Tryggingagjald

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 01:44:11 (7394)


[01:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig rétt að þessi afstaða mín byggist á þeirri skattastefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið gagnvart fyrirtækjunum og ég tel hana vera fyllilega lógíska. Ég minni á það, vegna þess að hv. 1. þm. Austurl. er ekki einn um að leggja til að aðeins skattalækkunin nái fram að ganga, að fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, ef ég man rétt, var einangraður í sínum þingflokki því þingflokkur Kvennalistans tók aðra afstöðu til meginmálsins, sem var lækkun á virðissaukaskatti af matvælum. Þannig að ef það ætti að vera um fulla lógík að ræða þá gæti ég gengið út frá því econtrario að Alþb. og Kvennalistinn styddu frv.
    Forseti ræður að sjálfsögðu hvort umræðunni lýkur og öðrum þingmönnum gefist tækifæri til að taka til máls. En ég minni á að þetta er 2. umr. málsins og hv. þm. Egill Jónsson hefur boðað það að fara gegn frv. Þau sjónarmið sem hann hefur gegn frv. gætu allt eins komið fram í 3. umr., enda verður greitt atkvæði um frv. í heilu lagi að lokinni 3. umr. málsins.
    Virðulegur forseti, ég hvet til þess að umræðunni ljúki í kvöld, ef það mætti verða, en auðvitað er það á valdi hæstv. forseta.