Tryggingagjald

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 01:41:53 (7392)


[01:41]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vildi aðeins segja út af orðum hæstv. fjmrh. að ég tel að þetta mál sé í raun og veru afleiðing af þeirri skattastefnu sem ríkisstjórnin mótaði fyrir áramótin. Ef þar hefði verið mótuð önnur skattastefna, bæði að því er varðaði virðisaukaskattinn, eignarskatt og margt fleira, þá hefði ekki þurft að standa í þessum sporum og þá hefði hv. þm. Egill Jónsson ekki þurft að hafa fyrir því að mótmæla með réttmætum hætti þessum

gjörningi. ( VE: Egill Jónsson er afar hamingjusamur þegar hann talar fyrir hagsmunum bænda.) Þess vegna tel ég að það eigi að gefa honum tækifæri til að tjá sig hér og ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann ætli ekki að greiða fyrir því að flokksbróðir hans fái að tjá sig um þetta mál. Ég tel það vera alveg nauðsynlegt þannig að þau sjónarmið komist hér á framfæri. Ég veit ekki betur en það séu ýmsir aðrir í Sjálfstfl. sem styðja hann í þessu máli. Þannig að ég hef miklar efasemdir um að það sé meiri hluti fyrir þessu máli á Alþingi eins og reyndar fleiri stjórnarfrumvörpum um þessar mundir. Það er verið að segja okkur að það sé meiri hluti fyrir málum eins og húsaleigubótum og þessu máli. Síðan kemur í ljós að það er fjöldinn allur af þingmönnum sem eru andvígir málinu og mér finnst lágmark að þeir fái tækifæri til að tjá sig hér.