Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 04:21:26 (7417)


[04:21]
     Petrína Baldursdóttir :
     Virðulegur forseti. Hér hefur hv. 5. þm. Reykv. haldið mjög yfirgripsmikla og málefnalega ræðu og komið inn á mörg atriði varðandi þetta mál og vill fá svör við ýmsu. Hann gerði mikið úr fyrirvörum nefndarmanna og eftir því sem ég hef skilið þá finnst honum það mjög óeðlileg afgreiðsla málsins. Nefndin stendur að breytingartillögum á þskj. 1053 en ef maður skoðar fyrirvarana þá eru þeir einungis fólgnir í því að ákveðnir nefndarmenn ætluðu að flytja breytingartillögur eins og varðandi 4. gr. sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Árni Ragnar Árnason og sú sem hér stendur fluttu breytingartillögu við varðandi veiðistjóraembættið og sameiningu þess við Náttúrufræðistofnun Íslands. Sú tillaga hefur verið kölluð til baka. Aðrir nefndarmenn fluttu breytingartillögur varðandi 16. gr. frv. sem varðar selina. ( IBA: Standa fyrirvaranir sem sagt?) Þær tillögur koma vart til afgreiðslu þar sem það er tillaga frá ráðherra að hún falli brott. Það á sér því ýmsar skýringar af hverju þessir fyrirvarar eru.
    Eins og kom fram nokkuð oft hjá hv. þm. sem talaði áðan þá er þetta mál búið að eiga sér töluverðan aðdraganda. Mér skilst að þetta sé í þriðja skipti sem það er lagt fram. Þetta mál er búið að vera í vinnu umhvn. nú í vetur og það er búið að leggja mjög mikla vinnu í það. Það er búið að senda það út til umsagnar til fjölmargra aðila. Nefndin hefur fengið fjölmarga aðila til sín á fund og það gefur náttúrlega auga leið að nefndin hefur ekki tekið tillit til allra þeirra atriða sem gerðar voru athugasemdir við. Það var reynt að koma til móts við margar athugasemdir sem komu fram, bæði í umsögnum og í samræðum við þá aðila sem komu inn á fund, en það er alveg ljóst að nefndin fór ekki eftir öllum ábendingum, enda veit hv. þm. að það er ekki hægt að fara eftir öllum ábendingum sem koma fram við ákveðin mál. Menn taka vitanlega málefnalega afstöðu til þess máls sem um er verið að fjalla hverju sinn og koma að þeim ábendingum sem þeir telja að séu mikilvægar fyrir málið og komi til með að bæta málið. Það hlýtur að vera það sem hv. þm. hafa að leiðarljósi í sinni vinnu í nefndum. Það gefur auga leið. En við vitum alveg að þegar margir fjalla um mál þá geta verið mismunandi skoðanir eins og kemur fram hjá hv. þm. Hann hefur allt aðra skoðun heldur en hv. umhvn. á þessu máli t.d.
    Hv. þm. gerði mikið úr forgangi málsins bæði fyrr í dag og nú í upphafi síns máls og var þar af leiðandi að fetta fingur út í það að umhvrh. væri ekki hér til að hlýða á mál hans og formaður nefndar, það væri aðeins starfandi umhvrh. og varaformaður nefndarinnar. Þetta eru að mínu mati ekki veigamikil rök fyrir því að geta ekki flutt sitt mál vegna þess að hv. þm. veit að það var búið að áætla það að þinglok yrðu um mánaðamótin. Þing hefur dregist og hæstv. umhvrh. er að sinna embættiserindum erlendis og líka hv. formaður umhvn. Það voru erindi sem þau töldu að þau gætu ekki frestað og það er þeirra mál.
    Hv. þm. varð tíðrætt um miðstýringaráráttuna í þessu frv. og gerði mikið úr alræðisvaldi umhvrh. Það verður náttúrlega hver að fá að hafa sína skoðun á því. ( IBA: Er þingmaðurinn ósammála?) Ég var að segja að það yrði hver að fá að hafa sína skoðun á því. ( IBA: Hver er skoðun þingmannsins?) Skoðun mín er sú að mér finnst ásakanir um miðstýringar á nokkrum misskilningi byggðar. Það er alveg ljóst að við uppbyggingu á þessu frv. var hægt að fara margar leiðir. Það var náttúrlega hægt að fara þá leið sem farin var, þ.e. að friða villt dýr og fugla og leyfa veiðar með reglugerð. Það var hægt í öðru lagi að leyfa veiðar ótakmarkað og gefa ráðherra vald til að banna veiðar með reglugerð og í þriðja lagi að fastsetja veiðitíma í lögum og leyfa engin eða mjög lítil frávik. Ég geri ráð fyrir því af því að hv. þm. hefur talað svo mikið um miðstýringaráráttuna að hann vilji jafnvel fara þessa þriðju leið sem ég er að tala um. Hann vill fastsetja veiðitíma í lögum --- er það ekki? --- og leyfa engin eða mjög lítil frávik. Ég er ekki á sömu skoðun og hv. þm.
    Þetta frv. fjallar um villt dýr og ég tel að það þurfi að vera í þessu máli sveigjanlegt kerfi sem hægt er að laga fljótt að breyttum aðstæðum og nýrri þekkingu. Með því að fastsetja veiðitíma og verndaraðgerðir í lögum þá missir stjórnkerfið nauðsynlega af sveigjanleika sínum og nær ekki markmiði sínu.
    Markmið frv. er, eins og kemur fram í 2. gr., með leyfi forseta: ,, . . .  að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, skipulag á veiðum og annarri nýtingu dýra, svo og skipulag á aðgerðum til að koma í veg fyrir tjón sem villt dýr kunna að valda.``
    Hv. þm. veit það af því að hann hefur lesið frv. vel að það er verið að stefna að því með frv. að stórauka rannsóknir og eftirlit með stofnstærð villtra dýra og meta veiðiþol á þeim grundvelli. Til þess að þetta sé hægt þarf að vera sveigjanlegt stjórnkerfi og samkvæmt frv. verða ákvarðanir um veiðar teknar á grundvelli rannsókna og þekkingar fyrst og fremst.
    Þetta tel ég vera töluvert mikið atriði þegar við erum að tala um þessa miðstýringaráráttu sem hv. þm. talar mjög mikið um.
    Varðandi veiðikortin þá verð ég að segja að það hefur alveg komið í ljós hver skoðun hv. 5. þm. Reykv. er á veiðikortunum. Við í meiri hluta umhvn. vorum fylgjandi veiðikortum. Við teljum það að veiðikortunum muni fylgja skýrslugerð sem er afar mikilvæg fyrir þekkingu okkar á veiðunum og stofnstærð og skýrslurnar hljóta að vera lykilatriði varðandi vitlega stjórnun á veiðunum.
    Ég sé ekkert að því að krafist sé einhverrar hæfni af veiðimönnum og einhverjar kröfur gerðar í þá átt. Það hefur verið þannig hjá okkur að það hefur verið litið svo á að

allir séu fæddir veiðimenn og menn geti bara farið hérna út, skotið af byssum og skotið á hvað sem er. Við höfum dregist stórkostlega aftur úr um kröfur varðandi þetta mál. Við höfum alltaf litið á það hér að menn séu fæddir veiðimenn. Með þessu er verið að fara inn á þá braut að veita lágmarkstilsögn í meðhöndlun skotvopna. Það hafa verið námskeið hjá dómsmrn. bæði árin 1990 og 1991 og á þeim hefur verið farið í vistfræði og náttúruvernd. Það er að okkar mati mjög mikilvægt að kennsla í meðferð skotvopna sé efld og við teljum að það beri að stórauka og efla þessi námskeið. Og það er einmitt grundvöllurinn á bak við þetta veiðikort.
    Hv. þm. talaði mjög mikið um gjald af veiðikortum, 1.500 kr. Það kom aldrei fram í nefndinni að mönnum fyndist það gjald eitthvað óeðlilega mikið eða eitthvað óeðlilegt að menn borguðu þessar 1.500 kr. fyrir veiðikortið. Menn töldu að 1.500 kr. væri mjög sanngjarnt verð. Það er náttúrlega ákveðin umsýsla í kringum þetta kort. Þarna er verið að fylgjast með veiðum og stofnstærð dýra og það á að nýta til þess að rannsaka þessa stofna. Ég held því að hv. þm. geri dálítið mikið úr þessu atriði.
    Hv. þm. las upp úr ræðum frá árinu 1992 og vitnaði í nokkra hv. þm. sem höfðu tjáð sig um málið þá. Ég þarf ekkert að benda hv. þm. á að nú er árið 1994 og við erum að ræða þetta mál. Það kann að vera að þó að einhver hv. þm. hafi tjáð sig um málið árið 1992 hafi hann breytt um skoðun. Hvað er að því þó að menn breyti um skoðun? Það getur vel verið að menn láti afstöðu sína til mála þroskast og það getur vel verið að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson vitnaði til áðan, hafi einmitt gert það. En það verður hins vegar að segjast eins og er að sú sem hér stendur getur ekki svarað fyrir hv. þm. Gunnlaug Stefánsson en lætur sér detta það hug að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hafi jafnvel tekið auknum þroska í afstöðu sinni til þessara mála. Það er mitt mat.
    Ég vildi koma aftur inn á miðstýringaráráttu í frv. af því að hv. þm. var mjög tíðrætt um hana og gerði mjög mikið úr henni, að það kom fram við 1. umr. um málið hjá hæstv. umhvrh. að hann setti sig ekki á móti því að reglugerðir yrðu sameinaðar. Og þegar umhvn. vann að málinu eftir 1. umr. með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sá hún ekki ástæðu til að hrófla við því. Það kom hvergi fram í vinnu umhvn. eða neinni afstöðu neins fulltrúa stjórnmálaflokkanna í nefndinni að það væri eitthvað óeðlilegt við öll þessi reglugerðarákvæði og umhvn. sá ekki ástæðu til að sameina þessar reglugerðir.
    Hv. þm. spurði mikið um reglugerðina um veiðikortin og var að ræða um viðurlög. Hann kom t.d. inn á viðurlög ef menn hafa ekki veiðikort. Það segir í drögum að reglugerð:
    ,,Handhafar veiðikorta sem gerast brotlegir við lögin eða reglugerðir settar samkvæmt þessum lögum skulu sviptir veiðikorti. Til þess að fá veiðikort á ný skulu þeir sækja námskeið fyrir verðandi veiðimenn og ljúka hæfnisprófi með fullnægjandi árangri, sbr. 10. gr., nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum.``
    Þar er að sjálfsögðu verið að vitna til almennra hegningarlaga tel ég.
    Hv. þm. var mjög víðrætt um 50 metrana sem er búið að auka í 250 metra. Ég veit ekki hvort hv. þm. man eftir umræðunni sem varð um þetta mál við 1. umr. Þar kom einmitt hv. þm. Ingi Björn Albertsson inn á þetta atriði í umræðum og fékk svör við þessu. Í vinnu nefndarinnar komu margar ábendingar um þetta atriði. Margir töldu að það væri mjög eðlilegt að þetta yrðu 200--250 metrar. Menn bentu réttilega á það varðandi þessa 50 metra að það væri hægt að skjóta bara úr bílnum. Það var ekki talið eðlilegt að menn sætu bara inni í bíl og væru að skjóta út.
    Ég veit ekki hvort ég á að vera að vitna meira í Skotveiðifélag Íslands, Skotvís. En varðandi afstöðu Skotvíss til þessa frv. þá var Skotvís beðið um umsögn og sendi inn 14. apríl 1992. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Skotvíss lýsir stuðningi sínum við þá tilraun sem í frv. felst til þess að taka heildstætt á friðun, vernd og veiðum fugla og spendýra. Hluti þessa máls, veiðikortið, sem reyndar er bráðum áratugar gömul tillaga Skotvíss . . .  ``
    Og Skotvís segir í þessari umræddu umsögn:

    ,,Skotvís hefur lengi verið því fylgjandi að menn gangist undir hæfnispróf áður en þeir fá leyfi til veiða og allir sem veiðar stunda fái veiðikort. Einnig erum við sammála því að fyrir kortið sé greitt sanngjarnt gjald, enda renni það til rannsókna á stofnum veiðidýra eins og segir í frv. Auknar rannsóknir á veiðidýrum og skráning veiði er að okkar mati löngu tímabær.``
    Þetta er álit Skotvíss 14. apríl 1992.
    Hv. þm. kom hérna aðeins inn á byssur. Það kom alveg skýrt fram í framsöguræðu ráðherra með frv. að ákvæði frv. varðandi byssurnar eru alveg í fullu samræmi við núgildandi löggjöf um skotvopn þannig að það er engin breyting.
    Ég tel mig hafa reynt að svara flestu af þeim atriðum en það er kannski það sem hv. þm. kom inn á varðandi 10 atriði, hann vitnaði hérna í bréf sem allir alþingismenn áttu að hafa fengið og sennilega hafa þeir allir fengið það og vildi vita afstöðu nefndarinnar til hvers atriðis. Ég vil upplýsa hv. þm. um það að þetta bréf barst 28. apríl 1994. Þá var vika liðin frá því að nefndin afgreiddi málið út úr nefnd og hafði lokið sinni umfjöllun um frv. Nefndin hefur því ekki tekið efnislega afstöðu til þessara punkta sem hann las upp og vildi fá svör við enda ekki eðlilegt að fara fram á það að þegar nefnd hefur lokið umfjöllun sinni um mál. Þetta kom of seint til þess að hægt var að svara afstöðu nefndarinnar til þessa.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi ekki mál mitt lengra að sinni.