla sér meiri tekna vegna þess að hvatning til þess minnkar þegar ráðstöfunartekjur aukast kannski ekki nema að litlu leyti við það að fólk aflar sér aukinna tekna. En allt þetta er ekkert sérstakt fyrir húsaleigubætur umfram margt annað sem gert er í tekjujöfnunarskyni eins og t.d. barnabætur og tekjutrygging í ellilífeyriskerfinu og því um líkt. Þannig að þótt við viðurkennum vissulega þessi jaðaráhrif og gerum okkur grein fyrir því að þau geta verið skaðleg í ýmsum tilvikum þá hefur það ekki komið í veg fyrir að við höfum tekið upp ýmsar tekjutengdar bætur og þess vegna er í sjálfu sér ekkert nýtt hvað þetta snertir og það ekki endilega rök fyrir því að hætta við að taka upp húsaleigubætur af þessum toga.
    Almennt má segja að þegar húsaleigubætur eru teknar upp þá eykur það greiðslugetu leigjenda. Það leiðir til hækkaðrar leigu, það eykur líka framboð á leiguhúsnæði og leiðir til þess að fleiri vilja leigja og að allur húsnæðismarkaðurinn færist aðeins til og verður þá meira um að fólk leigi heldur en að það búi í eigin húsnæði. En þrátt fyrir þessi áhrif þá er ekki þar með sagt að menn vilji ekki taka upp húsaleigubætur.
    Eitt af sérkennum íslensks húsaleigumarkaðar er að þeir sem eiga leiguíbúðir eru yfirleitt einstaklingar og svo opinberir aðilar. Það er mjög lítið um það að á Íslandi séu til fyrirtæki sem eiga og reka leiguíbúðir í neinum mæli, nema þá kannski helst í einangruðum tilvikum fyrir starfsfólk. Að öðru leyti er hinn almenni leigumarkaður fyrst og fremst þannig að það eru einstaklingar sem eiga leiguíbúðirnar.
    Annað sem einkennir íslenskan leigumarkað er það að leiga er yfirleitt ekki gefin upp til skatts. Þetta er staðfest af Þjóðhagsstofnun og skattyfirvöldum. Leigumarkaðurinn í heild er metinn fjórir milljarðar króna, þar af er talið að það séu gefnar upp 700--800 millj. kr, en það er fyrst og fremst af fólki sem ekki hefur aðrar tekjur, eða mjög litlar aðrar tekjur, þannig að skattgreiðslur af leigutekjum til ríkissjóðs eru hverfandi.
    Nú má spyrja sig að því: Af hverju á að taka þetta að einhverju leyti inn í myndina þegar verið er að fjalla um húsaleigubætur? Á nokkuð að vera að hugsa um skattsvikara? Á ekki bara að yppa öxlum og láta það engu skipta um allt málið? Ég er ekki sammála því, án þess að ég sé á nokkurn hátt að bera í bætifláka fyrir skattsvik. Málið er einfaldlega það að ef aðstæður breytast og allar þessar leigutekjur væru nú gefnar upp til skatts þá hefur það áhrif í framhaldinu --- það hefur áhrif í framhaldinu. Það hefur þau áhrif að þeir sem eru að leigja út fá þá minna í vasann og útleigan verður ekki eins ábatasöm. Sem dæmi þá er auðvelt að taka tiltölulega litla íbúð þar sem leigutekjur eru kannski í heild tæpar 500 þús. kr. á ári. Þar eru eignaskattur og fasteignagjöld og lítið viðhald kannski um 100 þús. kr., síðan ef vaxtagjöld eru 200 þús. kr. á ári þá hefur viðkomandi kannski 200 þús. kr. nettó upp úr krafsinu. Ef skatturinn er lagður á þá leggst hann á áður en vaxtagjöldin eru dregin frá þannig að eftir standa kannski innan við 50 þús. kr. þegar búið er að leggja skattinn á. Þannig má segja að markaðurinn hafi þróast hér í þá átt að leigutekjur hafa almennt ekki verið gefnar upp eins og allar opinberar upplýsingar gefa til kynna. Það hlýtur því að mega draga þá ályktun að ef húsaleigubæturnar eru settar fram í þessu formi sem hér er um að ræða þá hækki leigan. Hún hækkar kannski ekki alveg strax vegna þess að fólk er bundið af þeim samningum sem í gildi eru, en við endurnýjun samninga mundi leiga að sjálfsögðu hækka.
    Eitt einkenni íslensks leigumarkaðar sem má taka fram til viðbótar er að það er mjög algengt að fólk úti á landsbyggðinni eigi aðra íbúð hér í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu. Oft er þetta fólk sem kemur sér upp þessum íbúðum til að leyfa börnum sínum að dvelja í þeim þegar þau eru í skóla og þetta eru íbúðir sem eru leigðar út um lengri eða skemmri tíma. Oft hugsar fólk sér að flytja í þessar íbúðir sjálft ef það skyldi vilja flytja til höfuðborgrsvæðisins af landsbyggðinni.
    Í sjálfu sér veit enginn og getur enginn sagt fyrir um það nákvæmlega hversu mikið leiga mundi hækka ef kerfið yrði tekið upp í þeirri mynd sem það er sett hér fram, þ.e. án þess að það sé tekið á skattamálunum jafnframt. En það er alveg öruggt að leiga mun hækka. Og hvort sem manni líkar betur eða verr, hvort sem maður hefur skoðun á því að það sé siðferðislega rétt að líta á það að leigan hefur ekki verið gefin upp, þá breytir það ekki því að maður þarf að horfa á afleiðingarnar. Það verður að horfa á afleiðingarnar. Þannig verður maður að gera sér grein fyrir því hvort leigan hækkar jafnvel svo mikið að húsaleigubæturnar sjálfar snúist upp í andhverfu sína. Það gerir málið ef leigan hækkar svo mikið að hún hækkar umfram það sem húsaleigubótunum nemur og þá er til lítils af stað farið og betur heima setið. Eins gæti það komið þannig út og kemur að sjálfsögðu þannig út, ef farið er að þinglýsa leigusamningum og gefa þetta allt saman upp til skatts, að þá aukast að sjálfsögðu skatttekjur ríkissjóðs. Og væri það nú ekki kostulegt í rauninni ef upptaka kerfisins þýddi að allar húsaleigubæturnar sem áttu að fara til tekjulágra leigjenda lentu síðan eftir krókaleiðum aftur í ríkiskassann? Til hvers er þá af stað farið?
    Ég er sem sé að lýsa yfir andstöðu minni við þetta mál vegna þess að það er ekki tekið á þessum skattaþætti á sama tíma ( ÓÞÞ: Hvernig á að taka á honum?) en ef það væri gert þá mundi ég telja að það væri hægt að una við þetta mál. Hvernig á að taka á þessu, spyr hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Í fyrsta lagi tel ég að með samþykkt frv., sem hér liggur frammi, um að húsaleigutekjur verði nokkurs konar nettóstærð, þá sé stigið visst skref. En ég tel að það væri eðlilegt að húsaleigutekjur væru skattfrjálsar upp að vissu marki með sambærilegum hætti og arður af hlutabréfum sem t.d. gæti þá þýtt það að húsaleigutekjur upp á svo sem eins og 300 þús. kr. á ári nettó væru skattfrjálsar. Þetta þýddi að fólk gæti í rauninni átt eina íbúð sem það leigði út og haft af henni tekjur án þess að það væru skattskyldar tekjur. Þannig tel ég, hv. þm., að væri komið mjög til móts við það sjónarmið sem ég er hér að halda fram.
    Ég er svo sem ekki einn um að halda þessu sjónarmiði fram, að það sé nauðsynlegt að taka á skattamálum vegna leigutekna við upptöku húsaleigubóta. Ég vek athygli á því að við upphaf þessa máls í tíð þessarar ríkisstjórnar skipaði hæstv. félmrh. nefnd 23. ágúst 1991 til að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda. Í þessari nefnd voru hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og Sólveig Pétursdóttir og síðan Þórhallur Jósepsson deildarstjóri og Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri. Þessi nefnd komst í

rauninni að sömu niðurstöðu og ég. Í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin fór þess á leit við ríkisskattstjóra að tekið yrði saman yfirlit um framtalin leigugjöld á skattframtali. Varðandi upplýsingar ríkisskattstjóra er athyglisvert hve fáir telja fram leigu. Athugun ríkisskattstjóra á húsaleigugreiðslum leiddi í ljós að samkvæmt skattframtölum 1991 var tilgreind leiga hjá 3.779 einstaklingum samtals að fjárhæð 606 millj. kr. Samkvæmt athugun Þjóðhagsstofnunar námu framtalin leigugjöld 780 millj. kr. á árinu 1992 en samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar á stærð leigumarkaðarins er gert ráð fyrir því að um 4 milljarðar kr. hafi verið greiddir í leigu á því ári. Nefndin lagði til að reglur um skattlagningu leigutekna verði einfaldaðar og dregið verði úr skattlagningu í hverju einstöku tilviki. Tillögum nefndarinnar hefur verið komið á framfæri við fjármálaráðuneytið til frekari úrvinnslu.``
    Þannig að í upphafi þessa máls hefur nefnd félmrh. beinlínis gengið út frá því að endurskoðun á skattlagningu húsaleigutekna væri hluti af þessu máli. En það er ekki einungis þessi nefnd, sem fjallaði um þetta mál, sem komst að þessari niðurstöðu heldur vil ég líka vitna í umsögn frá Alþýðusambandi Íslands um þetta mál. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á 37. þingi Alþýðusambands Íslands 1992 var samþykkt eftirfarandi ályktun um húsaleigubætur. Taka verður upp tekjutengdar húsaleigubætur, tryggja verður að þær leiði ekki til hækkunar á húsaleigu, herða verður lagaákvæði sem bæta réttarstöðu leigjenda, endurskoða þarf skattlagningu leigutekna af íbúðarhúsnæði.``
    Af hverju skyldi Alþýðusambandið leggja áherslu á þetta? Þar eru að vissu leyti innan raða margir leigjendur, en síðan fjölmargir húseigendur, sérstaklega fólk sem er í þeirri stöðu sem ég ræddi hér um áðan, fólk sem býr úti á landsbyggðinni og hefur komið sér upp lítilli viðbótaríbúð hér á höfuðborgarsvæðinu oftast til að hjálpa börnum sínum við að mennta sig.
    Alþýðusambandið segir hér á öðrum stað í umsögn sinni um frv., með leyfi forseta:
    ,,Húsaleigubætur koma að litlu gagni fyrir leigutaka ef húsaleiga hækkar samsvarandi á móti. Í þessu sambandi hefur einkum verið litið til fárra frádráttarheimilda leigusala á kostnaði við húsnæði og mikillar skattlagningar á leigutekjur. Þessi þunga skattheimta hefur leitt til þess að leigutekjur eru ekki taldar fram til skatts en út frá upplýsingum í greinargerð með frv. má ætla að innan við 20% leigutekna séu taldar fram og þá sennilega nær eingöngu á móti frádráttarlið. Af þessum sökum hefur leigumarkaðurinn orðið svartur en það virðist vera viðurkennt af almenningi og jafnvel af yfirvöldum að svo eigi að vera. Það laumuspil sem verður á leigumarkaði af þessum ástæðum er ekki til hagsbóta fyrir leigutaka og þrengir að þeim í samskiptum við leigusala og á leigumarkaði almennt. Skatttekjur opinberra aðila af leigu eru ekki miklar svo veruleg breyting og lækkun á skattlagningu leigutekna af íbúðarhúsnæði mun ekki skerða tekjur ríkissjóðs. Með minni skattlagningu mun hvatinn til að telja fram leigutekjur aukast og leigumarkaðurinn þar með hreinsast. Verði lög um skattlagningu leigutekna ekki rýmkuð eru líkur á að tvenns konar leiguverð gildi á leigumarkaði með tilkomu húsaleigubóta. Annars vegar núverandi leiga til þeirra sem ekki munu njóta bóta og þar með ekki gefa upp leigugjöldin á launamiða. Hins vegar mun leiga verða hærri hjá þeim sem fá húsaleigubætur því sú leiga mun að öllum líkindum verða talin fram til skatts hjá leigutaka. Hækki leiga vegna húsaleigubóta vegna þess að hún verði talin fram þá munu bæturnar fara aftur til ríkissjóðs og sveitarfélaga í formi skatta leigutaka. Verði þetta framgangsmátinn verður ekki séð að húsaleigubætur nái tilgangi sínum. Því vill Alþýðusambandið leggja áherslu á að skattlagning leigutekna verði endurskoðuð.``
    Þetta segir í umsögn Alþýðusambands Íslands, virðulegi foreti. Ég tel því að þegar litið er á þetta mál í heild þá hljótum við hv. alþm. að gera okkur grein fyrir því að það er ekki hægt að slíta í sundur upptöku húsaleigubóta og endurskoðun á skattlagningu leigutekna. Ég tel því að það sé ekki hægt að láta þetta mál ganga fram án þess að á sama tíma sé endurskoðuð skattlagning á leigutekjum, annars er stór hætta á því að húsaleigubæturnar snúist upp í andhverfu sína og í stað þess að verða framfaramál fyrir lágtekjufólk, sem leigir húsnæði og þarf að leigja sér íbúð, að þá verði þetta til þess á endanum að gera kjör þess verri, að leigan í rauninni hækki frá því sem nú er.