Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 23:00:03 (7350)


[23:00]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Þetta mál hefur tekið óvænta stefnu í þessum umræðum. Við sem vorum að vinna að þessu máli í félmn. stóðum í þeirri trú að stjórnarflokkarnir stæðu að þessu máli óskiptir og það kom ekkert fram um það hjá fulltrúum Sjálfstfl. í félmn. að flokkurinn stæði ekki heill og óskiptur að þessu máli.
    Það er nú svo að þó að við fulltrúar Framsfl. styðjum tilgang þessa frv., styðjum húsaleigubætur, séum þeirrar skoðunar að leigjendur eða þeir sem óska eftir því að leigja fái tilstyrk til þess eins og þeir sem njóta vaxtabóta og búa í eigin íbúð eða félagslegum íbúðum, njóti styrks til þess að koma þaki yfir höfuðið sér, þá höfum við ýmsar athugasemdir við þetta mál. Málið fékk mjög neikvæðar umsagnir hjá sveitarfélögunum og það hafa komið fram veigamikil rök fyrir því að húsaleiga muni hækka, ef skattlagning leigutekna verður ekki endurskoðuð.
    Við féllumst á að taka þetta mál út úr nefnd og féllumst á það með þeim fyrirvara reyndar að flytja brtt. við ákvæði til bráðabirgða um málið sem kveður á um endurskoðun og þá verði einmitt endurskoðuð skattlagning leigutekna og hvort rétt sé að greiða húsaleigubætur gegnum skattkerfið. Það er alveg ljóst að ef vilji er fyrir því hér á Alþingi að flýta þessari endurskoðun á skattlagningu húsaleigutekna og ganga í það mál strax þá erum við fulltrúar Framsfl. reiðubúnir til að ræða um það mál, ef ljóst er að það er þingvilji fyrir því að endurskoða skattkerfið að þessu leyti strax og afgreiða löggjöf um slíkt fyrir næstu áramót. Við erum tilbúnir að ræða slíka málsmeðferð. En ég stóð í þeirri meiningu að hæstv. fjmrh. Sjálfstfl., og fékk reyndar upplýsingar um það, væri ekki tilbúinn til þess að gefa yfirlýsingar um slíka endurskoðun. Hæstv. fjmrh. er nú hér staddur eða var það a.m.k. hér í hliðarherbergi. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að kalla hann til þessarar umræðu því það er mikilvægt að ræða þessi mál við hann og vil ég inna hæstv. forseta eftir hvort hæstv. fjmrh. sé hér.
    ( Forseti (PJ) : Hæstv. fjmrh. hefur gengið í salinn.)
    Já, þá vil ég víkja að frv. um húsaleigubætur og þeim umræðum sem verið hafa hér

um endurskoðun á skattlagningu húsaleigutekna. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann sé tilbúinn til þess að láta slíka endurskoðun fara fram og afgreiða löggjöf þess efnis nú á haustþingi, endurskoðun á skattlagningu húsaleigutekna. Það hefur komið fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. að stuðningur hans við þetta stjfrv. er háður því að slík endurskoðun fari fram. Annar þingmaður Sjálfstfl., hv. 3. þm. Reykv., hefur lýst þeirri skoðun að það beri að geyma þetta frv. og afgreiða það ekki á þessu þingi með svolítið öðrum rökstuðningi að vísu, að sveitarfélögin hafa mælt mjög gegn því að sá háttur verði hafður á sem frv. gerir ráð fyrir um samstarf ríkis og sveitarfélaga að þessu verkefni. Ég tel mikilvægt að þetta komi fram, hvort hæstv. fjmrh. er þeirrar skoðunar að slík endurskoðun geti farið fram eða hvort hann vill beita sér fyrir því.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð að þessu sinni. Ég get tekið til máls um þetta mál síðar. En ég tel afar mikilvægt að fá þessa yfirlýsingu því að við hv. 2. þm. Vesturl. og hv. 10. þm. Reykv. höfum flutt brtt. við ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun og að þar verði sérstaklega hugað að breytingum á skattlagningu leigutekna sem hvetji til útleigu íbúða. Það er í lófa lagið að flýta þessu verki þannig að húsaleigubætur geti tekið gildi um áramótin og auðvitað verður fjárln. að fjalla um fjármögnunina þó að hér liggi fyrir bréf og samkomulag félmrh. og fjmrh. um fjármögnun sem ég kem að síðar.