Tryggingagjald

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 01:48:15 (7397)


[01:48]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu alveg ljóst og það þarf ekki að halda nein erindi um það í þessum stól að sérákvæði um einstök fyrirtæki gilda ekki í skattalögum og hafa aldrei verið. Þau sérákvæði um einstök fyrirtæki og endurgreiðslu á einhverju til þeirra eru venjulega í heimildargrein fjárlaga.
    Það sem er hins vegar til umhugsunar í þessu sambandi fyrir Alþingi er hvort sú lagasetning sem ákveðin var, fyrst með bráðabirgðalögum og síðar með staðfestingu á þeim, er nægilega vönduð. Ég segi alveg eins og er að ég dreg það stórlega í efa.
    Hér stendur í þessum bráðabirgðalögum frá 1993: ,,Heimilt er að endurgreiða tryggingagjald sem lagt er á aðila sem stunda útflutning . . .  `` o.s.frv. ,,á tímabilinu frá júní til desember 1993.`` Síðan kemur til skýringar á þessu: ,,Til aðila skv. 1. mgr. teljast: 1. Aðilar sem stunda fiskveiðar, fiskeldi og fiskvinnslu.`` --- Það er sem sagt algjörlega opið með þá. Það er alveg sama hver selur afurðirnar, þeir fá alltaf sitt. En þegar um er að ræða aðila sem flytja út og skapa verðmæti en ekki eru í fiski, fiskeldi eða fiskvinnslu þá kemur allt annað upp á daginn. Það er þetta hér, með leyfi forseta:
    ,,Aðilar í atvinnugreinum samkvæmt öðrum og þriðja flokki í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands.``
    Nú er það alveg ljóst að það getur ekki hafa verið ætlun löggjafans að mismuna fyrirtækjum eftir því hvort þau eru í fiskvinnslu, fiskveiðum og fiskeldi annars vegar eða iðnaði eða útflutningsiðnaði hins vegar. Mér sýnist að það geti ekki verið, að löggjafinn geti ekki hafa ætlast til þess að mismuna þessum aðilum. Og auðvitað kemur maður að því í þessu máli eins og reyndar oft ella að það er mjög algengt að það eru búnar til reglur sem eru tiltölulega skýrar og klárar og kvitt þegar um er að ræða fisk, en þegar um er að ræða annað hér í þessu landi, þá eru menn lagnir við að búa til það sem núv. iðnrh. hefur kallað tæknilegar viðskiptahindranir sem menn leggja á sig sjálfir. Þetta er í raun og veru veruleikinn sem blasir við vegna þess að ef túlkun fjmrn. er rétt, þá kemur upp þessi spurning: Hver á réttinn til niðurfellingar tryggingagjaldsins á framleiðsluvöru Kísiliðjunnar, hver á þann rétt? Það getur ekki verið ætlun löggjafans í þessu tilfelli að enginn eigi hann, það hlýtur einhver að eiga þann rétt. Og í greinargerð Baldurs Guðlaugssonar og fleiri stendur t.d., með leyfi forseta:
    ,,Í ljósi þess að algengasta formið í sjávarútvegi er í gegnum sameiginleg sölusamtök umsýsluaðila sem eru sjálfstæðir lögaðilar verður að telja mjög varasamt að löggjafinn hafi ætlað að setja það sem skilyrði fyrir endurgreiðslunni að framleiðslufyrirtækin seldu sjálf framleiðslu sína erlendis. Væri sú raunin er a.m.k. ljóst að endurgreiðsluréttur aðila í fiskveiðum og að nokkru í fiskvinnslu hlýtur að hafa verið töluvert takmarkaðri en látið var að liggja við setningu laganna.
    Útflytjendur sem slíkir eiga ekki rétt á endurgreiðslu. Þannig á Celite hf. ekki rétt til endurgreiðslu né önnur fyrirtæki sem stunda útflutning en framleiða ekki þá vöru sem þeir flytja út. Útflutningsverslun er í 6. flokki atvinnuvegaflokkunar Hagstofu Íslands líkt og önnur verslunarþjónusta. Sé skilningur skattyfirvalda réttur ætti enginn aðili rétt á endurgreiðslu vegna framleiðslu Kísiliðjunnar hf.``
    Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég á í raun og veru mjög erfitt með að fallast á það að þetta geti almennilega staðist. Hér segir t.d. í lokin á þessari lögfræðilegu greinargerð, með leyfi forseta:

    ,,Í ljósi þess að Celite hf. er sérstaklega stofnað sem sölufélag, hefur það lögbundna hlutverk að koma framleiðslu Kísiliðjunnar hf. á markað erlendis og með tilliti til þess að kísilgúrinn er þegar seldur erlendis þegar Celite hf. tekur við honum, verður að telja hæpna þá forsendu skattyfirvalda að Kísiliðjan hf. framleiði til sölu á markaði innan lands.``
    Mér er út af fyrir sig ljóst, hæstv. forseti, að við munum ekki leysa þetta mál með málfundum hér um hánótt þó að það sé gert í þessari virðulegu stofnun. En þetta vekur til umhugsunar um það í fyrsta lagi hvort lagasetning okkar var nægilega vönduð og nægilega skýr. Ég dreg það í efa. Í öðru lagi hvort þetta er ekki þannig að skattstofan í Norðurlandi eystra felldi tiltekinn úrskurð og þá kemur að því sem heitir tilhneiging kerfisins til innbyrðis samstöðu. Ég notaði ekki orðið ,,samtrygging`` í þessu, það er svo slitið og það er heldur ekki sanngjarnt að nota það, en það er eins og fara vill, að þegar menn leggja af stað með þessa halarófu þá hangir fjórbjörn í þríbirni og þríbjörn í tvíbirni og tvíbjörn í einbirni o.s.frv. og menn vilja ógjarnan að halarófan slitni, sýna samstöðu með einbirni alveg fram í rauðan dauðann, jafnvel þó að það kosti málaferli fyrir Hæstarétti til að bjarga honum upp úr brunninum. Ég skil því ákaflega vel, ég segi það alveg eins og er, að þetta fyrirtæki skuli ganga fast eftir rétti sínum, hæstv. forseti.
    Ég ætla ekki að fara að blanda mér í þá umræðu sem hefur farið fram að öðru leyti um þetta mál, um tryggingagjaldið. Hv. þm. Egill Jónsson óskaði eftir því að málið kæmi hér aftur til meðferðar. Þetta er 2. umr., 3. umr. er eftir þannig að hv. þm. Egill Jónsson getur komið sínum athugasemdum á framfæri þá ef hann vill. Ég heyrði hans athugasemdir og hann batt þar samkvæmt yfirlýsingu miklar vonir við það sem hæstv. fjmrh. sagði um málið, um tryggingagjaldið á sínum tíma. Ekki skal ég um það segja hvort vonir hans rætast, hv. þm. Egils Jónssonar, þær hafa oft ræst, hans vonir og trúlega oft eins og kunnugt er, og ég ætla heldur ekki að blanda mér í þá umræðu sem er hér að nokkru leyti hafin um það hvort það er rétt að lækka skatta á matvörum eða ekki. Ég held að það hafi verið skynsamleg ráðstöfun, mér fannst það skynsamlegt hjá ríkisstjórninni að standa við þá kjarasamninga sem hún gerði og ég held að það sé ákaflega merkilegt til umhugsunar að staðan er þannig núna að matarskattslækkunin er að skila sér í verðlaginu með mjög myndarlegum hætti, kemur fram í verðkönnunum sem hafa verið gerðar þannig að þó að margt megi að þessum málum finna, þá er það engu að síður veruleiki sem blasir við íslenskum neytendum.