Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 23:09:12 (7351)


[23:09]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. spurði mig að því hvort ég væri tilbúinn til þess að standa að endurskoðun á skattlagningu húsaleigutekna. Í því sambandi vil ég láta það koma hér fram að það er að sjálfsögðu eðlilegt að skattalög séu skoðuð og séu í sífelldri skoðun, ekki síst með tilliti til eignatekna, en eins og allir vita þá hafa þau mál verið til umræðu upp á síðkastið, ekki síst í tengslum við hinn svokallaða vaxtaskatt. Ég tel þó ekki ástæðu til að blanda því saman við þetta mál sérstaklega.
    Í öðru lagi vil ég láta það koma fram að ég er á móti því að húsaleigubæturnar fari í gegnum skattkerfið eins og hv. þm. leggur til og tel að það eigi að fara eins með þessar bætur og aðrar bætur og aðra styrki frá opinberum aðilum sem mynda skattstofn, ef undan eru skildar vaxtabætur sem eru sérstök undantekning frá meginreglunni. Þetta er að vísu ekki andsvar í eiginlegum skilningi, en þetta er þó svar við fyrirspurn hv. þm. sem ég kýs að láta koma fram í þessu formi til þess að spara tíma.