Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 02:12:53 (7407)


[02:12]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
     Virðulegi forseti. Mér finnst nú að það sé kannski rétt að athuga hina almennu stöðu þess máls sem á að fara að ræða hér með hliðsjón af því að það stendur víst til að fara að ljúka þinginu áður en mjög langt um líður.
    Þegar menn eru að ljúka þingi þá gerist það stundum eins og menn þekkja að málum lýkur alveg undrafljótt. Málum sem annars taka marga daga lýkur stundum á örfáum mínútum. Það er svo sérkennilegt. Ég held að það væri sniðugt af hæstv. forsetum þingsins að kanna það hvort ekki er hægt að finna flöt á þessu máli eins og hinum. Það er fullt af alls konar bálkum út og suður sem fjalla að vísu ekki um jafnvirðulegar skepnur og á að fara að ræða hér en t.d. um kvikindi sjávarins. Ég spyr, hæstv. forseti, væri það nú ekki bara sniðugt að leyfa þessu máli að skoðast með hliðsjón af ýmsum öðrum málum í staðinn fyrir að fara að nudda í þessu fram eftir nóttu? Það er hvort eð er mjög stutt eftir því það verður farið að skúra um fjögurleytið og reynslan er sú að það er ekki hægt að halda áfram fundum eftir að ryksugurnar fara í gang. Við reyndum það oft fyrir tveim til þrem

árum og höfum sum sem erum í salnum verulega þjálfun í því að reyna að yfirtala ryksugurnar án árangurs. Ég skora því á forseta í nafni almennrar mannúðar og skemmtilegheita, sem forsetarnir eiga til alveg hver um annan þveran. ( PJ: Skoraðu þá á hann að halda umræðunni bara áfram.) Það var nefnilega misskilningur. Þetta sýnir hvað skörpum mönnum eins og hv. þm. Pálma Jónssyni getur skjöplast þegar þeir eru orðnir syfjaðir. Því ef hann væri ekki orðinn svona lúinn þá hefði hann séð hvernig ég ætlaði að lenda þessu. Þannig að ég skora á þessa þingmenn í nafni skemmtilegheita, í nafni mannúðar og skilnings á stöðunni að hætta þessu nuddi núna og spjalla svo saman í fyrramálið þegar menn eru vaknaðir.