Húsaleigubætur

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 00:52:25 (7377)


[00:52]
     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að gert verði hlé á umræðunni nú og málið tekið fyrir að nýju í félmn. og þess freistað að menn nái þar saman um mögulegar úrbætur á þessu frv.
    Umræðan um málið hefur verið þannig að það hefur enginn ræðumaður mælt gegn markmiðum málsins. Hins vegar eru allmargir, þeir mun fleiri en hinir, sem hafa fundið að framkvæmdinni og útfærslunni í frv. Það er eðlilegt þegar ósk kemur fram um það að verða við henni í ljósi umræðnanna eins og þær hafa þróast. Ég vil einnig ítreka það og undirstrika að það er nauðsynlegt og það verður ekki hjá því litið að það verður að gera breytingar á þessu máli í þá veru að mæta þörfum búsetahreyfingarinnar. Það hefur verið á það bent og það komið fram í erindi þeirra að þeir leggja áherslu á það að mál þetta um húsaleigubætur verði ekki afgreitt án þess að tekið verði á þeirra rétti þannig að þeir tengja það saman og kveða skýrt á um það að þeir óska eftir úrbótum í sínum málum en ekki hinu að verða skildir eftir einir á eyðimörk í þessum efnum.