Húsaleigubætur

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 00:57:18 (7382)


[00:57]
     Halldór Ásgrímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég tel eðlilegt að umræðu um þetta mál sé frestað nú. Það stendur í 15. gr. þingskapa: ,,Formanni nefndar er skylt að boða til fundar ef óskir berast um það frá a.m.k. þriðjungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru.`` Ég held að það sé langeðlilegast að gera það þegar sú ósk kemur fram, sérstaklega ef á að takast að ljúka þessu máli á þessu þingi. Það er verið að reyna að ná samkomulagi um þinglok og ef menn vilja greiða fyrir slíku samkomulagi, þá held ég að það sé mikilvægt að taka mál til nefndar þegar um það er beðið.
    En ég vildi aðeins segja það út af orðum hæstv. félmrh. að það væri ekki ástæða til að verða við þessu. Það þarf að sjálfsögðu að vera ljóst. Á að leysa málefni Búseta í tekjuskattslögunum eða í húsaleigubótum? Þá spyr ég: Fyrst hæstv. félmrh. segir að það eigi að leysa það í tekjuskattslögunum en það virtist nú vera að hæstv. félmrh. hafi talið að það hafi verið leyst --- að vísu er búið að draga það allt til baka --- er hæstv. fjmrh. því sammála? Er hæstv. fjmrh. tilbúinn að standa að því að leysa málefni búsetafólksins á vettvangi tekjuskattslaganna? Það þýðir náttúrlega ekkert að vísa þessu fólki sitt á hvað. Einn daginn á að leysa málefni þess í húsnæðisbótakerfi og næsta dag í tekjuskattskerfinu. Það verður að sjálfsögðu að vera ljóst áður en þessu máli verður lokið hér á Alþingi.