Tryggingagjald

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 01:46:53 (7396)


[01:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Austurl. veit það jafn vel og ég að ríkisstjórnin hafði gert kjarasamninga, var aðili að kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins, og lofaði því að styðja lækkun á virðisaukaskatti á matvælum. Tekist var á um þetta á Alþingi fyrir jól. Niðurstaðan varð sú sem hún varð. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. um það hvort tillögur hans og fleiri í hv. nefnd og tillögur framsóknarmanna hefðu skilað þeim tekjum sem hann segir að þær mundu hafa gert. Ég get ekki deilt við hann hér og nú, en ég veit að þær tillögur náðu ekki fram að ganga. Þannig að staðan nú er ótvírætt þannig að þessi breyting til lækkunar mun rýra tekjur ríkissjóðs um allt að 100 millj. kr. miðað við núverandi ástand, núverandi niðurstöðu, og það þarf að ná þeim fjármunum inn. Um það hef ég gert tillögu og þá tillögu stend ég að sjálfsögðu við.