Leikskólar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:05:33 (7423)


[10:05]
     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um leikskóla frá menntmn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem byggist á endurskoðun núgildandi laga um leikskóla. Í frumvarpinu er kveðið á um aukna ábyrgð sveitarfélaga auk þess sem lögð er áhersla á að leikskólinn sé fyrsta stig skólakerfisins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Lagt er til að í 9. gr. verði tryggt að þar sem tvö eða fleiri sveitarfélög kjósa að sameinast um rekstur leikskóla eigi þau öll fulltrúa í þeirri nefnd sem fer með málefni leikskóla. Þá vill nefndin benda á að fram kom í umfjöllun um málið að leikskólakennarar væru á meðal þeirra starfsstétta sem vísað er til í hugtakinu ,,sérfræðingar`` í 15. gr. frumvarpsins. Nefndin vill árétta að sá skilningur verði lagður í ákvæðið þrátt fyrir að leikskólakennarar séu ekki nefndir í athugasemdum með frumvarpinu.
    Í frv. því sem hér er til umræðu er sveitarfélögunum falið veigameira hlutverk varðandi leikskólahald en verið hefur til þessa og sjálfsákvörðunarvald þeirra hvað varðar þennan málaflokk er styrkt. Ég nefni sem dæmi:
    1. Gert er ráð fyrir að leyfisveiting til reksturs leikskóla sé í höndum sveitarstjórna.
    2. Sveitarfélög, eitt eða fleiri saman, ráða leikskólafulltrúa sem annast ráðgjafarstörf og eftirlit með starfsemi leikskóla og sinna verkefnum sem umdæmisfóstrum er ætlað samkvæmt gildandi lögum.
    3. Á tveggja ára fresti skal meta þörf fyrir leikskólarými og gera á grundvelli þess mats áætlun til þriggja ára um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi. Það er síðan á valdi sveitarstjórnar að ákveða hvenær því marki er náð að nægilegt leikskólarými sé fyrir öll börn sem foreldrar óska eftir plássi fyrir.
    Gert er ráð fyrir að menntmrn. fari með yfirstjórn leikskóla eins og verið hefur. Það hefur eftirlit með því að farið sé að lögum og reglugerðum, mótar uppeldisstefnu leikskóla, er stjórnendum þeirra til ráðuneytis um starfsemina, styrkir þróunar- og tilraunastarf og sér um að mat fari fram á leikskólastarfi. Það ásamt reglugerðarákvæði um gæðaeftirlit ráðuneytisins með starfsemi leikskóla eru merkilegt nýmæli í leikskólalögum.
    Í 1. gr. frv. er kveðið skýrt á um það að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Uppeldis- og menntunarhlutverkið er styrkt með þessum hætti og áhersla lögð á það, eins og verið hefur til þessa, að eðlileg tengsl og samstarf grunnskóla og leikskóla mættu verða sem traustust og best. Það er t.d. gert með því að tengja starfsemi leikskóla skólaskrifstofum viðkomandi sveitarfélaga. Einnig er gengið út frá

því að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta við leikskóla geti sameinast ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.
    Einnig er vert að geta þess að í frv. er starfsheitið leikskólakennari fest í sessi. Lögfesting frv. er tvímælalaust til bóta og skerpir verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum leikskólans auk þess sem ýmsar aðrar lagfæringar eru gerðar á leikskólalögum.